12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. 4. þm. Austurl. Það er lofsvert þegar lánsfjáráætlun kemur þetta snemma fram á þingi.

Ég get aftur á móti ekki tekið undir það með hv. 4. þm. Austurl. að hér hafi eingöngu verið gerðar litlar breytingar á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég hef ekki haft tíma til að bera þær saman, þannig að ég einfaldlega veit það ekki. Ég get auðvitað tekið orð hans trúanleg.

Hann segir líka í ræðu sinni að nú hafi verið hægt á fjárfestingum. Það kann vel að vera rétt og er lofsvert út af fyrir sig, en ég get ekki séð, a.m.k. ekki í fljótu bragði, ef hér hafa ekki átt sér stað miklar breytingar á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að fjárfestingarmarkmiðum hafi verið breytt ýkjamikið frá fyrri árum. Mig grunar reyndar að svo sé ekki. Ég tel það mjög miður vegna þess að mér hefur virst að gagnrýni manna á fjárfestingarstefnu undanfarinna ára hafi þrátt fyrir ýmsan annan stjórnmálalegan skoðanaágreining nokkuð hneigst til svipaðra átta og að menn séu í grundvelli nokkuð sammála um að fjárfestingar verði í næstu framtíð, og jafnvel til lengdar, að beinast til annarra atvinnugreina en þær hafa beinst hingað til og þar á ég sérstaklega við iðnaðinn. Ef við ætlum ekki að bíða einhvers konar efnahagslegt skipbrot í lok þessa áratugar verðum við að vera búin að gera gífurlega stórt og mikið átak í iðnaði, því það er sú eina starfsgrein, og það segja allir og hafa margsagt í ræðum bæði hér og utan þings, sem býður upp á aukin atvinnutækifæri í framtíðinni. Þróun bæði í landbúnaði og sjávarútvegi hefur verið til þeirrar áttar að sífellt fer fækkandi því fólki sem þar starfar, bæði vegna aukinnar tækni og breyttra vinnsluhátta, og við það skapast síaukinn þrýstingur á uppbyggingu iðnaðar. Og mér sýnist að bæði fjárlög og lánsfjáráætlun taki einfaldlega ekki mið af þessari staðreynd. Menn verða að horfast í augu við að nútíminn er á morgun. Hann er ekki einhvern tíma eftir ár eða áratug. Og þó að kjörin séu kröpp þessa dagana, eins og menn tala um, vitum við að enn höfum við tiltölulega góða afkomu miðað við margar þjóðir þessa heimshluta og höfum alveg efni á að beina okkar fjármunum, sem við þó höfum milli handanna, þangað sem okkur líst að best sé að nýta þá.

Ég get ekki, eins og ég hef áður sagt, vegna þess að ég hef ekki getað kynnt mér þessa hluti nægilega vel og borið þá saman við fjárlög og fjárfestingaráætlun, talað af nægilegri þekkingu. Ég sit reyndar sem áheyrnarfulltrúi í fjh.- og viðskn., sem mun að líkindum fjalla um þetta mál, þannig að ég bý þar við betri aðstöðu en margir aðrir þdm., en það verður að ganga út frá því að þeir þdm. sem ekki geta kynnt sér málin beint í nefnd hafi möguleika á að fjalla um þau hér í þingsölum. Ég get e.t.v. samþykkt það sjónarmið að málinu sé ekkert verr komið í nefnd strax eftir þessa umr., ef henni lýkur núna, en þá verður að gera ráð fyrir að 2. umr. verði ítarlegri en 1. umr. hefur verið hér í dag.