12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég var farinn að trúa því að þm. hefðu ekki haft tíma til þess að kynna sér þetta frv. til lánsfjárlaga þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. tók til máls. Hann ræddi þá lið fyrir lið mjög málefnalega um frv. eins og það liggur fyrir. Ég get alveg fullvissað ykkur, kæru vinir allir, hvar í flokki sem þið standið, að hann hefur ekki mætt á einn einasta fund hjá Sjálfstfl. og ég held ekki Framsfl. heldur, en það er talið að eingöngu þm. stjórnarflokkanna hafi kynnt sér þessi mál. Mér þykir vænt um að hann skuli vera svona vel inni í málinu þegar.

Ég vil aðeins segja í svari til hv. 3. þm. Norðurl. v. að ég held að það sé fátt um skerðingarákvæði í þessu frv. sem ekki voru síðast. Það er alveg rétt hjá virðulegum þm.ríkisstj. á við verulegan skuldahala að glíma og líklega hefur aldrei verið við meiri skuldahala að glíma en einmitt nú. Það er ekki heldur rétt að Byggðasjóði sé hent út um gluggann. Það er reynt að gera eins góð skil hverjum málaflokki fyrir sig og mögulegt er. Ég held að það sé ekki meiri skuldahali yfirleitt hjá sjóðum eins og Félagsheimilasjóði. Allt frá því Félagsheimilasjóður var stofnaður held ég að þar hafi verið skuldahali og undanfarin fjögur ár veit ég ekki betur en borgarsjóður Reykjavíkur hafi tekið að sér að fjármagna framkvæmdir, sem seinna koma þá til endurgreiðslu úr Félagsheimilasjóði, til þess að flýta framkvæmdum. Svona gengur þetta og svona hefur þetta gengið í gegnum árin.

Ég skal nú reyna að svara virðulegum 2. þm. Austurl. Hann hefur ekki séð þetta frv. fyrr en í dag. Eins og ég gat um hér í framsöguræðu er frv. reist í öllum meginatriðum á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 og hana lagði ég fram áður en fjárlög komu til umr. fyrir lok októbermánaðar, þannig að lánsfjáráætlun hefur legið fyrir síðan.

Það er rétt hjá virðulegum þm., að það liggur mikið á og það liggur alltaf mikið á að lánsfjárlög séu samþykkt á hverju ári. Og það vita þeir sem að sveitarstjórnarmálum starfa að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga verða ekki gerðar fyrr en fjárlög eru að fullu afgreidd með fylgifrv. Fyrr geta sveitarstjórnir ekki gert sínar fjárhagsáætlanir og það hefur oft dregist langt fram eftir nýju ári. Oft hefur farið svo að sveitarstjórnir hafa þurft að samþykkja sérstaka heimild til sveitarstjóra til að standa skil á nauðsynlegum útgjöldum vegna þess að lánsfjárlög og fjárlög hafa dregist í afgreiðslu á Alþingi.

Nú eru þessi lánsfjárlög lögð fram, þannig að það er tækifæri fyrir Alþingi að fjalla um fjárlögin í heild sinni fyrir næsta ár, hvort sem Alþingi vill svo viljandi draga afgreiðslu á einhverjum forsendum, eins og t.d. þeim að allt sé óþekkt sem er lagt fram í dag í lánsfjárlögum. Það er annað mál, en það er þá af öðrum hvötum en þeim að í meginatriðum hafi þeir ekki þekkt lánsfjárlögin. Þau birtast í lánsfjáráætlun sem hefur legið hér fyrir síðan seinni partinn í október.

Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér um 16. gr. og 18. gr. Ég er honum í meginatriðum sammála þar. En því miður er ekki um aðra leið að ræða. Við erum í peningavandræðum. Fjárlög verða eflaust ekki hallalaus og við þurfum að semja sérstaklega við Seðlabanka Íslands um hallann af árinu 1983. Þar fyrir utan eru um 60% af heildarþjóðarframleiðslu bundin í erlendum lánum og það er alveg útilokað að auka það. Við verðum því að skera niður jafnvel á viðkvæmustu liðum. En við höfum báðir verið baráttumenn fyrir þessum málaflokkum og okkar hjörtu slá í takt hvað þessi verkefni snertir.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég vil biðja félaga mína hér, hvar í flokki sem þeir eru, að reyna að hjálpa mér í gegnum þingið með þessi lög fyrir jól.

Einni spurningu var beint til mín og hún var varðandi Suðurlínu. Ég verð að segja að yfirlýsingar iðnrh., sem hann skýrði fyrir mér, voru gefnar út á þær 900 millj. kr. sem teknar eru að láni, þ.e. Suðurlína á að vera inni í þeirri upphæð. Ef svo er ekki kemur það mér á óvart. Iðnrh. hefur heimild til að dreifa þeim peningum, sem hann fær til fjármögnunar framkvæmda, nokkurn veginn eftir hentugleikum og ég held að hann ætli Suðurlínunni hluta í þessum 900 millj.

Ég held að ég hafi svarað hv. 8. þm. Reykv. hvað varðar þann stutta tíma sem menn hafa haft til að lesa þetta frv. vel yfir, en ég vil svara honum frekar og þá um leið hv. 4. þm. Austurl., Jónasi Árnasyni. Þetta frv. til lánsfjárlaga er í öllum meginatriðum byggt á fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni fyrir 1984 og þarf ég ekki að endurtaka það oftar, en þau frávik sem hér eru má rekja í mjög stuttu máli.

Það er nú fyrst, eins og ég gat um, að framlag til byggingar flugstöðvar í Keflavík lækkar um 15 millj. kr. Í athugasemdum við 7. gr., og ég vil lesa það með leyfi virðulegs forseta, er svo önnur breyting:

„Hækkun lánveitinga Framkvæmdasjóðs nemur 32 millj., og gert er ráð fyrir að þar renni 26 millj. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins vegna loðdýraræktar og 6 millj. til Landflutningasjóðs“.

Þetta eru þær einu breytingar sem eru á frv. frá lánsfjáráætlun, en hugsanlegt er að það komi fram till. um breyt. á framlagi til Iðnrekstrarsjóðs samkv. 22. gr., eins og virðulegur 8. þm. Reykv. gat um, vegna þess að það átti að reyna að flytja verkefni Iðnrekstrarsjóðs eða leggja hann niður og flytja verkefnin til Iðnþróunarsjóðs. En það verður ekki hægt í ár, þannig að það þarf að koma til aukið framlag. Það eru einu breytingarnar sem eru hugsanlegar og ég veit á þessu augnabliki um.

Ég held að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint, en ég vil þá með nokkrum orðum svara hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni og taka undir að þetta er eitt af stórmálum þingsins og líka það, sem komið hefur fram hjá öllum stjórnarandstæðingum hér í dag, að þetta er í fyrsta sinn sem þm. sjá lánsfjárlögin í þessum búningi. Ég hef skýrt hvaða breytingar eru frá lánsfjáráætlun, sem hefur legið frammi frá því áður en fjárlög komu til umr., sem sagt síðan seinni partinn í október, þannig að ég vil ekki taka undir þau ummæli hans að hér sé um óþolandi vinnubrögð að ræða.

Mér finnst hv. 5. landsk. þm. eitthvað æstur og vondur við mig alltaf þegar hann kemur hérna í ræðustólinn. Mér finnst alveg eins og hann telji alveg sjálfsagt að reyna að berja svolítið á mér í öllum málum. En ég vona samt að hann leggi okkur lið í þessu máli og hjálpi frv. í gegnum þessa deild, ef hann ekki setur fyrir sig breytingarnar frá lánsfjáráætlun sem eru ákaflega litlar og hann getur kannske sætt sig við að þessum upplýsingum fengnum.

En varðandi erlenda skuldasöfnun vil ég líka undirstrika að hér er ekki stefnt í aukna erlenda skuldasöfnun. Það er reynt að halda sig innan við 60% af heildarþjóðarframleiðslu. Það getur vel farið svo að með endurmati á heildarþjóðarframleiðslu þurfi að breyta ýmsum forsendum í fjárlagafrv. og víðar. Við skulum ekki vera að blekkja okkur neitt með það. Ef forsendur breytast, eins og spáin virðist vera núna um aflabrögð, þá þurfum við að breyta forsendum í fjárlagafrv. Ég er alveg reiðubúinn að taka þátt í því og fá sem flesta til að vinna það verk með mér.