12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það hefur nú ýmislegt komið fram í þessum umr. sem ástæða væri til að fara öllu nánar út í. Hæstv. fjmrh. þarf auðvitað ekkert að verða hissa á því þó að menn lesi þetta frv. undir þessari umr. og komist að nokkurri niðurstöðu um hvað í því felst. Hann reiknar varla með því að menn séu svo skyni skroppnir hér inni að ekki megi takast á þó þeim tíma sem gefst undir þessari umr. að kynna sér frv. nokkuð. M.a. hefur þessi tími orðið mér að notum við að skoða ýmsa liði nánar og betur en ég hafði gert. Frv. er vitanlega ekki það torskilið að menn nái þessu ekki með svolítið betri tíma.

En það er alveg rétt hjá virðulegum forseta, að tillitsemi okkar í stjórnarandstöðunni við hann er ærin og mun verða. Við munum gera okkar til þess að greiða fyrir því að mál gangi hér fram með eðlilegum hætti. Stjórnarliðið er líka það vel sett hér, að það hefur í fullu tré við okkur, ef það vill beita okkur einhverju harðræði, en ég hef ekki ástæðu til að ætla svo. Ég átti hér afbragðsgóða samvinnu við stjórnarandstöðuna um ýmis mál. T.d. átti hv. formaður fjh.- og viðskn., Eyjólfur Konráð Jónsson, sinn góða þátt í því hvernig þar tókst til. En þó þeir hafi margt gert fyrir mig í þessum efnum, þá hygg ég að ég hefði nú varla fengið þá til umræðu um svona mál samdægurs. Ég er ekki alveg viss. Það kom fyrir að ég frestaði málum af þessari stærð svo eins og einn dag fyrir þá og þótti sjálfsagt.

Ég tók það fram hér í mínu máli upphaflega, svo að ekki sé neinn misskilningur milli okkar hæstv. fjmrh. um það, að vitanlega eru megindrögin varðandi öll skerðingarákvæðin komin fram í fjárlögum nú þegar, með þeim fjárveitingum sem þar eru áætlaðar, og svo hins vegar varðandi hinar heimildirnar að meira og minna leyti í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að frátöldum þeim breytingum sem þarna eru þó óneitanlega. En ég bendi á það jafnframt því að það hlýtur að verða svo. Ég trúi ekki öðru en ýmsar þær tölur sem fjallað er um í 9.–26. gr. muni breytast eitthvað við 3. umr. fjárlaga og eftir afgreiðslu þeirra þarf vitanlega að breyta lánsfjárlögum til samræmis við það. Og það tekur vitanlega sinn tíma að koma því þá í gegnum báðar deildir. Það getur varla hjá því farið að breyta þurfi lánsfjárlögunum í samræmi við það sem hv. fjvn. og Alþingi svo síðar staðfestir við 3. umr. fjárlaga. Þegar af þeirri ástæðu sé ég vissa tæknilega örðugleika, eðlilega og þinglega örðugleika á því að afgreiða t.d. lánsfjárlög á undan 3. umr. fjárlaga. Ég vænti þess að mönnum detti það ekki í hug vegna þeirra breytinga sem þar kynnu að verða og ég vonast til að muni verða.

Ég viðurkenni það fúslega, hæstv. fjmrh., að það er ekki mikið til skipta í dag. En ég hefði gjarnan viljað sjá lagða örlítið meiri áherslu á ýmsa þætti í þessu en gert er, m.a. þá áhugaflokka okkar sem ég minnti á áðan, og þá kannske heldur meira skorið af öðrum. Það er annað mál á dagskrá hér í dag, lán til flugstöðvarbyggingar. Eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið best fram allra manna, þá er þar vitanlega bara um útgjöld að ræða.

Þetta er lán, sem þarf að borga, og þar af leiðandi er það kannske ekki alveg rétt, sem hæstv. ráðh. segir æði oft, að það séu engir peningar til og hann geti ekki búið til peninga. A.m.k. eru í þessum jólaglaðningi til nokkrir peningar, sem nú á að fara að verja í þessa framkvæmd. Ég hika ekki við að fullyrða við hæstv. fjmrh. að ef hann færi eftir sinni eigin samvisku í þessu efni alveg hreint og klárt, þá mundi hann frekar verja þessum 88 millj. til framkvæmda í þágu fatlaðra en til flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, ef hann mætti eingöngu eiga um það mál við sína eigin samvisku og þyrfti ekki að fara eftir neinu öðru.

Hæstv. fjmrh. svaraði þessu með Suðurlínuna, að eftir því sem hann hefði skilið hæstv. iðnrh., þá ætti hún að vera inni í þeirri upphæð sem áætluð er til orkuframkvæmda almennt, þ.e. þeim 900 millj. sem þar eru áætlaðar. Ég vildi beina því til hv. nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, og þá alveg sérstaklega til hv. 4. þm. Austurl. sem þar á sæti, hvort ekki væri eðlilegast og öruggast að slík framkvæmd væri sérmörkuð í endanlegri gerð lánsfjárlaganna svo að það væri alveg ljóst að Suðurlínan væri þarna. Það væri ekki spurning um það, hvernig hæstv. fjmrh. hefði skilið hæstv. iðnrh. eða öfugt, heldur væri framkvæmdin þarna tvímælalaust inni.

Ég vil svo aðeins ítreka það sem ég tók fram áðan, að vissulega ber að fagna því að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var lögð fram svo snemma sem raun bar vitni. Það var kannske auðveldara en oft áður vegna þess hversu knöpp hún er. Menn voru búnir að taka ákvörðun um að skera allt svo rækilega niður. (Gripið fram í.) Nei, ég held að það hafi verið miklu léttara. Þegar menn tóku þessa stefnu þegar í upphafi og voru með hnífinn svona glaðbeittir á lofti, þá gekk þetta nokkurn veginn sjálfkrafa. Ég held það og mér sýnist allt benda til þess, bæði varðandi fjárlögin og lánsfjáráætlunina, að það hafi gengið mjög glaðlega í gegn.

En ég bendi á eitt atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kom nú reyndar hér inn á. Ég veit að hv. þm. Ragnar Arnalds er væntanlegur til þings á miðvikudag og ég teldi ákaflega óviðeigandi að máli þessu væri hraðað svo að hann ætti ekki kost á nefndarstarfi, nefndarstarfi alveg sérstaklega, og að koma að athugasemdum af sínum kunnugleika af þessum málum. M.a. þess vegna þótti mér óeðlilegt að þessu máli væri hraðað til afgreiðslu í nefnd. Ég get þess vegna tekið undir með hv. 8. þm. Reykv. hvað það snertir að vissulega væri æskilegast að fresta þessari umr. Ég veit hins vegar að stjórnarliðið hefur hér alla burði til að koma þessu máli til nefndar og við erum ekki í þeim ham hér, a.m.k. ekki í Ed., að við séum í sérstökum slag við stjórnarliðið um afgreiðslu mála, en við væntum þess þá líka að þegar við gefum yfirlýsingar eins og ég er að gefa hér núna þá verði tillit til okkar tekið.