12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

43. mál, lagmetisiðnaður

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Iðnn. hefur tekið þetta mál til meðferðar, en nefndin varð ekki sammála. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt, en tveir nefndarmenn, minni hl., skilar séráliti. Einn nm., Davíð Aðalsteinsson, var ekki viðstaddur. Hann var erlendis þegar nefndin gekk frá þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég vil taka fram að stjórn Sölustofnunar lagmetis hefur óskað eftir að lög um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins verði framlengd og telur áríðandi að svo sé, að núverandi starfsréttindi stofnunarinnar, sem felast í lögunum, verði framkvæmd. En eins og fram kemur í lögunum eiga þessi ákvæði að falla niður nú um áramótin. Sérstaklega telur sölustofnunin mikilvægt að halda áfram einkarétti til að annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun eða ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandi.

Það er út af þessu atriði sem nefndin hefur ekki náð samstöðu. Við í meiri hl. erum sammála stjórn Sölustofnunar lagmetis um að nauðsynlegt sé að framlengja þessa heimild og þennan rétt Sölustofnunar lagmetis, en minni hl. sem skilar séráliti er á annarri skoðun.