12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er glöggt að nú er hátíð í nánd og nú skal efnt til veislu, enda ekki seinna vænna á þessu ári fyrir hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. hefur átt bæði í þingi og annars staðar tvö sígild svör þegar um fjármál og lausnir þar hefur verið rætt: Engir peningar til — engin lán verða tekin. Þetta eru hreinskilin og skýr svör og umfram allt fortakslaus og ég kann að meta þau. Það er eins og allir vita dapurt yfir fjármálahimni ráðh. Það eru blikur í öllum áttum og óveðursskýin hrannast upp. En öll él birtir upp um síðir. Nú má taka lán og nú eru til peningar. Nú er glatt í hverjum hól, enda sá hóll sem horft er af til vesturs sá hóll sem er allra hóla fegurstur, Miðnesheiðin sjálf með öllu sínu herlega hafurtaski. Fjárlög koma til 2. umr. á morgun. Þar er þröngt fyrir dyrum. Þar ríkir skuggi svörtu skýrslunnar. Í þessu frv. eru engar skuggahliðar. Í stað svörtu skýrslunnar virðist hér komin margfræg kona með svartan kassa, að vestan auðvitað, og hefur sópað burt öllum áhyggjum hins hjartahlýja fjmrh., sem svo gjarnan hefði viljað sjá meira fara í skólana, sjúkrastofnanirnar, dagvistarheimilin og allar þær framkvæmdir sem hann ber fyrir brjósti, en því miður eru bara engir peningar til. Ráðh. býr eðlilega ekki til peninga og lán eru á bannlistanum og svo vita allir að hæstv. ráðh. ætlar að lækka skattana á fólki þó menn kunni að verða svolítið lengur að vinna fyrir þeim. Ég hlýt að óska hæstv. ráðh. til hamingju með jólaglaðninginn í þessu frv., þennan ljósgeisla sem lýsir í skammdeginu svo skært að bjarmann ber allt til Pentagon.

Já, fjárlög eru til 2. umr. á morgun. Einn liður þeirra eru flugvellir. Við þá kannast hæstv. ráðh. betur en margir aðrir, því þar hefur áhugasviði hans verið ekki síður en annars staðar. Flugráðsmaðurinn Albert Guðmundsson hefur margt gott lagt þar til mála. M.a. höfum við Austfirðingar átt þar hauk í horni og það vil ég þakka. En nú er þar líka þröngt í búi og hið ótalmarga góða sem flugráðsmaðurinn vildi gera, m.a. í öryggismálum, gerir hæstv. fjmrh. nú að litlu eða engu því lítið er til skipta á þeim bæ eins og annars staðar. Einn fjölfarnasti flugvöllur landsins er ófær öðru hvoru og ný flugbraut bíður síns tíma. Fáir hafa sýnt því máli betri skilning en flugráðsmaðurinn Albert Guðmundsson, það fullyrði ég hér, en hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson sér enga leið í flugvallarmálum á Egilsstöðum aðra en að setja yfirlag yfir forina og bleytuna eystra þar, enda eru engir peningar til. Þetta skilja Austfirðingar á erfiðum tímum, m.a. vegna þess að þeir vita að þjóðarauðurinn kemur af miðum og úr moldu, en ekki af heildverslun og öðru slíku. Og þeir fyrirgefa hæstv. ráðh. og finna til með honum í þrengingum hans ef — og það ef snertir þetta frv. — hæstv. ráðh. drægi nú ekki upp úr hatti sínum gullkanínuna góðu sem á að fara til að fjármagna flugstöðina í Keflavík. Og ef hæstv. ráðh. dytti nú í hug að segja að þetta væri bara lán, þá hefur enginn verið iðnari undanfarið við að segja okkur þau sígildu sannindi að lán þyrfti að borga. Og þetta samþykkja líka allir með hæstv. ráðh.

Ef mönnum þykir sem hér sé farið með háð og spé, þá er það einungis hin ytri umgerð því alvara málsins er mikil. Menn sjá einfaldlega lántöku á einu ári til einnar framkvæmdar upp á mun hærri fjárlagatölu en til allra flugvalla á landinu fer. Menn sjá einfaldlega hver forgangsröðun framkvæmda er. Hér er ekki um það að ræða hvort flugstöð skuli rísa eða ekki, heldur hvernig, hversu stór, hvernig fjármögnuð og þó síðast en ekki síst hvort hröðun þar sé brýnni en í þeim fjölmörgu úrlausnarefnum sem bíða hvarvetna í flugmálum okkar og Egilsstaðaflugvöllur er eflaust skýrasta og gleggsta dæmið um í dag.

Um flugstöðina, hversu stórt það mannvirki skuli vera og um leið dýrt, hefur lengi og margt verið rætt, endurtekning þess er leiðigjörn, en í því efni nægir að vísa til álits ýmissa þeirra sem með glöggum rökum sýndu og hafa sýnt fram á að unnt væri að byggja mannvirki sem vel þjónaði sínum tilgangi og hefði fulla reisn þó ekki væri ráðist í það fyrirtæki sem hér um ræðir. Og þegar annars staðar er skorið við nögl og eðlilegur sparnaður boðaður á erfiðum tímum, þá stendur flugstöðin sem eitt allsherjar háðsmerki og glottandi grýla við þeim sem af mestri tilfinningu boða að þrengja skuli að, herða skuli ólina, og sjá svarta skýrslu í hverju horni þegar framkvæmdir í þágu barna og sjúklinga, aldraðra og öryrkja eru annars vegar, að ekki sé nú minnst á þegar vikið er að launakjörum fólksins í landinu.

Þrátt fyrir hugsanlega ofurtrú hæstv. fjmrh. á nauðsyn þessa gímalds, sem gleypir svo gífurlegt fjármagn, og vitandi hinn hlýja hug hans til vestursins og máske einlæga gleði yfir betlifénu þaðan í þessa byggingu, þá veit ég, og ég endurtek það sem ég sagði í dag, að slíkur áhugamaður sem hæstv. ráðh. er um hvers konar mannúðarmál og hefur barist þar dyggilega finnur innra með sér til meiri háttar samviskubits þegar hann er að mæla fyrir fjáraustri af þessu tagi, en verður um leið að skammta svo til margra áhugamála sinna, ég vil segja hjartans mála sinna, sem raun ber vitni nú. Þá hef ég a.m.k. ofmetið hæstv. ráðh. þau ár sem ég hef þekkt hann hér á þingi ef svo er ekki. Þá er Bleik brugðið í þeirra orða fyllstu merkingu.

Raunar verð ég að leyfa mér að efast um hrifningu hæstv. fjmrh. yfir því betlifé sem bygging þessi er að nokkru leyti reist fyrir en sem um leið veldur því hversu geysidýr hún er. Fjármálaleg reisn hans sem Íslendings hélt ég að væri slík að hin svonefnda aronska væri ekki dálæti hans, en vel kann að vera að mengunin nái til hans svo sem annarra þeirra sem áður hafa harðast fram gengið í því að heimta fé til hvers konar framkvæmda hér úr hendi Sáms frænda. Þegar jafnvel saklausir og hjartahreinir þingbændur austan frá Rangárvöllum biðja um betlifé í vegi, brýr og hafnir auk flugvalla, þá er von að fleiri falli flatir, og á sú lárétta staða ekkert skylt við láréttar þjóðmálahreyfingar, án þess að nánar sé út í það farið. Efnahagslegt frelsi okkar er þó háð því að við séum sjálfum okkur nóg, bjargálna fólk við framkvæmdir allar, og það hef ég heyrt hæstv. ráðh. segja. Einhvern veginn finnst mér því miklu betur fara hæstv. fjmrh. reisn í þá átt en áðurnefnd lárétt staða í viðskiptum við erlenda aðila, en þá láréttu stöðu hefur flokkur hæstv. fjmrh. raunar gert að sinni varðandi nýtingu orkulinda okkar, svo víða er nú lágt lotið.

Og þá er komið að „þjóðlegu hliðinni“ varðandi flugstöðina og staðsetninguna, aðskilnaðartalið margþvælda sem eitthvert fagnaðarerindi. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Eitt það undarlegasta í þessari umræðu allri er talið um andlitslyftinguna. Andlitið út á við, segja menn, hvað blasir við ferðamönnum. Þeir hernámssinnar, sem telja hér í fólginn heiður okkar og sóma, gleyma því að stolt þeirra er einmitt fólgið í víghreiðrinu á Miðnesheiði, sem vitanlega blasir áfram við öllum þeim sem hingað koma. Ég hélt að í þeirra augum þyrfti ekkert að fela, hér væri hið fagra tákn vestrænnar samvinnu, lýsandi dæmi um það að við værum gjaldgengir þátttakendur í vígbúnaðarvitfirringunni. Sé meiningin að slá ryki í augu þeirra sem miður hrifnir eru, þá er það líka misskilningur. Ný flugstöð á nýjum stað breytir engu um hið æðsta eðli þessa flugvallar ef á reyndi, enda eru skilyrðin lýsandi í þessu af hálfu Ameríkana um afnotin af flugstöðinni ef þeir telja svo við þurfa. Ný flugstöð á nýjum stað breytir engu um að hún er í náinni sambúð við hersetuna og þau umsvif sem blasa þar við hverju sjáandi auga. Allt þetta hræsnishjal er því til einskis, því menn eru ekki blindir eða skyni skroppnir með öllu. Það liggur við að hjartnæmasta aðskilnaðarhjal sumra í kringum þessa flugstöð felist í þeirri von að menn gleymi þeim virkileika víghreiðursins sem vitanlega skiptir öllu. Stærð og hönnun, fyrirkomulag og annað því um líkt kemur því þessu ekki hætishót við.

Ég hygg ég láti þetta nægja, þó vissulega væri af mörgu að taka og ítarlega hægt yfir að fara. Ég vildi kannske spyrja hæstv. ráðh. örlítið nánar, þó hann kæmi rétt inn á það hér áðan, hver væri skýringin á því sem segir í athugasemdum um 2. gr. frv. þar sem segir:

„Nú þegar komið er að hinni verklegu framkvæmd þykir best henta að yfirstjórn byggingarframkvæmdanna verði jafnframt í höndum utanrrh.

Ég veit ekki hvað best hentar í þessum efnum og ég veit ekki heldur hvað liggur að baki orðanna hvað hentar best varðandi þetta mál. Jafnframt tók hæstv. ráðh. það fram að öll þessi mál væru í endurskoðun og þyrfti vissulega að taka til gagngerðrar endurskoðunar.

Andstaða mín við þetta frv. er af mörgum áður röktum ástæðum og grg. okkar frá 1982 og afstaða í ríkisstj. okkar þá er enn í fullu gildi. Hana les ég með gleði hér á eftir, ef ástæða þykir til og hæstv. ráðh. telja þetta frv. forgangsmál sem þeir vilja eyða dýrmætum tíma þingsins í. En væntanlega leyfist mér fyrst og síðast að verða andsnúinn þessu lántökufrv. með rökum hæstv. fjmrh. sjálfs: Lán má ekki taka því þau þarf að borga. Mér er ekki fremur en hæstv. ráðh., nema síður væri, áskapað að búa til peninga þegar engir eru til: