12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara virðulegum 6. landsk. þm.

Það er óafturkræft framlag sem kemur frá Bandaríkjastjórn, þannig að segja má að það sé fast framlag. Ég hef nú aldrei kallað það fast framlag, en það verður ekki endurgreitt sem kemur frá Bandaríkjastjórn svo að ég held að mér sé óhætt að segja að það sé fast framlag. (KSG: Verður það ekki lægra verði byggingin hlutfallslega ódýrari?) Það segir í frv. að Bandaríkjamenn muni leggja fram 20 millj. dollara og þá er gert ráð fyrir að 42 millj. dollara séu heildarkostnaðurinn. Ef það reynist réttur útreikningur, 42 millj. dollara, er 20 millj. framlagið. Ef framkvæmdin verður ódýrari reikna ég með hlutfallslegri upphæð. Ég reikna ekki með 20 millj. dollara hvað sem byggingin verður ódýr. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi, en þætti þó líklegt — ég þarf að kynna mér það betur — að það sé um samið að framlag Bandaríkjanna sé fast eins og þm. gerir sjálfur ráð fyrir. Ég get ekki svarað því. Ég veit það ekki. En mér þætti miður ef verið væri að bjóða niður verktakamarkaðinn til þess eins að Bandaríkjamenn hefðu ágóða af því.

Ég tek undir með virðulegum þm. að ný flugstöð er andlitið á þjóðinni í mestu umferðaræð landsins, bæði til og frá landinu, svo að flugstöð hlýtur að auka á reisn íslensku þjóðarinnar, eins og hann sagði, og verða okkur til sóma. Ég vil lýsa ánægju minni með að hann skuli viðurkenna þá lántöku sem við verðum því miður að fara út í vegna framkvæmda þarna. Ekki veit ég hve mikill hagnaður er af verktakastarfseminni á Keflavíkurflugvelli. Ekki veit ég heldur hvort það er rétt, sem fullyrt er, að verktakafyrirtæki sem rækt hefur þar starfsemi um árabil eigi hundruð millj. kr. í banka, það veit ég ekki, en ef svo er eru það peningar sem vinna áfram inni í þjóðfétaginu í gegnum útlán svo það hefur þá verið til einhvers að vinna sér þá inn.

Hv. 8. þm. Reykv. er sammála um að aðskilnaður milli íslenskra og erlendra notenda flugvallarins í Keflavík sé af hinu góða þó hann sé gegn lántökunni sem slíkri. Það stangast svolítið á þarna. Ég er ansi hræddur um að við kæmumst ekki langt með bygginguna og aðskilnaðinn ef við ekki fengjum lánsfé. Við eigum ekki peninga, eins og ég hef margoft sagt, til þess að fara út í þessa framkvæmd af eigin fé.

Ég held að það sé alrangt að hér sé tekið lán sem vasafé ríkisstj., eins og hv. þm. orðaði það, þar sem fyrsta útboð var 100% hærra en áætlun. Það þarf ekki útboð eða verklýsingu á Keflavíkurflugvelli til þess að vera langt undir þeim kostnaðaráætlunum sem gerðar eru. Vegagerðirnar síðustu eru langt undir kostnaðaráætlun. Flestöll verk sem boðin voru út af borgarstjórn Reykjavíkur meðan ég var þar, seinni árin a.m.k., voru langt undir kostnaðaráætlun. Það er alveg furðulegt að þó að efni til bygginga og efni til framkvæmda lækki í verði vegna minnkandi verktakamarkaðar er eins og opinberir aðilar, sem gera kostnaðaráætlanir, haldi sig alltaf í gömlu verði meðan það var í hámarki, þannig að það er fyllilega ástæða til að kanna hvernig á því stendur að útboðslýsingar og kostnaðaráætlanir gerðar af opinberum aðilum reynast skakkar seinni árin. Og það er ágætt ef þetta mikla mannvirki heldur áfram að byggjast upp á þennan ódýra hátt. Ég fagna því og ég vona að verktakarnir komist vel af, allir hafi sitt, bæði arkitektar, verkfræðingar og aðrir byggingaraðilar. Ég vona að enginn af þessum fagmönnum okkar vilji fresta lántökunni og bíða þangað til byggingunni er lokið og byggja bara fyrir þann hluta sem Bandaríkjamenn leggja fram af því að þeir eiga að leggja fram helminginn. Ég held að það takist aldrei. Það verða báðir aðilar að taka þátt í kostnaði jafnóðum og hann fellur, ef á annað borð skal verða samstarf um hlutina.

Það vill svo til að gjöld hafa verið felld niður af verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli, en aftur á móti mega þær vélar sem þar eru ekki vinna utan Keflavíkurvallar í samkeppni við innlendan verktakamarkað. Ég held því að þarna sé engin breyting á frá því sem verið hefur.

Áttunda atriðið sem virðulegur þm. gat um, og þá kem ég að svari til hv. 2. þm. Austurl., en þeir spurðu báðir um það, er af hvaða ástæðum utanrrh. skuli hafa yfirumsjón með verkinu. Það er einfaldlega vegna þess að utanrrh. hefur lengi farið með öll málefni Keflavíkurflugvalfar eins og þau leggja sig og það er samkv. reglugerð sem mér skilst að hafi verið sett í utanrrh.- tíð Guðmundar Í. Guðmundssonar. Ég hef margoft gert aths. við þá skipan og talið að hún væri óeðlileg. Þegar ég var flugráðsmaður kom í ljós að þrátt fyrir að lög tækju skýrt fram að flugmálastjóri væri yfirmaður á Keflavíkurflugvelli og það starfsfólk sem vinnur þar væri undir hans stjórn og flugráð yfir öllum flugvöllum í landinu reyndist það ekki svo, heldur er það varnarmálanefnd og utanrrh. sem hafa haft með Keflavíkurflugvöllinn og starfsemina þar að gera að öllu leyti. Það verður óbreytt frá því sem verið hefur, en þegar flugstöðvarbyggingin er tilbúin til afnota er gert ráð fyrir að samkomulag hafi náðst við þá fagráðherra sem eiga þar hlutverki að gegna. Í því millibilsástandi sem skapast mun utanrrh. hafa yfirumsjón með verkinu.

Ég sé ekki ástæðu til að svara miklu af því sem kom fram í ræðu ágæts vinar míns 2. þm. Austurl. Hún var skáldleg og hann kom víða við. Hann hældi mér sem flugráðsmanni og rakti störf mín þar og áhyggjur af þeim málum sem þar eru rædd og þá náttúrlega koma fyrst og fremst við Austurlandi. Það er rétt að ég gerði ýmislegt til að létta undir með þeim austanmönnum og það tókst nokkuð vel. En það kemur þessu máli afskaplega lítið við.

Ég tek við þeim hamingjuóskum sem hann beindi til mín vegna þessa ljósgeisla sem skín nú bráðum frá Keflavík — hann meinar líklega þegar flugstöðin er komin upp. Þá verður bjart til vesturs, sagði hann. Það verður það. Það getur vel verið, úr því að við komumst þar upp á hæðina, að við sjáum líka til austurs og vitum þá betur hvernig skal verjast því sem e.t.v. er hætta á að komi að austan.

Nei, virðulegur vinur minn, 2. þm. Austurl., mér datt ekki eitt augnablik í hug meðan ég hlustaði á ræðuna, að hér væri uppi háð eða spé. Ég tók hana háalvarlega og hólið þótti mér frábært. Ég bið virðulegan þm. um að tala sem oftast um afrek mín sem flugráðsmanns. Sjálfur hélt ég að ég hefði ekki afrekað neitt. Nú veit ég betur.

Tilfellið er að hér er um pólitískt trúaratriði Alþb.manna að ræða. Það hefur verið eins og sigurganga í gegnum tíðina að geta komið í veg fyrir að nokkrar framkvæmdir hæfust á Keflavíkurflugvelli þann tíma sem þeir hafa verið við völd eða haft áhrif. Það er kannske þess vegna, að nú þegar við stöndum í þeim þrengingum peningalega séð sem við erum í verðum við að taka ákvörðun sem er okkur þungbærari en hún hefði þurft að vera ef við hefðum getað byggt flugstöðina og fleiri mannvirki þarna, sem ég vona að fari af stað sem allra fyrst til að styrkja varnir landsins sem mest, ef Alþb.- menn hefðu ekki staðið í vegi fyrir því. Það kostar okkur stórfé að hafa dregið þessar framkvæmdir í allan þennan tíma.

Það má segja að þessi framkvæmd komi á góðum tíma því að atvinnuleysi blasir við um land allt eins og er. Þetta gæti kannske létt undir með okkur, því að þarna er nokkuð tryggur vinnumarkaður til einhvers tíma á Suðurnesjum fyrir utan að það fé sem við fáum inn og ekki er endurkræft fer að sjálfsögðu, eins og kom fram hjá hv. 6. landsk. þm., inn í bankakerfið og þar með út í æðar þjóðfélagsins og kemur þá af stað keðjuverkandi framkvæmdum um land allt, eins og sparifé fólks gerir. Að því leytinu til er það á réttum tíma sem þessir peningar koma inn í landið, án þess að við þurfum að greiða þá til baka.

Og það er ekki betlifé sem í þessa byggingu fer, nema síður sé. En hið pólitíska mat Alþb.-manna á vestrænni samvinnu skilur okkur að þar. Skoðanabræður mínir vilja vernda bæði land og vestræna menningu í samstarfi ríkjabandalags vestrænna þjóða.

Það er rétt hjá hv. 2. þm. Austurl að margt er skrítið í kýrhausnum. Ég er farinn að halda að kýrhausinn sé sérstaklega. framleiddur fyrir austan tjald og sendur vestur fyrir, sé sérstakt fyrirbæri sem kemur austan að og hefur líklega tekið sér búfestu á Íslandi, — mig langaði til að segja: tekið sér búfestu í Alþb., en ég hætti við það.

Ég sé ekki að þessar umr. ætli að verða mjög málefnalegar. Það var nokkurs konar sviðsetning hjá vini mínum 2. þm. Austurl. En ég vona að hann endi með því að standa með okkur í að koma þessu frv. sem fyrst í gegnum báðar deildir þessarar ágætu stofnunar.