20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

3. mál, sala ríkisbanka

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég held að ég verði að leiðrétta þann misskilning, sem virðist koma fram hjá þm. nú eins og áður, að ákvarðanir um úthlutun lána til einstaklinga eða fyrirtækja eru ekki teknar af bankaráðsmönnum. Það er beinlínis tekið fram að það er hlutverk bankastjóranna. Ég held að það sé enginn bankastjóri sem er í pólitísku starfi í dag. Ég held að það sé almennt viðurkennt af öllum stjórnmálaflokkunum, þó að hvergi séu til um það lög að þeir hafa verið hnepptir í þá atvinnufjötra að mega ekki sitja á Alþingi Íslendinga. Ég veit ekki um aðra stétt sem verður að lúta því. Og ég trúi því ekki að það sé almennt skoðun þm. hvers á öðrum að þeir séu ekki nógu heiðarlegir til þess að gegna sínum skyldum annars staðar en á Alþingi þannig að trúverðugt sé og til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Ég á afskaplega erfitt með að trúa því. Ég hef sjálfur setið í bakaráði og kæri mig ekkert um að Alþingi, sem kaus mig til þeirra starfa, stimpli mig svo hálfgerðan óbótamann í starfi á eftir, sem gæti hagsmuna eins frekar en annars. Ég vil undirstrika það að bankaráðin fjalla ekki um einstök útlán.

Ég tek alveg undir það, sem komið hefur fram hér í umr., að það þarf að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands. Það hef ég margoft sagt hér, enda brjóta þeir að mínu mati lög þegar þeir ákveða sína eigin vexti. Þeim ber skylda til að ákveða vexti fyrir viðskiptabankana en það er hvergi í lögum um Seðlabanka Íslands heimild til þeirra að ákveða sína eigin vexti, svo að það hlýtur að vera í verkahring ríkisstj. eða Alþingis að gera það. Ég hef margoft deilt á þann vaxtamun sem er á bindifé í seðlabankanum og á yfirdrætti viðskiptabankanna.

Ég tek alveg undir það, sem kom hér fram hjá hv. 10. landsk. þm., að það er ekkert óeðlilegt að Seðlabankinn skili sínum hagnaði til ríkissjóðs, það er víðast hvar gert þar sem ég þekki til, því að Seðlabankinn er að hluta ríkissjóðsdæmi. Og ég verð að segja alveg eins og er, síðan ég kom til starfa í fjmrn. hef ég deilt á það að ríkissjóði verði ekki stjórnað og fjármálum ríkisins verði ekki stjórnað með því kerfi sem fyrir er, vegna þess að ríkissjóði er deilt niður á fjóra eða fimm staði í bænum.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði hér um Framkvæmdastofnun og Byggðasjóð. Ég hef gert um það till. að þessar stofnanir kæmu inn á A-hluta ríkisreiknings eða fjárlaga. Það er vegna þess að þetta er ekkert annað en ríkissjóðsdæmi. Framlög til þessara stofnana eru fjárlögin úr ríkissjóði og lánsfjáráætlun, og það er víða sem ég gæti bent á slík dæmi, þannig að ríkissjóður verður að vera á einum stað ef ríkisstj. eða fjmrn. eða fjmrh. á að hafa heildaryfirlit yfir fjármál þjóðarinnar. Á sumum stöðum eru erlendar lántökur alls ekki í höndum bankanna né heldur fjmrh. Þær geta því sprengt þá ramma, skulum við segja því að við tölum um ramma við gerð laga nú, sem Alþingi samþykkir. Á ég þá við langlánanefnd, sem hefur farið gríðarlega mikið fram úr þeim áætlunum sem Alþingi hefur gert, og ég held ég megi segja oftar en einu sinni. Fjmrh. hefur ekki nokkur tök á að halda langlánanefnd innan þess ramma sem atvinnufyrirtækjum í landinu er skammtaður hverju sinni.

Ég kom hér upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa till. til þál., enda hljóp ég til, til að vera alveg heiðarlegur, og kannaði hvort nokkurt tilboð hefði komið í ríkisbankana í sambandi við það umtal sem hefur verið um sölu ríkisfyrirtækja. Það var nú ekki, svo að ég bætti þessu inn á þann lista eða það frv., sem kemur hér fram seinna meir, samþykki ríkisstj. þann lista sem ég mun leggja fram í ríkisstj. um þau fyrirtæki sem verða til sölu. Þessi þáltill. þeirra Bandalagsmanna hefur þegar borið þennan árangur, sem þýðir náttúrlega að ég kem til með að samþykkja hana.

Ég vil samt ekki að menn misskilji þetta, að ég samþykki till. eða hafi hlaupið til og sett bankana á sölulista vegna þeirrar grg. sem fylgir. Það er margt í henni sem ég er ákaflega ósammála, hún er full af fullyrðingum sem ég held að eigi ekki rétt á sér. En salan sem slík er mér mjög að geði.