12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

43. mál, lagmetisiðnaður

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í þessa umr. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að þarna virðist vera nokkur misskilningur hjá hæstv. minni hl. Mér vitanlega þá eru, því miður segi ég, engin útflutningsviðskipti á Rússlandsmarkað, nema í gegnum einn heildaraðila, eins og hann sagði, SH og Sambandið með frysta fiskinn: Þeir semja þar sameiginlega og svo er því skipt niður á milli þessara aðila hér heima hvaða magn fer frá hverjum. Síldarútvegsnefnd fer algjörlega ein með alla sína sölu. Einnig er ég kunnugur því að það eru fá ár síðan við seldum allmikið af loðnu- og fiskimjöli til Rússlands og það var ekki hægt að ná þeim samningi nema það væri einn aðili sem fjallaði um málið. Og ég held að ég muni það rétt að það lenti í höndunum á SÍS, eins og svo margt annað. Það fékk þann bita. Hinir útflytjendurnir urðu að framselja það sem þeir fengu hjá framleiðendum og SÍS fékk svo magnið og það var hinn opinberi aðili við þá í Prodintorg, eða hvað þeir hétu þarna á þessum ágæta markaði.

Ég er ekki að mæla þessu bót, nema síður sé, en því miður verðum við að beygja okkur undir ríkjandi skipulag hjá þeim fyrir austan tjald í þessum efnum þó okkur þyki miður og við vildum gjarnan breyta.

Svo sneri hv. þm. Stefán Benediktsson nokkuð við og sagði að Bifreiðar og landbúnaðarvélar hefðu gert það gott. Það er rétt, þeir flytja inn Moskva og Lada og hvað það heitir. En það er einokunarinnflutningur frá Rússlandi á þessari vörutegund, bifreiðum sem þaðan koma. Ég held að það sé varla til fyrirmyndar heldur.