12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

43. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt hvað þetta mál bögglast illilega fyrir brjósti einstakra hv. þm., og kannske einna helst þeirra sem eiga ættir að rekja til þeirra sem einu sinni vildu allt binda á ríkisklafa og stofna til ríkiseinokunar, ríkisverslunar, landsverslunar eins og það hét þá, án þess þó að ég þekki pólitískar framættir hv. 8. þm. Reykv. En hv. 4. þm. Vesturl. er trúr uppruna sínum.

Þetta fyrirkomulag er ekki mér til handa að verja og öll gagnrýni á þetta fyrirkomulag er þess eðlis að maður gæti eiginlega skilið á þá vísu að við bærum einhverja ábyrgð á skipulaginu austur þar, ég og hæstv. fjmrh. Svo er heldur ekki. Ég lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls að ég mundi beita mér fyrir því að endurskoða þessa lagareglu eins fljótt og við verður komið.

Mér var ókunnugt um það að iðnn. hv. Ed. hafði á vordögum, eða við afgreiðslu málsins næstsíðast, fyrir ári, skilað sérstöku áliti þess efnis að hún vildi fá sérstaka endurskoðun á þessu. Það hafði ekkert verið aðhafst í því efni og málið rak svo seint á mínar fjörur að ég hafði ekkert ráðrúm til þess að brjóta uppá neinu nýju í því sambandi. En benti á við 1. umr. að það er alltaf hægt að breyta lögum á gildistíma þeirra og ef við næðum saman um nýtt fyrirkomulag og skipulag að þessu leyti, þá gætum við gert það fljótlega eftir að Alþingi kæmi saman að nýju eftir jólaleyfi.

Þetta er nú öll sagan sem enn þá er að segja af minni hálfu. Við höfum haft töluvert að vinna, þeir sem nú eru í ríkisstjórn, við að taka til. Það getur vel verið að þetta sé eitt af þeim málum sem út af standa og eftir liggja af þeim sem þyrfti að lagfæra. Ég vil þó ekkert fullyrða um það á þessu stigi málsins því ég hef ekki haft tök á að kynna mér það sem skyldi. Hitt held ég að sé rangt, að ætla að þetta fyrirkomulag sé til þess að vernda aðila sem ekki framleiði nægjanlega góða vöru. Ég held þvert á móti að kaupendur okkar austur þar séu afar kröfuharðir um alla vöruvöndun og frágang. Það þekkja a.m.k. þeir sem hafa verkað síld til sölu fyrir Rússlandsmarkað að yfirtökumenn þeirra eru hvað harðsnúnastir af þeim sem við þekkjum. Ég þekki ekki persónulega eins til um niðurlagða gaffalbita eða rækju eða aðra niðurlagða vöru, en þó held ég að reynslan sé sú að kaupendur þessir gá afar vel að sér og vara þeim seld og umsamin verður að uppfylla allar ströngustu kröfur. Því er ég sannfærður um að það er á misskilningi byggt hjá hv. 8. þm. Reykv. þegar hann heldur því fram að þannig hátti til um þessar reglur hjá Sölustofnun lagmetis.

Það er svo annað mál, eins og ég tók fram við 1. umr. þessa máls, að ég er auðvitað ekki verjandi þessa fyrirkomulags. Við sitjum í þessu fari vegna skipulags á málefnum kaupendanna. Ég er þó ekki að fullyrða, eins og ég hef margoft tekið fram, að það sé afsökun fyrir því að við höfum þetta skipulag hjá okkur. Þetta verður rannsakað, ég mun fá til þess hæfa menn, þegar á bak jólum.