12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

43. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt enn einu sinni. Ég vil þakka þeim ráðh. sem hér hafa talað báðum. Það er nú einu sinni svo, að þó að við séum allir þm. að uppruna þá fá sumir okkar svolítið meiri vigt en aðrir, og auðvitað vega orð ráðh. þyngra en orð óbreytts þingmanns. (Iðnrh.: Það er ekki víst.) (HS: Eftir því hvað þau eru merkileg.) Mér finnst þau orð sem hér hafa fallið vera harla merkileg því að tveir ráðh. hafa lýst því yfir að þeir telji þetta fyrirkomutag með öllu óverjandi en samt styðji þeir það. Ég vil leyfa mér að taka mikið mark á orðum hæstv. iðnrh. þar sem hann lýsir því yfir að hann muni taka mjög fljótlega til í þeirri ruslakistu sem þetta mál er. Við vonum þá að það þurfi ekki að líða tvö ár þangað til búið er að greiða úr þessu máli.

Að einu leyti hefur hæstv. ráðh. misskilið mig þegar ég talaði um vörn þess kerfis sem þarna er verið að samþykkja. Auðvitað gera Rússar kröfur til gæða þeirrar vöru sem þeir kaupa. En með því kerfi sem þarna er sett upp er sköpuð ákveðin vörn fyrir einstaka framleiðendur, þar eð þeir verða ekki nema að hluta til ábyrgir fyrir sinni framleiðslu. Þetta tel ég ekki vera nægilega hvetjandi kerfi til þess að menn sjái hagnað í því að framleiða vöru af sem hæstum gæðum.