12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það vildi svo til í morgun þegar ég var að ganga í Alþingishúsið að ég hitti amerískan kunningja minn hérna fyrir utan og spurði hann frétta. Hann er nýlega sestur að hérna og orðinn íslenskur ríkisborgari. Ég spurði hann hvað hann væri að gera og hann sagðist vera að byggja. Það væri nú mest fólgið í því að borga og nú skildi hann loksins hvað orðið ríkisborgari þýddi.

En það er staðreynd að hlutfallsleg lækkun byggingarlána og verðtrygging þeirra, sem auðvitað er sjálfsögð, hefur á síðari árum valdið því að munur á lífskjörum í þessu landi skipast ekki síður eftir aldri fólks en raunverulegum launatöxtum sem það fær greitt eftir. Og það er hart því að mörg ljón eru á veginum fyrir jöfnun lífskjara sem er fyrsta keppikefli okkar flestra og leiðarljós þjóðfélagsþróunar hér á landi í áratugi. Þar koma náttúrlega til ýmsir hlutir eins og sjúkdómar, elli, búseta o.fl., en það er hart að ein aðatuppspretta misréttisins sé svo augljóslega tilbúin af mönnum eins og húsnæðislánakerfið. Mismunurinn á kjörum fólks eftir því hvenær það byggði er oft miklu meiri en launastigar og fjölskylduhættir segja til um. Stórkostlegasta aðgerð til launajöfnunar í þessu landi sem ég held menn gætu fundið væri að búa íbúðarkaupendum viðunandi kjör. Verkalýðsfélög ættu sérstaklega að hyggja að þessu vegna þess að aldrei nást sættir eða viðunandi ánægja með það sem um er samið í samningum meðan félagsmenn þeirra eru svo áberandi í tvær sveitir settir eins og augljóst er af ástandi í húsnæðismálum. Bankaslagur og þrælapískun íslenskra íbúðarkaupenda virðist raunar orðin svo sjálfsagður hlutur á þroskaferli fólks hér að fæstir koma orðið auga á það eða skilja það sem nauð.

En vaxandi umræða um þessi mál hérlendis, barátta leigjendasamtaka og nú síðast Sigtúnshópurinn og búsetarnir hafa náttúrlega valdið því að fólk er að vakna til vitundar um þessi mál. Því hefur verið haldið fram að ein ástæðan fyrir úrettu fyrirkomulagi hér sé sú að ráðandi stjórnmála- og embættismenn séu flestir af þeirri kynslóðinni sem byggði áður en raunvextir komu til sögunnar. Það kann að vera, en er alvarleg ásökun. Það gengur a.m.k. seint að húsnæðismál fái þann sess sem þeim ber, þ.e. að ríkisvaldið líti á húsnæðismál eins og önnur félagsmál, svo sem eins og heilbrigðis- og tryggingamál, menntamál og þar fram eftir götunum. Og að því hlýtur að koma að 90–95% lán verði sjálfsögð og eðlileg en þess virðist ætla að verða nokkur bið.

Fram hefur komið í þessum umr. að aðalatriðið í húsnæðismálastefnu er náttúrlega ekki frv. um Húsnæðisstofnun. Ófullkomin lög um Húsnæðisstofnun hafa ábyggilega ekki verið stærsta ljónið í veginum fyrir eðlilegri lausn á þessum málum. Aðalatriðið er, eins og um hefur verið fjallað, undanbragðalaus fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Við höfum oft verið minnt á það, ekki síst hér inni á þingi, að eitt er að samþykkja lög og annað að framfylgja þeim. Við höfum mýmörg dæmi úr öllum málaflokkum og nýjasta dæmið er Námsgagnastofnun. Það læknar ekki nauð íslenskra íbúðarkaupenda að Alþingi samþykki ný lög um Húsnæðisstofnun. Það var hins vegar til þurftar að laga þessa löggjöf og í heild eru þar ýmsir punktar sem til bóta horfa. En fjármögnun lánakerfisins er auðvitað aðalatriðið. Og hér hefur því verið lýst og það verið rakið að talsvert virðist vanta á í þessum efnum, bæði til að sinna núverandi verkefnum kerfisins og til að axla þær byrðar sem aukin verkefni skv. frv. munu valda þessum stofnunum.

Eitt atriði sem tengist þessu máli er sú staðreynd að nú þegar sífellt fleiri byggja á raunvöxtum mun koma í ljós smám saman hversu hár byggingarkostnaður er í landinu. Þessi staðreynd hefur í raun dulist í verðbólguæðinu undanfarin ár en hún mun koma og er reyndar farin að koma í ljós. Hún kemur í ljós þegar fólkið í dag, fyrst kynslóða eftirstríðsáranna, þarf í raun og veru að greiða af launum sínum það sem íbúðirnar kosta. Því er brýnt að gæta þess að um leið og menn eiga að stefna í hátt lánshlutfall, 90–95%, verður að gera allt sem hægt er til að lækka byggingar kostnaðinn til að endurgreiðsla lánanna, þó að þau fáist til langs tíma, verði ekki atmenningi um megn.

Í verðbólgu undanfarinna ára var aldrei raunverulegur þrýstingur á að lækka byggingarkostnað. Það er einungis hjá Framkvæmdanefnd verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélögum sem byggingarkostnaður hefur að einhverju marki náðst niður og þá einkum og sér í lagi með því að nota útboð við framkvæmdir. Hins vegar hafa ekki verið miklar framfarir í notkun byggingarefna eða í nýjum byggingaraðferðum. Það er mjög brýnt að rannsóknir á aðferðum og efnum verði efldar til að lækka bæði byggingarkostnað og svo rekstrarkostnað húsnæðis. Ég nefni þetta vegna þess að tvær leiðir eru til að hjálpa íbúðarkaupendum, önnur er sú að hækka lánin, hin að minnka lánaþörfina. sú leið er fær og engu síðri og auðvitað í raun miklu arðsamari.

Ef ég geri nokkrar greinar að umtalsefni vil ég í fyrsta lagi minnast á að í 4. gr. þar sem fjallað er um skipun stjórnar tel ég að réttara væri að verkalýðssamtök, neytendasamtök, samtök byggingarsamvinnufélaga o.fl., tilnefni fulltrúa í stjórnina eins og ASÍ gerir nú þegar, frekar en að Alþingi kjósi þessari stofnun stjórn.

Í 5. gr. þar sem talað er um verkefni stjórnar er í 3. tölul. sagt að stjórn eigi að geta úrskurðað um einstakar fjárveitingar ef ágreiningur eða vafi sé á ferðinni. Þetta tel ég að ætti að athuga betur af ástæðum sem eru þegar kunnar.

Í 9. gr. er fjallað um aðalatriði frv., þ.e. fjáröflun. Þar kemur fram að ýmsir markaðir tekjustofnar séu felldir niður en framlag úr ríkissjóði verði 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins. Mér sýnist þarna stefnt í tvísýnu með fjáröflun því að orðalagið „samþykkt útlánaáætlun“ er hugsanlega teygjanlegt. Og þetta er mergurinn málsins, eins og oft hefur komið hér fram og í ræðum margra talsmanna, að undanbragðalaus fjármögnun er alfa og ómega í þessum málum en ekki lagfæringar á frv.

Í sambandi við þessa grein er óumflýjanlegt að benda á sölu skuldabréfa Byggingarsjóðs til lífeyrissjóða. Fram kemur í grg. með frv. að vaxtamunur á inn- og útlánum kostar Byggingarsjóðinn umtalsverða fjármuni. Nú eru um 2/5 hlutar ráðstöfunarfjár sjóðsins fengnir á þennan hátt og eitt af brýnustu málunum er að finna nýjar leiðir til þessarar fjáröflunar.

Í 32. gr. er kveðið á um að hækkun lána um einn flokk geti orðið vegna bygginga á lögbýlum. Ég vil spyrja ráðh. um ástæður til þessa.

Í 49. gr. er talað um lækkun lána úr 90% í 80% af staðalverði hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þetta er mjög umdeilanlegt. Ef rétt er hermt um kjör þess fólks sem fær þessar íbúðir í þeim gögnum sem menn hafa haft er aldeilis óskiljanlegt að eigið framlag þessa fólks skuli hækka um 200 þús. kr. Maður gæti spurt hvort hæstv. ráðh. hafi einhverjar nýjar upplýsingar um kaupgetu fólks sem nýtur þessara kjara. Fróðlegt væri að fá að heyra upplýsingar um meðallaun, lífskjör og fjölskylduhagi þess fólks sem nýtur lánveitinga úr Byggingarsjóði verkamanna. Þessar upplýsingar hljóta að vera til og hljóta að styðja þá ákvörðun frv. að auka eigið framlag þessa fólks um allt að 200 þús. kr. sem er á að giska eitt lífeyrissjóðslán.

Í VII. kafla er fjallað um skyldusparnað. Í 69. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára sem ekki hafa formlega undanþágu skv. 71. gr. skal skylt að leggja til hliðar 15% af launum sínum, sem greidd eru í peningum, eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðabygginga eða bústofnunar í sveit.“

Og í 71. gr. þar sem fjallað er um undanþágur segir að þeir sem eiga íbúð til eigin þarfa skuli vera undanþegnir sparnaðarskyldu. Hér birtist nú enn einu sinni íbúðahyggja og efnishyggja íslensks umhverfis. Fólk sem er orðið 16 ára má ganga í hjónaband og það fær kosningarrétt innan tveggja ára frá 16 ára afmælinu og er í senn orðið löglegir og fullgildir þegnar. Það virðist þó vera svo vitlaust að það hafi ekki vit á að ákveða hvort það vill kaupa íbúð. Mér er spurn: Á í raun og veru að skylda fólk til að spara í 10 ár fyrir íbúð, þetta fólk sem vill kannske bara leigja? Það vill kannske leigja alla ævi, kannske vill það verða „búsetar“. Mér sýnist þessi forsjárhyggja og skattlagning vera á mörkum þess sem er verjandi. Hún er réttlætt með því að menn eigi að safna í sjóð, annaðhvort til íbúðarbyggingar eða bústofnunar í sveit, en ég þekki marga sem vilja leigja og m.a.s. leigja í kaupstað. Mér finnst umdeilanlegt að halda þessu fyrirkomutagi áfram, ekki síst þar sem það hefur verið margtekið fram hér í ræðum að þetta skilar engum fjármunum eða sáralitlum. Það er hreinlega spurning hvort ekki væri best að leggja þetta niður.

Í grg. með frv. og í dagblaðinu Tímanum þar sem gerð var góð grein fyrir þessu frv. á sínum tíma er vikið að því að nefnd sem skipuð var í júní hafi sérstaklega fjallað um tæknideild stofnunarinnar og jafnvel hvort tímabært væri að leggja hana niður. Ég tel rétt að athuga rækilega stöðu þessarar deildar. Það bendir ýmislegt á að ákveðnum hlutum sem hún á að sinna sé ekki sinnt. Þá á ég sérstaklega við rannsóknir á byggingaraðferðum, nýjum byggingarefnum o.fl. Þetta er eins og ég vék að áður í máli mínu alveg jafnmikið mál og hækkun lána, þ.e. að lækka byggingarkostnað. Hugsanlegt er að tæknileg starfsemi deildarinnar eigi jafnvel betur heima undir Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Síðan vil ég að lokum geta lítillar hugmyndar um breytt greiðslufyrirkomulag lána úr byggingarsjóðnum. Hún miðast við að greiðslum verði fjölgað og byrjað verði að greiða lán fyrr en við fokheldisstig. Hugsanlega mætti tengja slíkar greiðslur við það eftirlit og uppáskriftir sem byggingarfulltrúar, hver í sínu umdæmi, fara nú með. Kostur slíks fyrirkomulags væri að á þann hátt mundi fjárstreymið jafnast um byggingartímann og skammtímalánasnap húsbyggjandans mundi minnka. Ég er viss um að ösin á biðstofum bankastjóra mundi minnka verulega og dráttarvaxtakostnaður húsbyggjandans hjá verktökum og efnissölum mundi líka minnka.