12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að mér er ekki kunnugt um að þeir flokkar sem standa nú að ríkisstj. hafi sýnt stjórnarandstöðunni neina ókurteisi í sambandi við störf á hv. Alþingi. En á hinn bóginn vil ég aðeins minna á að hv. þm. var ekki jafnreiðubúinn til samstarfs hér fyrir einu ári. Þegar við settum fram þá kröfu í stjórnarandstöðu að ekki yrðu þrír kvöldfundir í röð, sem sanngjarnt hafði þótt áður, mátti ekki um slíkt tala. Við getum vel tekið upp langar umr. um það, ég og hv. þm., hvaða tillit stjórnarandstöðunni var sýnt meðan hann sat hér í þessum stólum. En ég segi nú bara: Batnandi manni er best að lifa. Ég finn að hann vill að meira tillit sé tekið til stjórnarandstöðunnar nú en þá var og það sýnir að maðurinn hefur þroskast nokkuð og skilur það að minni hl. hefur einnig nokkurn rétt.