12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal, 5. þm. Norðurl. e., talaði hér fyrir hönd Sjálfstfl. Það var sérstaklega tekið fram af forseta og var athyglisvert vegna þess að við höfum ekki séð þennan þm. í þingsölum fyrr í vetur. Sum okkar voru kannske búin að gleyma því fyrir hvaða flokk hann var að tala á síðasta þingi þannig að það var eins gott fyrir hæstv. forseta að geta þess að hann væri að tala fyrir Sjálfstfl. en ekki t.d. Framsfl.

Hv. þm. Halldór Blöndal veit ekkert hvernig þingstörfum hefur verið hagað hér í vetur á Alþingi Íslendinga. Hann veit kannske eitthvað um Allsherjarþingið, en hann veit ekkert um Alþingi Íslendinga þannig að hann ætti ekkert að vera að blanda sér í það hvernig þeim hlutum hefur verið hagað á þinginu í vetur. Yfirleitt hefur það gengið nokkuð vel og ég vona að það versni ekki að mun þó hann hafi nú tekið sæti á Alþingi á ný.