12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fyrir helgi lagði ég nokkrar spurningar fyrir hæstv. félmrh. varðandi það frv. sem hér er til umr. Hann hefur hér í umr. í dag svarað flestum af þeim spurningum og fyrir það vil ég þakka.

Ég tel þó að eftir svör ráðh. standi sú gagnrýni sem ég setti fram fyrir helgi óhögguð, en hún byggðist á því að fjárhagsgrundvöllur þessa frv. væri í mesta ólestri. Og raunar tel ég að hæstv. ráðh. hafi staðfest í svörum sínum hér fyrr í dag ábendingar mínar um einstakar greinar þessa frv. og um fjárhagsgrundvöll þess að þetta frv. standi á mjög ótraustum fótum fjárhagslega séð.

Það var athyglisvert að beinlínis kom fram í máli hæstv. ráðh. að húsnæðissamvinnufélögin geta ekki átt von á því á næsta ári að fá fjármagn til að hefja sínar framkvæmdir. Hann sagði reyndar orðrétt að þau geti alls ekki komist af stað á næsta ári nema að mjög óverulegu leyti. Þetta er nauðsynlegt að fá fram hjá hæstv. ráðh. vegna þess að eins og þm. vita eru margir sem hafa gerst félagar í þessum húsnæðissamvinnufélögum í trausti þess að geta fljótlega fengið íbúðir á viðráðanlegu verði. Í einu húsnæðissamvinnufélagi eru nú þegar um 2000 manns sem bíða eftir að fá fyrirgreiðslu. Auðvitað ber að harma að ekki sé hægt að veita fjármagn á næsta ári til þessara húsnæðissamvinnufélaga en ég vil treysta því að hæstv. ráðh. geri það sem í hans valdi stendur til að hægt sé að veita einhverju fjármagni í þessi húsnæðissamvinnufélög þó ég geti ekki séð miðað við þær tölur sem við höfum í fjárlagafrv. og sem fram koma í lánsfjáráætlun að við það sé hægt að standa.

Hæstv. ráðh. taldi það ekki rétt sem ég hefði sett hér fram að 530 nýjar umsóknir lægju fyrir varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Taldi hann, ef ég skildi mál hans rétt, að þær væru ekki nema 330. Þær upplýsingar sem ég hef eru að þetta séu 530 íbúðir. 44 sveitarfélög nefndi ráðh. Ég er hér líka með upplýsingar um 44 sveitarfélög eða samtals 530 íbúðir. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðh. sleppir Reykjavík sem er með 200 íbúðir en ég tel að taka verði Reykjavík þarna með inn í myndina þegar við metum þörfina fyrir íbúðir sem kostaðar ern úr Byggingarsjóði verkamanna á næsta ári. Þessi listi sem ég hef er yfir umsóknir sem voru komnar fyrir 1. ágúst 1983. Það eru 530 íbúðir, ekki 330 eins og ráðh. hefur hér sagt.

Raunar var athyglisvert að hæstv. ráðh. mótmælti því ekki einu orði í sínu máli fyrr í dag að ekki væri hægt eins og ég setti fram og reyndar hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson — að veita lán úr Byggingarsjóði verkamanna til einnar einustu af þessum umsóknum sem liggja fyrir. Einungis væri hægt að sinna umsóknum sem fram hefðu komið fyrr á árinu, en ekki væri hægt að sinna einni einustu þeirra umsókna sem liggja fyrir. Hæstv. ráðh. lét því ómótmætt og það verður að túlka sem svo að það sem ég setti fram í mínu máli standi, að ekki sé hægt — miðað við svipaðar áætlanir sem liggja fyrir fjárhagslega — að leggja fjármagn í eina einustu nýja íbúð sem fjármagnaðar eru úr Byggingarsjóði verkamanna.

Ég get ekki séð annað en að gagnrýni mín um fjármögnun bæði varðandi húsnæðissamvinnufélögin og eins varðandi þessar nýju umsóknir standi óhögguð.

Varðandi 2. tölul. í 9. gr. frv. taldi ég í mínu máli að ekki væri staðið við það ákvæði í frv. Þar er talað um að veita eigi 40% sem framlag úr ríkissjóði skv. fjárlögum. Ég tel raunar að hæstv. félmrh. hafi viðurkennt í sínu máli í dag að við ákvæði 9. gr. 2. tölul. væri ekki staðið miðað við þá fjármögnun sem fyrirhuguð er. Hæstv. ráðh. sagði að það væru að vísu ekki nema 200 millj. í fjárlagafrv. sjálfu, en í ákvæðum 9. gr. segi að leggja eigi til á fjárlögum 40% af útlánaáætlun sjóðsins.

Hann sagði að vísu að til viðbótar væri gert ráð fyrir sérstakri skuldabréfasölu, en hæstv. félmrh. veit eins og aðrir þm. hér inni og eins og hæstv. fjmrh. hefur bent á hér í umr. að mikil óvissa ríkir með sölu á þessum skuldabréfum. Hann hefur reyndar sagt að seljist ekki þessi skuldabréf sjái hann ekki hvar afla eigi þessara 200 millj. sem til viðbótar þarf.

Hæstv. ráðh. benti á að lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins væru að upphæð 1167 millj. kr. Ég hélt því fram í mínu máli að ráð væri fyrir gert að þær væru um 1402 millj. og hafði ég þær upplýsingar skv. áætlun frá Húsnæðisstofnun dags. 30. sept. 1983 að um væri að ræða lán á árinu 1984 upp á 1402 millj., en fram kemur í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1167 millj. Ráðh. sagði enn fremur í dag að gert væri ráð fyrir sama byggingarmagni 1984 og er 1983 eða um 1700–1800 íbúðum og um 1000 nýbyggingum. Skv. þeirri áætlun sem ég byggi á og er upp á 1402 millj. er gert ráð fyrir nýbyggingum eða frumlánum upp á 1050 íbúðir og er það svipuð tala sem ráðh. talar um þegar hann talar um 1000 íbúðir. Því tel ég að ef rétt er sem fram kemur í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að einungis eigi að veita úr Byggingarsjóði ríkisins 1167 millj. sé annaðhvort um að ræða niðurskurð, þ.e. að færri íbúðir verði byggðar en þessar 1000 á næsta ári, eða að húsnæðismálastjórn sé ætlað að fjármagna þetta — ég veit ekki á hvern hátt, t.d. með yfirdrætti úr Seðlabankanum, þ.e. ef meiningin er að standa við það að hægt sé að byggja 1000 nýjar íbúðir á næsta ári.

Ég fæ því ekki séð annað, hæstv. ráðh., ef gert er ráð fyrir að veitt verði frumlán til þúsund nýrra íbúða og sú áætlun eigi að standast þá vanti 360 millj. í fjárlögin í Byggingarsjóð ríkisins skv. 9. gr. 2. tölul. og einungis komi á fjárlögum 14% í stað 40% eins og ákvæði 9. gr. 2. tölul. gerir ráð fyrir. Ég fæ ekki séð að þessar 1167 millj. geti staðið undir því að hægt sé að veita til 1000 nýrra nýbyggingarlána á næsta ári.

Ráðh. taldi að ég hefði ekki farið með rétt mál hér fyrir helgi þegar ég sagði að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna hefðu það sem af væri árinu aðeins verið um 60%. Ég talaði um að þetta væru 60% frá jan. til októberloka. Það má vel vera að sé miðað við síðustu dagana í desembermánuði séu þetta um 80%, en ég tel að þær tölur sem ég setti fram hér fyrir helgi og voru miðaðar við októberlok og þá um 60% standi miðað við þann tíma. Og er það vel, ef skuldabréfakaupin eru nú komin upp í 80%.

Eins tel ég að ráðh. hafi staðfest það sem ég sagði hér varðandi skyldusparnaðinn. Ég sagði að það stefndi í að hann yrði neikvæður um áramótin og skv. þeim upplýsingum sem ég hefði þá væri einungis um að ræða að 3 millj. hefðu komið inn skv. skyldusparnaði en ekki um 40 millj. eins og ráð var fyrir gert á næsta ári. Ráðh. talaði einmitt um það í máli sínu hér í dag að um stórt spurningarmerki væri að ræða varðandi skyldusparnað inn. Því tel ég að þar sé byggt á mjög ótraustum grunni þegar gert er ráð fyrir að 45 millj. komi af skyldusparnaði í byggingarsjóðina á næsta ári.

Ég lagði líka fram eina spurningu fyrir ráðh. sem hann svaraði reyndar ekki í dag. Ég veit ekki hvort hann hefur ekki haft handbærar þær upplýsingar en ég geri þá ráð fyrir að hann muni reyna að afla þeirra þannig að það flýti fyrir afgreiðslu málsins í n. Skv. frv. er gert ráð fyrir að í verkamannabústöðunum þurfi fólkið sem þar fær íbúðir að fjármagna 20% sjálft í stað 10% áður. Hér er sennilega um 150–200 þús. kr. mismun að ræða. Ég taldi nauðsynlegt að við fengjum hér fram hvað megi vænta að greiðslubyrðin fyrir þetta fólk af þessum lánum yrði mikil því gera verður ráð fyrir að þetta fólk hafi ekki handbært það fé sem þarf að leggja fram í þessar íbúðir og það þurfi þá að leita í bankakerfið. Það segir sig sjálft að fólk með kannske 11–15 þús. kr. tekjur getur varla staðið undir þeirri greiðslubyrði sem gera má ráð fyrir ef það þarf að standa undir að fjármagna 20% af þessum íbúðum sjálft. Ég legg því mikla áherslu á að þessar upplýsingar komi fram í n.

Eins svaraði ráðh. ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans þegar ég talaði um að á undanförnum árum og eins með þessu frv. og með lánsfjáráætlun væri við það miðað að stór hluti af fjárþörfinni væri fenginn með lántökum. Ég tel að svo stór hluti sé fenginn með lántökum í byggingarsjóði að það hljóti að stefna í greiðsluþrot hjá þessum sjóðum. Ég taldi að ráðh. gæti einnig flýtt fyrir störfum í n. ef hann gerði ráðstafanir til að láta Þjóðhagsstofnun reikna út hvað sjóðirnir gætu lengi staðið undir þessari og svipuðum lántökum eins og átt hafa sér stað á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég skal ekki verða til að tefja að þetta frv. komist til n. Ég vil þó segja að hæstv. ráðh. kom inn á frv. Magnúsar H. Magnússonar og gagnrýndi að það hefði haft að geyma styttri lánstíma en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er að vísu rétt að lánstíminn sem ráð var fyrir gert í því frv. var styttri en hér er gert ráð fyrir. En við verðum þá að vega og meta hvort betra er fyrir húsbyggjendur og íbúðarkaupendur að fá lengri lánstíma og þá lægra lánshlutfali. Ég tel að lengri tíma taki að byggja upp sjóði með því að lánstíminn sé lengdur og því taki það lengri tíma að ná 80% lánshlutfallinu. Og ég tel að meira máli skipti fyrir fólkið að fá hærra lánshlutfall eins og gert var ráð fyrir í frv. Magnúsar H. Magnússonar en lengri lánstíma t.d. 6 ár eins og hér er gert ráð fyrir. En skv. frv. Magnúsar H. Magnússonar hefði lánshlutfallið nú verið komið í 50% af staðalíbúð en þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir tæplega 30%.

Ég vil aftur ítreka þá gagnrýni sem ég setti fram í mínu máli fyrir helgina varðandi vextina. Ég tel ófært að við fáum enga vitneskju um það um leið og þetta frv. er afgreitt hver eigi að verða greiðslukjörin og þar með greiðslubyrði fólksins. Þetta er algjörlega sett í hendur framkvæmdavaldsins en Alþingi á ekkert að hafa með það mál að gera. Það vil ég leyfa mér að gagnrýna.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta lengur. Ég legg áherslu á að ég og minn flokkur munum gera eins og hægt er til að hægt sé að afgreiða þetta mál fyrir jólahlé. Það er að vísu mjög stuttur tími sem lifir eftir fram til jóla. Því tel ég að haga verði málum þannig að félmn. beggja deilda starfi saman til að hægt sé að vinna þetta mál hratt. Þetta er viðamikið frv. upp á 80 greinar. Ég tel vel koma til greina eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar að n. skoði frv. með þeim augum að taka út þau ákvæði sem skipti máli upp á að gildistaka eigi sér stað nú um áramótin, en okkur gefist þá lengri tími til að skoða þetta mál eftir áramótin, þ.e. þau ákvæði sem ekki skipta þá máli að taki gildi um þessi áramót.