12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. vék að minni hyggju ómaklega að því sem við jafnaðarmenn gjarnan köllum frv. Magnúsar H. Magnússonar um húsnæðismál frá árinu 1979. Mér sýnist eftir þessar umr. að hann sé illa í stakk búinn til að gagnrýna þá leið sem þá var valin, einfaldlega vegna þess að samanburður þessara tveggja frv. er fjarri því að vera hæstv. ráðh. hagstæður. Þar skiptir eftirfarandi mestu máli:

Þegar þetta mikla lagafrv. var lagt fram, eftir að það hafði verið samþykkt af ráðh. Framsfl. og Alþb. í ríkisstj., fylgdi því mjög rækileg reikningsleg úttekt á áhrifum þeirra lánskjara sem þá voru í boði, lánskjara í heild sinni, og þá er bæði talað um áhrif vaxta og lánstíma á getu manna til að efla eigin fjárhag sjóðanna og útlánagetu í framtíðinni. Jafnframt fylgdi mjög ítarleg grg. um þá greiðslubyrði sem lán samkvæmt þessum kjörum legðu á lántakendur. Sannleikurinn er sá, að hvort tveggja var því frv. sem við kennum við Magnús H. Magnússon fyrrv. ráðh. miklum mun hagstæðara. Ef ekki hefði verið vikið illu heilli frá þeirri stefnu að tryggja Byggingarsjóði ríkisins áfram markaða tekjustofna af launaskatti og öðrum tekjustofnum, þá væri það framlag sem sjóðurinn nyti á þessu ári um 600 millj. kr. Það er sömuleiðis ljóst að það var einmitt sú megináhersla sem lögð var á uppbyggingu sjóðakerfisins sjálfs sem skar úr um að þarna var hægt að hækka lánin sem hlutfall af byggingarkostnaði í áföngum, þannig að á næsta ári 1984 hefði verið tryggt og legið á borðinu að staðið hefði verið við það loforð sem hæstv. félmrh. og aðrir ráðh. núv. ríkisstj. gáfu, en efndu ekki, að lánshlutfallið skyldi vera 50% á næsta ári af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Þar að auki er alveg augljóst mál að þá keyptu menn ekki köttinn í sekknum að því er varðaði greiðslubyrði út frá sjónarmiði lántakenda. Það kemur t.d. rækilega fram, að ef farin hefði verið sú leið sem þar var mörkuð hefði greiðslubyrði afborgana og vaxta numið þegar hún var hæst u.þ.b. 1/5 af mánaðarlegum launum þess viðmiðunarhóps sem um er að ræða — og verður nú ekki sagt, í samanburði við það sem var á liðnu kjörtímabili og enn er, að það hafi verið ósanngjörn eða óviðunandi kjör. Samt skal það tekið fram að þetta frv. var miðað við þær forsendur um íbúðaþörf og íbúðabyggingar að 2000 til 2100 íbúðir þyrfti á ári hverju. Þannig fer ekki milli mála að allar forsendur um meginatriði málsins, eflingu á eigin fjárhag byggingarsjóðanna sjálfra, getu þeirra til að hækka lánshlutfallið í áföngum og upplýsingar sem fyrir lágu um greiðslubyrði, voru ákaflega hagstæðar. Þess vegna þarf engum að koma það á óvart þó við jafnaðarmenn höfum gagnrýnt harðlega að þetta frv. var í meðförum þingsins og í tíð fyrrv. ríkisstj. að verulegu leyti skemmt með herfilegum afleiðingum, eins og ég hef áður sýnt fram á, fyrir húsbyggjendur í landinu.

Gagnrýni mín á fyrrv. ríkisstj. var að því leyti ósköp eðlileg að útgangspunkturinn í þessari umfjöllun um húsnæðismálin er það ástand sem við blasti á s.l. vori. Og það er bókstaflega blindur maður sem neitar því að það var hreint neyðarástand. Um það liggja fyrir alveg óyggjandi upplýsingar. Það finna þeir best sem eldurinn brennur á, sá stóri hópur húsbyggjenda sem gerði uppreisn á s.l. sumri og kallaði það gersamlega ómanneskjuleg kjör. Og hvað er meginatriðið í því? Ég hélt því fram að meginatriðið í því að leiða þetta neyðarástand yfir fólk hafi verið að hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var af Magnúsi H. Magnússyni þegar hann lagði fram sinn mikla lagabálk um þetta efni — þeirri stefnu að tryggja Byggingarsjóði ríkisins örugga tekjustofna í stað þess að vísa honum í vaxandi mæli á lánamarkað þar sem sjóðurinn galt mikils vaxtamunar ásamt með því að fjárframlög ríkisins voru skert. Þetta kemur ákaflega skýrt fram í grg. með þessu frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Launaskattur var fyrst upp tekinn á árinu 1964 og var þá 1% og rann allur til sjóðsins. En á árinu 1974 var launaskattur í sjóðinn hækkaður í 2%. Sjóðurinn naut einnig tekna af byggingarsjóðsgjöldum af tekju- og eignarsköttum og aðflutningsgjöldum.“

Það er alveg rétt ábending að hækkun launaskattsins og sú ákvörðun að marka hann sem sérstakan tekjustofn til húsnæðislánakerfisins var upp tekin að kröfu verkalýðshreyfingarinnar og í samningum við hana. Þess vegna hef ég aldrei skilið hvers vegna það gerðist í tíð fyrrv. ríkisstj., í stjórnartíð formanns Alþb., að við þá samninga var ekki staðið. Að því er það varðar að í tíð fyrrv. húsnæðismálaráðherra hafi verið séð fyrir framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins þannig að þau hafi verið tryggð að raungildi, þá segja þær upplýsingar sem liggja fyrir í þessari grg. allt aðra sögu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í upphafi s.l. áratugar svaraði framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins 45–50% af ráðstöfunarfé hans.“

Nú eru menn að tala um að markið eigi að vera 40% þó að það liggi nú fyrir í yfirlýsingu ráðh. að hann stendur ekki við það meginlagaákvæði hins nýja frv. um að tryggja þetta sem framlaf; ríkisins. Ég vík að því aðeins síðar.

Síðan segir áfram:

„Hlutfallið lækkaði í 40% árið 1973, en hækkaði aftur með hækkun launaskattsins 1974 og var um 50% á árunum 1976–1978.“ — síðan kemur að lykilatriðinu: „Árin 1979 og 1980 voru skatttekjur sjóðsins skertar samkv. heimildum í lánsfjárlögum, en eftir gildistöku laga nr. 51/1980 var framlag ríkissjóðs óbundið og ákveðið á fjárlögum. Við skerðinguna 1979 lækkaði framlag ríkissjóðs sem hlutfall af ráðstöfunarfé sjóðsins úr 49% árið 1978 í 39% og þetta hlutfall varð síðan 34% 1980, 16% 1981 og 19.5% árið 1982.“

Það fer því ekki milli mála að hlutur Byggingarsjóðs ríkisins af upphaflega mörkuðum tekjustofnum og síðar af framlögum ríkisins fór hríðlækkandi. Í staðinn varð sjóðurinn í vaxandi mæli að leita á náðir lánamarkaðarins með hörmulegum afleiðingum, ekki aðeins fyrir fjárhagsgetu sjóðsins fram í tímann heldur einnig með hörmulegum afleiðingum fyrir þiggjendur þessarar þjónustu í formi lækkandi lánshlutfalls og vaxandi greiðslubyrði.

Þegar hæstv. fyrrv. húsnæðismálaráðherra beinir þeirri gagnrýni að mér að ég sé að gagnrýna að hluti af þessum tekjustofni hafi verið fluttur yfir til Byggingarsjóðs verkamanna og gerir mér upp, eftir því sem mér skildist, þá skoðun að ég eða mínir flokksmenn hafi þar með lýst okkur andvíga verkamannabústaðakerfinu, þá vísa ég slíkri gagnrýni gersamlega á bug. Það sem við erum að gagnrýna er að uppbyggingu hins félagslega kerfis, sem fyrst er ítarlega lögfest einmitt í frv. Magnúsar H. Magnússonar, þ.e. því markmiði að þriðjungi af árlegri byggingarþörf skuli fullnægt samkv. ákvæðum laga um Byggingarsjóð verkamanna, varð ekki best náð með því að kippa fótunum undan fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins. Það segir sig sjálft og úr því hefur reynslan skorið vegna þess einfaldlega að við getum ekki leyst vandamál húsbyggjenda eingöngu í krafti laga um Byggingarsjóð verkamanna þegar af þeirri ástæðu að tilgangur þess lánakerfis er að fullnægja þörfum þess hluta launþega í landinu sem vegna ákvæða um lágmarkstekjumörk — meðaltal næstliðinna þriggja ára — þarf augljóslega í nafni tekjujöfnunar á sérstakri aðstoð að halda. Það kemur greinilega fram að það er ekki talinn vera nema um 1/3 af félagsbundnum meðlimum verkalýðshreyfingarinnar sem þannig stendur á hjá og sú tala mun m.a.s. vera rúmt áætluð.

Staðreyndin er sú líka, eins og komið hefur á daginn, að hið félagslega kerfi hefur orðið fyrir miklu meira álagi vegna þess að fjárhagur Byggingarsjóðs ríkisins var lagður í rúst. Þegar búið var að úthýsa heilli kynslóð manna af húsnæðismarkaðnum, þannig að menn eiga ekki annarra kosta völ en að leita til hins félagslega kerfis, þá kom á daginn að umsóknafjöldinn þar var slíkur að ekki var hægt að verða við nema u.þ.b. einni umsókn af hverjum sjö.

Ég stend þess vegna fyllilega við það sjónarmið okkar Alþfl.-manna, sem sett var fram í nái. og brtt. okkar þegar á þingi 1979–1980 við umfjöllun þeirra lagabreytinga sem þá voru settar fram, þar sem við vöruðum við því að farið væri inn á hættulega braut þegar eigin fjárhagur Byggingarsjóðs ríkisins væri látinn rúlla. Við vöruðum við því að þetta mundi kalla á allt of mikla lánsfjárþörf og þar með væri stefnt í hættu því meginmarkmiði okkar að geta sjóðanna væri óskert til að hækka lánshlutfallið í áföngum. Þetta kemur rækilega fram t.d. í nál. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur frá 29. maí 1980, þar sem m.a. segir:

„Auk þess var sýnt fram á áð ekki er um að ræða aukningu á heildarfjármagni inn í félagslega kerfið frá því sem upphaflega frv. gerði ráð fyrir. Þvert á móti stendur fjárhagsgrundvöllur félagslegra íbúðabygginga ekki á eins traustum fótum vegna aukningar sem skapast af lánsfjárþörf. Þrýstingurinn mun einnig aukast geysilega yfir á fétagslega kerfið ef fjármagn er dregið frá Byggingarsjóði ríkisins með þessum hætti.“ Þetta hefur heldur betur látið á sannast.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vildi aðeins árétta að hafandi heyrt svör hæstv. ráðh. við rökstuddri gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga og málefnalegu umr. varð ég ekkert síður fyrir vonbrigðum með þau en meginatriði frv. sjálfs. Það kom skýrt og skilmerkilega fram í málflutningi ráðh. að ákvæðum 9. gr., sem er lykilatriðið að því er varðar fjármögnunina, hefur ekki verið fullnægt, jafnvel þó að þær tölur sem hann gefur um áætlaða íbúðaþörf séu teknar góðar og gildar. Ég endurtek að í 9. gr. segir mjög skilmerkilega:

„Með árlegu framlagi úr ríkissjóði samkv. fjárlögum skal veita framlag sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár.“

Hér er alveg ótvírætt talað um framlag úr ríkissjóði samkv. fjárlögum. Hér er ekkert verið að vísa á aðra fjáröflun samkv. lánsfjárlögum. samkv. máli ráðh. taldi hann að 40% af þeirri tölu sem hann gaf upp, 1167 millj., væru 467 millj. kr. og þá stendur það alveg óhagganlegt að við þetta lykilatriði hins nýja lagafrv. um 40% á fjárlögum hefur ekki verið staðið.

Það er heldur háskalegt ef eftir þessar umr. á að standa að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna sé þannig háttað að það standi ekki til að fjármagna eina einustu nýja verkamanna:búð í Reykjavík á þessu ári. Ég hygg að 2000 meðlimir húsnæðissamvinnufélagsins, sem samkv. viðtölum í blöðum byggja greinilega miklar vonir við að þetta frv. feli í sér úrlausn á þeirra málum, leggi nú betur við hlustirnar þegar fyrir liggur að hæstv. ráðh. lýsir því yfir að hann hafi aldrei gefið neitt slíkt í skyn, enda sé ekki um neitt slíkt að ræða.

Mér þykja svör hæstv. ráðh. líka heldur þunn í roðinu þegar talinu er beint að ýmsum grundvallarþáttum húsnæðismála, eins og t.d. áhrifum lélegrar þjónustu bankakerfisins á fasteignamarkaðinn, þar sem meginverkefnið hlýtur að vera að lengja lánstíma bankalána til að lækka útborgunarhlutfall íbúðakaupenda á fasteignamarkaðinum. Hann segir að það sé bara í athugun.

Það eru m.ö.o. allt of margir þættir þessara mála sem liggja ekki ljóst fyrir: Í fyrsta lagi vaxtaákvörðunin. Um hana er engu slegið föstu. Í öðru lagi fjármögnunin sjálf. Framlög ríkisins standast ekki einu sinni kröfur þær sem settar eru um lög bundin framlög. Og síðast en ekki síst áhrif hinnar ótraustu fjármögnunar á getu sjóðsins til að hækka lánshlutfatlið í framtíðinni. Þá eru engar upplýsingar um hver raunveruleg greiðslubyrði væntanlegra lántakenda e:r. Mér sýnist því alveg ótvírætt að niðurstaðan af þessum umr. sé sú, að þó að markmiðin séu að mörgu leyti góð vanti of mikið upp á að með þessu frv. liggi fyrir þau gögn sem sannfæri okkur um að við fögur fyrirheit, jafnvel þó sum hafi verið svikin, verði staðið.