12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að koma aðeins inn á þau atriði sem hér hefur borið á góma.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér í upphafi máts, að menn virðast líta svo á að í frv., eins og það er lagt fram af þeirri nefnd sem vann að samningu þess og eftir að um það hafði verið fjallað í þingflokkum stjórnarliðsins, hafi því verið slegið föstu að fjárlagafrv. fyrir árið 1984 og lánsfjáráætlun, sem er óafgreidd, eigi að vera nákvæmlega í takt við stefnu frv. sem á eftir að fara í gegnum allar um.r. á hv. Alþingi. Það væri vandalítið að semja ný lög og marka nýja stefnu ef hægt væri að tryggja slíkt fyrir fram, áður en frv. kemur til umr. á hv. Alþingi.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem hv. 3. þm. Reykv. taldi vansvarað. Ég tók fram í upphafi fyrri svarræðu að mér fannst hann vera svo vanstilltur og stóryrtur í frumræðu sinni við 1. umr. málsins að ég kunni ekki við annað en að láta hjá líða að svara honum ítarlega. Sumt jaðraði við aðdróttanir sem ástæðulaust var að svara miðað við þann formála sem hv. þm. hafði fyrir sinni ræðu. Kemur það sjálfsagt glöggt fram í þingtíðindum þegar þau verða lesin.

Nokkur atriði sem hana kom hér inn á vil ég þó taka fyrir. Hann ítrekaði af hverju byggingarsamvinnufélögin væru felld út úr 11 gr. Það er einfaldlega vegna þess að byggingarsamvinnufélögin eru viðurkenndir framkvæmdaaðilar í byggingariðnaði og hafa verið það alla tíð. Inn í frv. er nú kominn sérstakur kafli um byggingarsamvinnufélög, svo ekki verður um villst að þau eru hluti af húsnæðiskerfi landsins miðað við samþykkt þessa frv.

Hv. þm. spurði um hvort ekki væri eðlilegt að setja á sérfræðingahóp til að gera nánari útfærslu á hlutareign íbúða samkv. 15. gr. Auðvitað er þetta mikilvægt mál og eins og ég tók raunar fram í framsöguræðu minni, tel ég þetta eitt þýðingarmesta nýmælið í þessu frv., að þarna er lífeyrisþegum í þjóðfélagi okkar í fyrsta sinn gerð möguleg hlutaeign í leiguíbúðum sem veitir þeim rétt til búsetu um lengri eða skemmri tíma. Þetta er ákaflega mikilvægt. Og ég vek athygli á því, vegna þess að það virðist vera misskilið hér, að þetta ákvæði heyrir undir báða byggingarsjóðina, en fyrst og fremst er gert ráð fyrir þessu undir Byggingarsjóði ríkisins. Að sjálfsögðu verður þetta, þegar að því kemur, nánar útskýrt í reglugerð og lögð í það mikil og vönduð vinna.

Í sambandi við vaxtaákvörðunina varð samkomulag um það í endurskoðunarnefndinni að fylgja fram í meginatriðum þeirri stefnu, sem var í frv. fyrrv. félmrh., að draga vaxtaákvörðun út úr lögunum sjálfum, en endurskoðunarnefndin taldi eðlilegt að láta það gilda yfir alla lánaflokka, ekki aðeins hjá Byggingarsjóði ríkisins heldur einnig í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna. Ég tel að þessi ákvörðun sé rétt og miðað við forsendur í þjóðfélaginu í dag finnst mér eðlilegt að ákvörðun um vexti sé stefnumarkandi hverju sinni þegar ákvörðun er tekin um útlánastefnuna.

Það var margt fleira sem hv. þm. spurði um í fyrstu ræðu sinni. Hann spurði t.d. um skipulag Húsnæðisstofnunarinnar og tilveru tæknideildar. Ég lýsti því í frumræðu að það væri ákveðið að halda áfram endurskoðun á skipulagi stofnunarinnar í heild og þar með talið tilveru tæknideildar, sem er umdeilt atriði og er sjálfsagt að skoða nánar.

Í sambandi við skyldusparnaðinn tók ég fram í minni framsögu að það væri eðlilegt að endurskoða það atriði, það hefði verið umdeilt. En í meðförum nefndarinnar og þingflokkanna náðist samkomulag um að láta ákvæði um hann standa í frv. svo til óbreytt að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að skyldusparnaðurinn standi aðeins lengur við, þ.e. hann verði ekki greiddur út á sama ári. En hér er um að ræða atriði sem mér finnst sjálfsagt að menn skiptist á skoðunum um, hvort á að fella þetta atriði niður úr lögunum eða endurbæta það, miðað við þær ábendingar sem m.a. hafa komið fram við þessa umr. Ég legg ekki dóm á þessa gagnrýni. Þetta er frekar óvinsælt ákvæði þrátt fyrir að skyldusparnaður í núgildandi lögum er eitt hagstæðasta sparnaðarform fyrir sparendur sem hægt er að fá miðað við núgildandi aðstæður.

Í sambandi við verkamannabústaðina vil ég segja að það er algjör misskilningur að halda því fram að gert sé ráð fyrir að útiloka byggingu verkamannabústaða í Reykjavík. Þetta er útúrsnúningur. Í dag, 12. des., fékk ég nótu frá Húsnæðisstofnuninni þar sem gefin er sundurgreining á byggingu verkamannabústaða eins og staðreyndir liggja fyrir frá árinu 1980. Á árinu 1980 var byrjað á 74 íbúðum í verkamannabústaðakerfinu, 1981 205, 1982 304 og 1983 329 íbúðum. Í tölu ársins 1983 eru 168 íbúðir í Reykjavík, sem lítið er byrjað á, og eftir er að ganga frá endanlegum framkvæmdalánssamningi. Vegna ársins 1984 bárust umsóknir frá 44 sveitarfélögum um heimild til að byggja 330 íbúðir. Meiri hlutinn eða rúmlega 50% af þeim íbúðum eru umsóknir frá stjórn Byggingarfélags verkamanna í Reykjavík.

Þetta eru blákaldar staðreyndir. Ég vænti að hægt sé að skoða málið nánar í hv. félmn. til að sannprófa þessar upplýsingar.

Það má vel vera að menn vilji slá því föstu að búið sé að strika yfir allar byggingar verkamannabústaða á næsta ári með því fjárfestingarplani sem er sett upp í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár, en ég bendi á að svo er alls ekki. Við eigum eftir að skoða hvernig við getum nýtt það fjármagn sem verður hægt að fá. Ég vil einnig benda á að eftir er að ræða hér á hv. Alþingi algerlega um skiptingu og meðferð þess fjármagns sem gert er ráð fyrir að við fáum frá lífeyrissjóðakerfinu. Kemur vel til álita, að mínu mati, að láta reyna á hvort við getum ekki aukið hlut Byggingarsjóðs verkamanna í því kerfi og hann fái meira fjármagn bæði í byggingu verkamannabústaða og eins til að byrja að sinna því hlutverki sem hin ýmsu nýju form munu kalla eftir.

Ég vil í leiðinni segja það í sambandi við húsnæðissamvinnufélögin, að auðvitað tekur sinn tíma að koma því kerfi formlega á. Ég vænti þess að fyrir árið 1985 verði virkilega búið að undirbúa vel að sú starfsemi geti hafist af fullum krafti. Ég benti á að félög þessi þurfa auðvitað lóðir og ýmislegt fleira sem algerlega á eftir að vinna að.

Eins og ég tók fram í minni framsögu hefði ég getað flutt 2–3 klukkutíma ræðu og lesið upp úr þeim útreikningum og skýrslum sem hinir ýmsu sérfræðingar, sem nefndin hafði sér til aðstoðar, hafa unnið. Hér er t.d. nákvæm skýrsla um hvernig væri hægt að ná, miðað við 40% fjármögnun, 80% útlánamarki á 15 árum miðað við núgildandi staðalióúðakerfi. Það er hægt á 15 árum að fjármagna þetta þannig að sjóðurinn sé búinn að byggja sig upp og búinn að ná því markmiði að allir hafi möguleika á að fá 80% lán miðað við staðalóúð. Þessar upplýsingar og margar fleiri verða til reiðu fyrir hv. nefndir þegar þær taka til starfa.

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í umræður um þetta mál. Það er sjálfsagt að gefa enn þá meiri tölulegar upplýsingar þegar nefndir taka til starfa. Ég vil þó endurtaka að miðað við þau drög sem fyrir liggja í lánsfjáráætlun og miðað við ákvörðun fjárlagafrv. eru sterkar líkur til þess að við getum fjármagnað þessa ákvörðun ef Alþingi samþykkir að 40% af útlánaákvörðun Byggingarsjóðs ríkisins verði fullnægt á næsta ári. Það er alveg ljóst. En ég vil taka þátt í að skoða þær nýju fjáröflunarleiðir sem við höfum þegar hafið undirbúning að. Við erum í ákveðnum viðræðum við bankakerfið í landinu um að auka hlut þess og enn fremur eru til athugunar ný sparnaðarform svo að meira fjármagn fáist í húsnæðiskerfið í landinu. Nú er þörf á að allir taki höndum saman til að ná jákvæðum árangri.