12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. félmrh.hefur nú svarað nokkrum þeim spurningum sem ég bar fram aftur í kvöld. Það tefur umr. að það skuli þurfa að tvítaka sömu spurningarnar fyrir hæstv. ráðh. Það tekur ekki skemmri tíma að koma málum í gegn með því að það þurfi að lesa sömu spurningalistana í tvígang. Ég hugsa að hæstv. forsetar þingsins þyrftu að taka til athugunar að ráðh. reyndu að svara spurningum þm. í eins og einni atrennu svo að þær þyrftu ekki að verða mjög margar.

Hins vegar svaraði hæstv. ráðh. ekki því hversu háir eiga að verða vextirnir hjá Byggingarsjóði ríkisins á næsta ári. Hann svaraði því ekki og hlýtur hann þó að vera með upplýsingar um það í höndunum. Hann svaraði því ekki hversu háir eiga að verða vextirnir hjá Byggingarsjóði verkamanna á næsta ári. Hann svaraði því ekki heldur hvernig á að fjármagna þau 40% sem kveðið er á um í 9. gr. frv. að renna eigi til Byggingarsjóðs ríkisins. Hann svaraði því ekki, gaf engar upplýsingar um það, þannig að lykilspurningarnar í þessu efni eru enn þá opnar og þó einkum og sér í lagi sú sem ég spurði um ítrekað og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir líka: Verkamannabústöðunum er ætlað að fá 400 millj. á næsta ári. Þeir þurfa til að sinna þeim verkefnum sem þegar hefur verið samið um, 700 millj. kr. Það vantar þar 300 millj. kr. Og ég hef spurt ráðh.: Hvað á að skera niður? Hvað er það sem hann vill fella niður þarna? Hann hefur engu svarað. Með þögninni hefur hann í rauninni sagt að hann ætli að skella á það fólk sem gengið hefur í húsnæðissamvinnufélögin að undanförnu, það eigi enga úrlausn að fá á árinu 1984. Það er svarið sem þögn ráðh. gefur. Og hann bætir því í rauninni við að endursölur verkamannabústaða á árinu 1984 eigi ekki að koma til greina. Og hann svarar því engu hvernig verkamannabústaðakerfið með stórskerta tekjustofna á að taka á sig aukin verkefni í endursöluíbúðum samkv. lögum nr. 38 frá 1976 um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaganna. Þannig standa þessi mál.

Hæstv. ráðh. ber því við að stjórnarandstæðingar sem spyrja hann séu ergilegir og vanstilltir. Það er ekki hlutverk félmrh. að hafa skoðun á skapi stjórnarandstæðinga. Það er hlutverk hæstv. félmrh. að standa í fyrirsvari fyrir það kerfi sem honum er trúað fyrir. Hann hefur því miður ekki getað leyst úr þeim spurningum sem bornar hafa verið fram. Hann hefur í raun og veru ekki svarað því sem mestu máli skiptir. Eftir stendur það nú opið við lok 1. umr. um málið, að verkamannabústaðakerfið verði fyrir stórfelldri árás á næsta ári og þær framfarir sem var efnt til í verkamannabústaðakerfinu árið 1980 verði gerðar að engu af núv. hæstv. félmrh.