12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir er rammi um aðgerðir sem eiga að miða að því að samræma sókn í fiskstofna veiðiþoli þeirra. Frv. endurspeglar þá kreppu sem sjávarútvegurinn er í eftir langvarandi aflaminnkun og hrun þorskstofnsins og ber með sér að naumur tími hefur verið til stefnu til að aðlagast nýjum aðstæðum. Því er eðlilegt að gildistími laganna eftir frv. skuli aðeins vera eitt ár. Þá gefst Alþingi tækifæri til að taka málið til nýrrar endurskoðunar á grundvelli fenginnar reynslu.

Eins og frv. liggur fyrir og eftir ræðu hæstv. sjútvrh. er ógerningur að meta á þessu stigi kosti og lesti þess kvótakerfis sem hér eru lögð drög að að tekið verði upp. Ég dreg enga dul á að ég hef ávallt verið vantrúaður á að unnt sé að standa vel að fiskveiðum á Íslandsmiðum með því að setja hverju skipi, stóru og smáu, sérstakan kvóta. Til þess eru aðstæður of ólíkar, enda veit ég ekki til að útfærðar hugmyndir að slíku kvótakerfi hafi verið settar fram. Á þessu stigi málsins tel ég nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Til þess að kvótakerfi á fiskveiðar sé réttlætanlegt er óhjákvæmilegt að taka tillit til óvenjulegra og sérstakra aðstæðna þeirra útgerðarmanna eða útgerða sem lagt hafa í nýja fjárfestingu, fest kaup á fiskiskipi og kannske lagt öðru. Ég veit dæmi þess að ungir menn hafa fest kaup á togara nýlega, kostað miklu til að endurbæta hann og lagt eigur sínar að veði í þeirri fullvissu að þeir hefðu sömu möguleika og aðrir til að bjarga sér þótt fyrri eigendum togarans hafi verið mislagðar hendur um aflabrögð. Í slíku tilviki er með öllu óverjandi að ákveða umræddu skipi aflakvóta eftir aflabrögðum þess meðan það var í eigu fyrri eigenda.

Ég vil einnig taka fram að of einhliða viðmiðun til þriggja síðustu ára getur orðið mjög ranglát fyrir einstök byggðarlög eða landshluta. Um þessi atriði hef ég ekki handbærar upplýsingar á þessari stundu, en tel samt sem áður nauðsynlegt að láta þessi sjónarmið koma fram.

Ég sé ekki ástæðu til að nefna hér fleiri atriði þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, en vil sem sagt undirstrika það að á þessari stundu hef ég ekki sannfæringu fyrir því að okkur takist að búa til kvótakerfi sem fullnægir þörfum okkar en bitnar ekki um of á einstökum útgerðum, útgerðarmönnum eða byggðarlögum eða verðlaunar aðra kannske óverðskuldað.