12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var raunar ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp að spyrja hæstv. forseta hvort meining hans væri í raun og veru að halda umr. áfram um þetta mikilvæga og stóra mál, hefja umr. um það á kvöldfundi og ætlast til að hér verði haldinn næturfundur því að greinilegt er að langt fram eftir nóttu mun verða haldið áfram ef umr. á að ljúka.

Ég vil á engan hátt leitast við að koma í veg fyrir að þetta mál fái eðlilega og eins fljóta meðferð í þinginu og tök eru á. En ég tek undir með þeim þm. sem hér hafa talað í kvöld að það er nánast hneyksli að ætlast til að Alþingi ræði slíkt mál og afgreiði í flýti, svo geysilega mikilvægt sem það hlýtur að vera, þ.e. ef menn fá vitneskju um þær hugmyndir sem hér eiga að ná fram að ganga í framhaldi af samþykkt þessa frv. Það nær engri átt að ætla þingheimi að ræða þetta mál undir þessum kringumstæðum og undir þessum þrýstingi. Ég vil því vinsamlegast beina því til hæstv. forseta að hann breyti þeirri ákvörðun sinni að halda áfram umr. um þetta mál fram eftir nóttu, kannske fram undir morgun undir þeim kringumstæðum sem nú eru. Þetta er vissulega þess eðlis að tíma þarf til að ræða það, og það eðlilegan tíma, því að margar eru þær spurningar sem hér hljóta að koma fram og þarf að fá svör við og þá helst sem flestum við þessa 1. umr.