12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér hafa talað í umr. fulltrúar fjögurra flokka auk hæstv. sjútvrh. Allir þessir þm. hafa verið sammála um að hér væri á dagskrá stærsta mál þessa þin?s. Sumir hafa tekið svo sterkt til orða að segja að hér sé á dagskrá stærsta mál þingsins í áraraðir.

Hér hefur verið sagt að þetta frv. muni hafa afdrifaríkari afleiðingar fyrir samsetningu byggðar í landinu, fyrir atvinnumál og efnahag þessarar þjóðar en nokkurt annað frv. sem hér hefur verið lagt fram.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur greinilega hagað áhersluþunga sínum varðandi mál hér í dag með þeim hætti að hún lét síðdegið allt fara í umr. um frv. til húsnæðismála og lengi fram eftir kvöldi var einnig rætt áfram um það frv. Þó er ljóst að ekki lá meira á því frv. en svo að ekki hefur enn verið boðaður fundur í hv. félmn. til að fjalla um málið. Þó hittust sjútvn. beggja deilda í morgun og eiga að hittast aftur í fyrramálið til að fjalla um þetta frv. Það er þess vegna ekki í neinu samræmi við mikilvægi þessa máls að ætla þm. að taka það til umr. síðla kvölds og knýja þá síðan til að halda áfram umr. langt fram á nótt. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessar umr. munu taka þorrann af nóttunni ef hæstv. ráðh. ætlar að verða við þeim óskum sem þegar hafa komið fram í umr. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðh. verði ekki við þeim óskum.

Eftir þá ræðu sem flutt var áðan af hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni — sem ég tel að mörgu leyti eina merkustu ræðu sem hefur verið flutt um þetta mál og einnig um stefnugrundvöll í atvinnumálum hér í langan tíma — er öllum þeim þm. sem á hana hlýddu og umr. í heild ljóst að fara þarf fram mjög ítarleg umr. um þetta mál. Ella væri þingið að skjóta sér undan ábyrgð. Það gæti í raun og veru ekki risið undir því á eftir að ætla sér að vera stofnun sem á að fjalla um veigamestu mál þessarar þjóðar.

Enn fremur er ljóst, herra forseti, að eftir ýmislegt sem komið hefur fram í ræðum í dag, m.a. frá hæstv. sjútvrh., er óhjákvæmilegt að þm. fái dagstund til að afla sér víðtækari upplýsinga og átti sig betur á efnisþáttum málsins. Þess vegna vil ég, herra forseti, eindregið taka undir þá ósk sem hér kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að hæstv. forseti sjái til þess, og við erum reiðubúnir til samvinnu við hann um það, að þetta mál fái eðlilegan dagskrártíma á öðrum tíma sólarhrings á morgun og/eða næsta dag. Það verði ekki haldið þannig á þessu máli að umr. verði knúin áfram hér í nótt. Ég held, herra forseti, að það sé ekkert dæmi í þingsögu síðari ára, og má þó fara langt aftur í tímann, þar sem hafin er umr. svo síðla kvölds um jafnveigamikið stjfrv. og síðan ætlast til þess að hún haldi áfram langt fram á morgun. Það er held ég megi fullyrða algerlega án nokkurs fordæmis í þingsögu. (KP: Svona nóttina fyrir fjárlagaumr.) Að því ógleymdu. Ég bið hæstv. ráðh. að vera ekki að setja þm. í þær stellingar að þurfa að taka á þessu stórmáli með þessum hætti. Ef hæstv. ráðh. gerir það vekur það óneitanlega grunsemdir um að það eigi að fara að þvinga þessa umr. í gegn með óeðlilegum aðferðum.