24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

31. mál, kosningar til Alþingis

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 31 er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru á síðasta vori eftir að þing hafði verið rofið og boðað til kosninga.

Eins og kunnugt er þótti tíðarfar svo ótryggt þegar nálgaðist kjördag að rétt þótti að kveða nánar á um fjölgun kjördaga, en heimildir kosningalaga fela það í sér. Voru brbl. þessi því sett til að tryggja sem best að kjósendur fengju notið kosningarréttar síns. Svo fór hins vegar, að veður breyttist til hins betra og reyndist unnt að ryðja þá vegi sem þörf var á, þannig að hvergi kom til þess að kjördagar yrðu tveir.

Frv. þetta er lagt fyrir Alþingi til meðferðar í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og tel ég ekki ástæðu til að víkja frekar að efni þess. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.