13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í tvo mánuði höfum við fulltrúar í fjvn. þolað saman súrt og sætt, hlýtt á erindi manna svo hundruðum skiptir, velt fyrir okkur fölum svo milljónum skiptir og rætt málin fram og aftur. Slík er vinnuskorpan í þessari n. að ein ágæt ráðherrafrú sagði við mig um daginn að sér þætti ólíkt skárra að hafa eiginmanninn í ráðherrastól en í fjvn., hún sæi hann þó a.m.k. um helgar núna.

Þessi mikla samvinna og samvera hefði náttúrlega verið nánast óbærileg ef nm. væru ekki slíkt ágætisfólk sem þeir eru og ég þakka þeim öllum fyrir samstarfið og formanninum sérstaklega fyrir lipurð og þolinmæði.

Það er vitanlega ljóst að núverandi efnahagsástand setur okkur þröngar skorður, auk þess sem föst lögbundin framlög eru svo stór hluti af útgjöldum ríkisins að þegar allt kemur til alls eru þetta sorglega lágar upphæðir sem skipta þarf á marga staði og þörfin er víða mikil. Og það er gremjulegt hversu mikið fé er bundið í fjármagnskostnaði vegna gamalla mistaka sem óvíst er að muni nokkru sinni bera sig, eins og Kröfluvirkjun sem kostar okkur um 190 millj. á næsta ári svo aðeins eitt dæmi sé tekið. Það er þeim mun sárara þegar kreppir að í efnahagsmálunum og aðhalds er þörf á öllum sviðum.

Skylt er að geta þess að í mörgum atriðum tókst gott samkomulag milli nm. innan þess þrönga ramma sem okkur var settur. Um sum atriði var hins vegar töluverður ágreiningur, þótt ég sjái ekki ástæðu til að tíunda slíkt nákvæmlega því eins og áður er komið fram flytjum við sameiginlega þær brtt. sem frá n. koma, þótt með fyrirvara sé um stuðning við einstaka liði.

Það er erfitt fyrir Kvennalistakonu að standa í þessum sporum hér og nú og gera grein fyrir niðurstöðum þessa starfs. Framtíðardraumarnir eru enn fjarlægari en áður þegar fjárveitingar eru skornar svo grimmdarlega niður til félagslegra þátta sem hér er gert. Í skólamálum höfum við alltaf lagt mikla áherslu á betri aðbúnað í öllu skólastarfi og í því sambandi sett á oddinn að koma á samfelldum skóladegi í öllum skólum landsins. Þeirri skoðun hefur vaxið mjög fylgi upp á síðkastið og er þess skemmst að minnast að 1. nóv. s.l. voru hér í þinginu umr. um þáltill. Guðrúnar Helgadóttur o.fl. um könnun á kostnaði við einsetningu skóla, sem er vitanlega forsenda þess að unnt sé að koma á samfelldum skóladegi. Heldur þótti mér dauf þátttaka karla í þeim umr. en vonandi er ekki áhugaleysi um að kenna — eða hvað?

Ljóst er að einkum í þéttbýli skortir mikið á að skólamannvirki séu nægilega mikil og stór til að fullnægja kröfum um samfelldan skóladag og ekki verðum við nær því markmiði eftir næsta ár. Framlög til skólabygginga hefðu þurft að vera a.m.k. helmingi hærri en raun verður á eða sem svarar rúmlega þeirri upphæð sem verja á til byggingar flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli árið 1984, svo að rétt einu sinni sé vikið að þeirri gjörsamlega óþörfu og óarðbæru fjárfestingu. Það er alltaf jafnerfitt að kyngja því að stjórnendum landsins geti fundist það réttmætt að eyða stórfé í þessa ótímabæru framkvæmd á sama tíma og þeir krefjast umburðarlyndis og skilnings á þörf fyrir niðurskurð í byggingum skólamannvirkja, dagvistarheimila og sjúkrahúsa.

Samdráttur í heilbrigðismálunum er ekki síður alvarlegt mál. Á öllum sviðum heitbrigðismála þrengir nú verulega að og ekki er enn þá fullljóst hver áhrif það hefur því ákveðnar till. hafa ekki enn þá verið lagðar fram til umr. og umfjöllunar, enda þótt margir mánuðir séu síðan gefnar voru út tilskipanir um 300 millj. kr. sparnað. Sýnir það betur en nokkuð annað að hér er í rauninni verið að tala um hið ómögulega. 300 millj. kr. sparnaður á þessu sviði er að mínum dómi óhugsandi. Þá upphæð hefði hins vegar mátt spara með því t.d. að fella niður uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, en til þess liðar eru ætlaðar 280 millj. á næsta ári. Hvergi er jafnerfitt að finna leiðir til umtalsverðs sparnaðar og á sviði heilbrigðis- og tryggingamála, ef það á ekki að koma niður á þjónustu við fólkið eins og alltaf hefur verið haldið fram.

Auðvitað hljóta sparnaðaraðgerðir í heilbrigðisþjónustu að koma illa við fólk. Þeir sem þurfa mest á lyfjum að halda eru að miklu leyti hinir sömu og þeir sem minnst hafa á milli handanna. Og sama er að segja um mikinn hluta þeirra sem fylla sjúkrahúsin. Það yrðu aldrei stórar upphæðir sem fengjust við það að láta einhverja sjúklinga greiða fyrir sjúkrahúsvist eða hækka þátttökugjald neytenda í lyfjakostnaði. Til þess hafa þeir ekkert bolmagn sem mest þurfa á þessari þjónustu að halda, enda veigra ráðamenn sér við því að leggja fram till. í þessa átt.

Þá er væntanlega sú leið ein ófarin að loka deildum og stofnunum og segja upp starfsliði. Sú leið hefur ekki enn heyrst nefnd, en ég sé ekki hvernig menn ætla að komast hjá því ef þeir ætla að standa við sparnaðaráformin. Hvaða leið sem valin verður bendir nú margt til þess að sjúkraþjónusta muni í talsverðum mæli færast aftur inn á heimilin í landinu. Það er vitanlega ódýrasta lausnin. Nú verður treyst á fórnfýsi og hjálpsemi húsmæðra, þótt störf þeirra séu annars aldrei metin sem vert væri. Ætli konur fari ekki senn að heyra gömlu plötuna um mikilvægi heimilanna þegar brýnt verður að losna við þær af vinnumarkaðinum og nýta ókeypis starfskrafta þeirra t.d. við umönnun sjúkra?

Hvað byggingarframkvæmdir á sviði heilbrigðismála snertir blasir hvarvetna við knýjandi þörf sem lítið er komið til móts við, í byggingu heilsugæslustöðva úti um landið og sjúkrahúsa á mestu þéttbýlissvæðunum, það er þrýst á um aðstöðu til hjartaskurðlækninga og krabbameinslækninga og í öldrunarmálum er ótrúlega mikið ógert. Á einum stað á landinu er þó ætlunin að vinna af fullum krafti. Naumast er það tilviljun að sá staður er í kjördæmi hæstv. heilbrmrh. Til sjúkrahúsbyggingar á Ísafirði eru ætlaðar 18 millj. kr. og geta menn borið það saman við framlög til annarra staða á landinu.

Og þá eru það dagvistunarmálin. Í samningagerð launafólks við atvinnurekendur í okt. 1980 vógu þungt á metunum loforð ríkisvaldsins um að leggja sitt af mörkum til að fullnægja þörf fyrir dagvistarrými á næstu 10 árum. Til að standa við það loforð er áætlað að framlag til byggingar dagvistarheimila á næsta ári hefði þurft að nema rúmlega 70 millj. kr. Til þess hins vegar að standa við lögboðið framlag, bara til þeirra bygginga sem þegar eru hafnar, þyrfti framlag ríkisins að vera 57 millj. 568 þús. kr. og rúmlega 65 millj. ef orðið væri við óskum um nýjar framkvæmdir, en slíkar óskir eru nú eðlilega færri en orðið hefðu ef sveitarfélög væru betur stödd fjárhagslega. Í frv. er gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til þessa málaflokks, en í meðförum fjvn. hækkaði framlagið um 1 millj. 640 þús. kr. Þá niðurstöðu gat minni hl. engan veginn sætt sig við og flytur sameiginlega brtt. á þskj. 194 til hækkunar um 20 millj. kr. Til samanburðar má geta þess að ferða- og risnukostnaður aðeins tveggja rn., þ.e. utanrrn. og heilbr.og trmrn., nam rúmlega 20 millj. kr. árið 1982. Hvað sem líður nauðsyn á góðum tengslum við ýmsa aðila bæði utanlands og innan er ekki nokkur vafi á því að ferða- og risnukostnaður hins opinbera mætti lækka verulega ef nokkur vilji er fyrir hendi, og hann ætti að lækka einmitt nú þegar þrengir að í þjóðarbúskapnum. — Og ég vil taka sérstaklega undir það sem kom fram í máli 5. þm. Reykn., Geirs Gunnarssonar, varðandi rekstrargjöld rn. og stofnana.

Ég hef nú rætt um örfáa gjaldaliði þessa frv., þá mikilvægustu frá sjónarhóli kvenna. Og ég vil undirstrika að þar sem ég hef bent á þörf fyrir aukin framlög hef ég einnig bent á hvar við teljum að hægt væri að spara á móti ef vilji væri fyrir hendi. Það er gamla góða spurningin um verðmætamatið og forgangsröðina sem enn á ný er verið að svara.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. lét ég í ljós efasemdir um að forsendur tekjuhliðar frv. fengju staðist. Því miður hafa þær efasemdir styrkst til muna og eru raunar orðnar að vissu. Á þeim vikum sem liðnar eru síðan þetta frv. leit dagsins ljós hafa þeir atburðir gerst sem hljóta að gjörbreyta allri tekjuáætluninni. Þar nægir að minna á svörtu skýrsluna sem birt var í byrjun nóvembermánaðar, þar sem fram komu niðurstöður rannsókna fiskifræðinga á ástandi þorskstofnsins og till. þeirra um aflamagn á næsta ári. Þeir leggja til að þorskaflinn á næsta ári verði takmarkaður við 200 þús. tonn, en í aflaforsendum þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1984 er miðað við 300–320 þús. tonna þorskafla.

Miklar umr. hafa orðið um þessar till. bæði hér í þinginu og annars staðar. Flestir virðast nú loks hafa gert sér ljóst að minnkun þorskstofnsins er ekkert einkamál fiskifræðinga og sjómanna og við þessum vanda verður að bregðast með skynsamlegum hætti. Við höfum of lengi látið viðvaranir fræðimanna sem vind um eyru þjóta. Sjónarmið rányrkju og stundargróða hafa orðið okkur dýrkeypt. Það er svo enn fremur ljóst að verði þorskaflinn á næsta ári miðaður við 200 þús. tonn hlýtur það að hafa í för með sér enn frekari rýrnun lífskjara og aukið atvinnuleysi. Minnkandi afli hefur þegar sett mark sitt á líf fjölmargra fjölskyldna. Stöðugt berast fregnir af uppsögnum í fiskvinnslu og á fiskiskipum, nú síðast hjá Ísbirninum í Reykjavík sem hefur sagt upp nær öllu starfsfólki sínu, á þriðja hundrað manns, og á Suðurnesjum er atvinnuástand orðið mjög alvarlegt.

Það furðulega er að ótrúlega margir líta atvinnuleysi misjafnlega alvarlegum augum eftir því hvort í hlut eiga konur eða karlar. Því til sönnunar ætla ég að vitna í Alþýðublaðið í dag þar sem haft er eftir Sigurbirni Björnssyni hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, með leyfi forseta:

„Það sem bjargar dálítið stöðunni hjá okkur er að stærri hluti atvinnulausra eru konur og því ekki fyrirvinnur. Við teljum að um þriðjungur atvinnulausra séu karlar, en 2/3 konur, þannig að í sumum tilvikum hefur það ekki afgerandi áhrif á afkomu heimilanna þar sem konan er ekki fyrirvinna.“

Ég mótmæli harðlega viðhorfum af þessu tagi. Þau eru beinlínis ósæmileg og gjörsamlega úr takti við raunveruleika nútímans. Atvinnuleysi kvenna er nákvæmlega jafnalvarlegt og atvinnuleysi karla. Við skulum ekki gleyma því að fjórða hvert barn á landinu er á framfæri einstæðra foreldra, í langflestum tilvikum einstæðra mæðra. Og hvort sem um karla eða konur er að ræða, þá er þetta fólkið sem á erfiðast með að trúa fullyrðingum ríkisstj. um lækkun skattbyrði á næsta ári.

Sá samdráttur sem nú blasir við vegna aflaminnkunar er talinn geta þýtt 3.5% minnkun þjóðarframleiðslu og 12–13% samdrátt útflutningsframleiðslu. Hvað er þá orðið um þann grunn sem þetta fjárlagafrv. er reist á? Áætlun frv. um gjöld af innflutningi og skatta af seldri vöru og þjónustu fær með engu móti staðist eins og búið er að þrengja að kaupgetu fólks. Og á næsta ári er gert ráð fyrir enn frekari rýrnun kaupmáttar. Það þarf því töluvert mikla bjartsýni og óraunsæi til að vænta þess að beinir skattar innheimtist eins og gert er ráð fyrir.

Ólíklegt er einnig að genginu verði haldið stöðugu, eins og stefnt er að. Um þessa liði er þó erfitt að fjalla þar sem enn hefur ekki verið lagt á borðið endurmat Þjóðhagsstofnunar með tilliti til breyttra aðstæðna. Það þarf þó ekki mikið brjóstvit til að sjá að stefnt er í töluverðan halla á þjóðarbúskapnum á næsta ári. Spurningin er fremur hversu mikill hann verður.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum mæta fyrir brtt. sem ég flyt ásamt Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur um aukið framlag ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Við leggjum til á þskj. 199 að í stað 400 millj. undir lið 02 872 komi 500 millj., en til vara 450 millj. Rök okkar fyrir þessari brtt. eru þau, að komi ekki aukið framlag ríkisins til sjóðsins hljóti grundvöllur hans að raskast svo að erfitt verði um að bæta. Með tilliti til laga og reglugerðar sjóðsins þyrfti framlag til hans raunar að hækka töluvert meira. Á næsta ári á lánshlutfall að hækka úr 95 í 100% af framfærslukostnaði. Og þegar reiknað er með því svo og með 10% fjölgun umsækjenda er fjárþörf lánasjóðsins til lánveitinga u.þ.b. 780 millj. kr. Ef hins vegar er gengið út frá forsendum fjárlagafrv. um þróun verðlags og gengis árið 1984, 8% fjölgun umsækjenda og skerðingu lána á sama hátt og gert var í haust verður fjárþörfin vegna lánveitinga 1984 samtals um 740 millj. kr. Beint framlag ríkissjóðs er samkv. frv. 400 millj. Heimild til lántöku nemur 258 millj. 437 þús. kr. og vaxtatekjur eru áætlaðar 26 millj. 416 þús. kr. eða samtals 684 millj. 853 þús. kr. Miðað við 740 millj. kr. lánveitingaþörf, 77 millj. 521 þús. kr. til rekstrar sjóðsins, eins og frv. gerir ráð fyrir, og 34 millj. 582 þús. kr., sem er mismunurinn á innheimtum afborgunum annars vegar og afborgun lána og fjárfestingu hins vegar, er fjárþörf sjóðsins 852 millj. 103 þús. kr. Mismunurinn á þessum heildartölum er því 167 millj. 257 þús. kr. og má því ljóst vera að till. okkar um hækkað framtag um 100 millj., en til vara 50 millj., miðar ekki einu sinni að því að bæta stöðu sjóðsins til fulls miðað við þrengstu útreikninga, heldur aðeins að rétta grundvöll hans.

Verði framlag ríkissjóðs til lánasjóðsins ekki aukið við afgreiðslu fjárlaga hlýtur það að kalla á aukafjárveitingar eða það sem líklegra er: auknar lántökur sjóðsins til fjármögnunar útlána og fjármagnskostnaður þar með enn að aukast. Það er býsna alvarlegur hlutur sem dregur sífellt meira úr möguleikum sjóðsins til að standa undir sér sjálfur. Árið 1984 verða tekjur af útlánum sjóðsins ekki nema 44% af afborgunum af teknum lánum. Þrátt fyrir hertar reglur um endurgreiðslur námslána hefur staða sjóðsins varðandi eigin fjármögnun versnað. Það er því afar brýnt að bæta stöðu sjóðsins með auknu framlagi ríkisins svo að ekki þurfi að koma til stórfelldrar lántöku þegar líður á næsta ár. Því verður ekki trúað að óreyndu að yfirstjórn menntamála hyggist þrengja svo að möguleikum námsmanna til að stunda nám að eigin vali að þessi upphæð dugi, sem sjóðnum er ætluð skv. fjárlagafrv.

Heyrst hefur um hugmyndir sem miða að því að draga úr þörf fyrir lánveitingar, svo sem að fækka lánshæfum umsækjendum, hætta að veita lán til nemenda á fyrsta ári, afnema framlög til að mæta ferða- og bókakostnaði og fleira í þeim dúr. Við vörum alvarlega við hugmyndum af þessu tagi, sem hljóta að leiða til gífurlegs misréttis, auk þess sem við sjáum ekki hag ríkisins betur borgið með því að fá fólk inn á atvinnuleysisskrá fremur en að veita því lán sem það mun greiða aftur verðtryggt.

Ein af helstu auðlindum þessa lands er fólkið sem landið byggir, þekking þess og tæknikunnátta. Og það er meðal forgangsverkefna kvennalistakvenna að fjárfesta í menntun barna sinna. Við skulum minnast þess að allt fram á þennan dag hefur fólkið í landinu unnið og fært fórnir til að koma börnum sínum til mennta. Á seinni tímum hefur svo það nám sem áður var forréttindi fárra orðið raunverulegur möguleiki margra með aðstoð lána og styrkja. Þessi lán námsmanna eru nú að fullu verðtryggð og munu skila sér aftur í því krónu- og auragildi sem úthlutað er. Námsmenn hafa þegar tekið á sig skerðingu lífskjara í hátt við aðra landsmenn. Lengra má ekki ganga í þeim efnum.