13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

1. mál, fjárlög 1984

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það var ekki meining mín að fara í neinar almennar umr. um fjárlagaafgreiðsluna, en þó eru þar atriði sem mig langar aðeins til að drepa á, reyndar eitt atriði öðru fremur sem ég mun gera hér að umræðuefni, og mér þætti vænt um ef formaður fjvn. væri hér nærri.

Ég veiti því athygli að í brtt. fjvn. er gert ráð fyrir að hækka frá því sem er í frv. til fjárlaga framlög til Listskreytingasjóðs ríkisins um 500 þús. kr., úr 2 millj. í 2.5 millj. Nú var það svo að þegar fjárlög voru lögð fram þá hygg ég að hæstv. fjmrh. hafi tekið það fram að hann væri með ýmsa liði óbreytta frá gildandi fjárlögum og var út af fyrir sig ekkert við því að segja. Þá virtist hann gera ráð fyrir því að þessar upphæðir ýmsar breyttust í meðförum þingsins. Það er sjálfsagt ekkert óvanalegt að svo sé og þetta mun hafa eitthvað tíðkast í áranna rás varðandi ýmis framlög til menningarmálanna. Ég átti þess vegna von á því að þessi liður, eins og margir fleiri liðir sem ég sé að hv. fjvn. hefur fjallað um til hækkunar, lyti sömu lögum og reynt yrði að áætla af nokkurri sanngirni út frá þeim forsendum sem lögin um Listskreytingasjóð gera ráð fyrir, hvað veita skyldi eða áætla háa fjárveitingu til Listskreytingasjóðs. En það held ég að sé hverjum manni ljóst sem vill kynna sér þetta mál að hvort heldur um er að ræða 2 millj. eða 2.5 millj. kr. þá er hér sýnilega um allt of lágar upphæðir að gera. Nú skal ég viðurkenna það að ég hef ekki möguleika á því svona frá eigin brjósti eða með eigin útreikningi að segja fyrir um það hversu há þessi upphæð ætti að vera. En ég hef hér í höndunum bréf sem varð mér tilefni þess m.a. að taka til máls við þessa umr. og spyrja formann fjvn. nánar út í þetta mál. Þetta bréf er sent fjvn. frá menntmrn. 7. þ.m. og varðar Listskreytingasjóð ríkisins. Bréfið hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirbúning fjárlaga 1984 á s.l. sumri áætlaði menntmrn. framlag til Listskreytingasjóðs ríkisins 5 millj. 360 þús. kr., sbr. meðfylgjandi afrit af bréfi ráðuneytisins, sem dagsett er 13. júlí 1983, til fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Með tilvísun til þess að frv. til fjárlaga vegna ársins 1984 gerir aðeins ráð fyrir 2 millj. kr. framlagi til sjóðsins hefur stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins rætt þetta mál og samþykkt að beina þeim tilmælum til hæstv. fjárveitinganefndar Alþingis að hækka framlag til sjóðsins í samræmi við það sem lög nr. 34 1982, 3. gr. þeirra laga, gera ráð fyrir. Jafnframt er sent með lögfræðilegt álit, sem Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari hefur samið fyrir tilstuðlan sjóðsstjórnar, viðvíkjandi því hvernig beri að túlka lög nr. 34 1982 að því er varðar árlegar greiðslur til sjóðsins.“

Undir þetta ritar Hákon Torfason deildarstjóri í menntmrn. Þetta er meginefni bréfsins. Eins og fram kom fylgir lögfræðilegt álit frá Benedikt Sigurjónssyni. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að lesa það en það styður þá skoðun stjórnar Listskreytingasjóðs að það beri að áætla sjóðnum tekjur eftir þeim forsendum sem getið er um í 3. gr. laga nr. 34 1982, um Listskreytingasjóð.

Eins og fram kemur í bréfinu sem ég var hér að lesa frá deildarstjóranum í byggingardeildinni, sem jafnframt er formaður Listskreytingasjóðs, áætlar rn. þetta rúmlega 5.3 millj. kr. á verðlagi í sumar. Hér skeikar náttúrlega afar miklu. Af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að víkja þeirri athugasemd til formanns fjvn. hvort þetta mál hafi ekki verið tekið fyrir og rætt í n., þar á meðal þetta bréf sem borist hefur núna fyrir tiltölulega skömmu, um það bil sem fjárlagavinnan stendur hæst í desembermánuði. Ég tel að hér muni svo miklu að það sé illt við að una og þó að þessi lög séu að vísu ný og enn skorti ýmislegt á um hefðir og venjur og kannske settar reglur um það hvernig framkvæma skuli þessi lög, þá held ég að það sé alveg ljóst að hér er skorið of naumt, hér er skorið við nögl. Þess vegna vænti ég þess að hv. fjvn. athugi þetta mál nú á milli umræðna og sjái til hvort ekki muni vera möguleikar á því að bæta hér eitthvað um.