13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

1. mál, fjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er nú til umr. er auðvitað ástæða til að fara rækilega yfir, en hv. 5. þm. Reykn. hefur hins vegar gert svo glögga grein fyrir því máli hér í dag að af hálfu okkar Alþb.manna er ekki þörf á að bæta við miklu með ítarlegum ræðum, nema um einstök málefni. Það er hins vegar rétt, sem hv. 5. landsk. þm. sagði áðan, að það frv. sem við erum að ræða nú er allt annað en það frv. verður sem við ræðum væntanlega á mánudag eða þriðjudag í næstu viku eða laugardag, þegar 3. umr. um fjárlögin fer fram. Tekjuforsendurnar liggja ekki fyrir. Fjvn. hefur verið neitað um að fá að tala við Þjóðhagsstofnun. Tekjuforsendur liggja ekki fyrir og útgjaldahliðin er öll meira og minna í graut. Launaforsendurnar er verið að toga og teygja þessa klukkutímana til að reyna að láta þetta dæmi passa og skattamálin eru öll á fleygiferð. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flytur till. uppi í Ed. um að lækka vörugjaldið og hv. þm. Gunnar G. Schram flytur tillögu í Vísi eða Dagblaðinu um að lækka tekjuskattinn. Hv. þm. Lárus Jónsson heldur að hann sé að mæla hérna fyrir alvarlegu fjárlagafrv., en það er sorglegur misskilningur og hefði kannske átt að renna fyrr upp fyrir jafnþingreyndum manni og hv. þm. Lárus Jónsson er.

Það er sem sagt ekkert að marka þetta frv. Þetta er tóm vitleysa eins og það liggur hérna fyrir, stendur ekki steinn yfir steini. Ég býst við að þessir talnadálkar sem hér eru séu rétt lagðir saman í meginatriðum og kannske á stöku stað rétt dregið frá líka, en þó dreg ég mjög sterklega í efa að þar séu allir hlutir eins og eðlilegast ætti að vera.

Hitt er einnig sérkennilegt við málsmeðferð þessa hér, að þeir menn sem helst ættu að vera í fyrirsvari fyrir þessum ósköpum, þ.e. hæstv. ráðh., eru yfirleitt í burtu. Hæstv. heilbr.- og trmrh., sem ber ábyrgð á 35% af ríkisútgjöldum, er sennilega sofandi í Arnarnesinu. (Gripið fram í.) Þeir hefðu getað lært þetta af mér? Þeir hefðu átt að læra ýmislegt annað af mér, en þeir hafa ábyggilega ekki lært það af mér að sofa í Arnarnesinu. Hæstv. forsrh. er víðs fjarri. (Iðnrh.: Í Arnarnesi.) Í Arnarnesi líka, og báðir á jeppum eins og alkunna er. — Landbrh. hæstv. lætur ekki sjá sig hér. Og hæstv. fjmrh. situr hér einn í fyrirsvari ásamt hæstv. ráðh. Sverri Hermannssyni og formanni fjvn., sem er eins konar hjálparmaður hér hjá þeim hæstv. fjmrh. og félögum hans og nýtur núna til þess stuðnings hv. þm. Halldórs Blöndals sem áður hefur af mér verið boðinn velkominn heim af Allsherjarþinginu og er það enn gert hér. Munar nú miklu hvað þingstörfin ganga öll greiðlegar eftir að hann birtist hér í salnum, miðað við það sem áður var.

Margt mætti segja um frv. þetta, herra forseti, svo og einstakar till. og þó væri auðvitað langmest freistandi á þessari stundu að láta vekja ráðh. eða kanna hverjir eru vakandi og hvar þeir eru. Mætti kannske leggja fram um það fsp., ég vona að hún þurfi ekki að vera skrifleg, þannig að við gætum fengið um það upplýsingar hvar þeir eru þessir hæstv. ráðh. sem ætla nú að fara að leggja á sjúklingaskattinn, t.d. hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hefur fundið nýjan skattstofn, þá sem eru veikir á spítölunum. Það mætti kannske kanna hvernig hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur hugsað sér að úttæra þennan sjúklingaskatt, þennan nýja skattstofn sem Sjálfstfl. hefur af örlæti sínu fundið upp núna rétt fyrir jólin, rétt fyrir hátíðirnar þegar himins opnast hlið samkvæmt þeim textum sem menn leggja fyrir sig einmitt þessa dagana. Það er fróðlegt fyrir menn að velta því fyrir sér hvað það er sem boðið er upp á bak við hin háu hlið dýrðarinnar sem Sjálfstfl. er að opna mönnum þessa dagana. Og sá maður sem lengst hefur gengið í því að skreyta sig á torgum og gatnamótum sem vinur smælingjanna, hæstv. fjmrh., er hér mjög í forustu. Sjást nú vel úlfshárin undir sauðargærunni, sem yfirleitt hefur verið brugðið yfir til hátíðabrigða á undanförnum árum þegar hæstv. ráðh. hefur verið að tala við smælingjana í þessu þjóðfélagi. Skattstofninn liggur á spítölunum. Það eru þeir sjúku sem nú eiga að borga skatta. Það er ekki nóg með að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að draga saman seglin í heilbrigðismálum, það er ekki nóg með að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að stöðva alls staðar framfarir í heilbrigðismálum á Íslandi, heldur á nú líka að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og leggja skatt á þá sjúku í þjóðfélaginu. Hv. formaður fjvn., sem talaði hér fyrir munn íhaldsins áðan, framsóknaríhaldsins og þeirra beggja, komst þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Á vegum heilbrrh. er nú unnið að undirbúningi frv. sem fela mun í sér að sjúklingar sem leggjast inn á sjúkrahús greiði 300–600 kr. gjald í 10 daga að hámarki á hverju ári.“

Með þessum hætti er ætlunin að ná inn um 300 millj. kr. Og auk þess að leggja þennan sérstaka skatt á sjúklingana er ætlunin að auka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði.

Nú kom það ekki fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, sem einhverra hluta vegna er farinn héðan úr salnum og þætti mér vænt um ef hann vildi gera svo vel að koma hér inn því ég hef nokkrar spurningar að bera fram við hann, hvernig hann hugsar sér að útfæra þennan skatt í smáatriðum. Á að rukka fólkið þegar það er lagt inn á spítalann? Á að segja við þann mann sem lagður er inn á spítala: Hefur þú efni á því að liggja hér í 10 daga eða lengur? Verða menn rukkaðir í upphafi 10., 11., 12., 13. til og með 21. degi um 300 kr. dag hvern þegar þeir fá morgunverðinn? Verður lagður fram með morgunverði sjúklinga á spítölunum reikningur frá hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni upp á 300 kr. sem menn eigi vinsamlegast að borga áður en þeir meðtaka árbítinn á þessum stofnunum opinberra aðila, sjúkrastofnunum? Eða er ætlunin að innheimta þetta í lokin,

þegar meðferðinni er lokið hjá sjúklingum? Er ætlunin að innheimta þegar meðferðinni er lokið og halda mönnum inni ef þeir ekki greiða umyrðalaust og refjalaust? Hvernig er ætlunin hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að framkvæma þessa einstöku aðför að þeim sem síst skyldi í þjóðfélaginu? Það hefur til þessa verið talið alveg nóg á fólk lagt að vera sjúkt. Það hefur í rauninni verið talið sjálfsagt að rétta hinum sjúka hjálparhönd og stuðnings og reyna að lina þjáningar viðkomandi. En hér eru menn komnir svo langt frá þeirri fornu bók, sem þeir þykjast þó yfirleitt standa á með sinn siðferðisgrundvöll að það er ekki fyrst hugsað um að lina þjáningar hinna sjúku, heldur fyrst að rukka þá, svo að bera smyrsl á sárin.

Og sá sem ekki borgar sjúklingaskattinn sinn fær ekki smyrsl á sín sár. Það verður ekki gert að hans meinum. Hann verður að hafa þau. — Og mætti flm. þessara nýsköpunartillagna Íhaldsins og Framsóknar gjarnan líta í þær bækur fornar sem oft er vitnað til á sunnudögum, ekki síst um jól, og dæmisögur af miskunnsömum Samverjum.

Ætlar hv. þm. Lárus Jónsson að láta innheimta þennan sjúklingaskatt sinn þannig að þetta verði tekið af mönnum á hverjum degi sem þeir liggja inni á spítalanum? Ég óska eftir svörum við þessari spurningu, hv. þm. Á að borga þetta um leið og menn fá árdegisverð eða hádegisverð? Er ætlunin að taka þetta af mönnum þegar þeir útskrifast af spítölunum og verður þeim haldið föstum inni á spítölunum ef þeir ekki borga? Er ætlunin að rukka menn þegar þeir koma inn á spítalana, um leið og sjúkrabíllinn skilar þeim þangað inn? Hvernig ætlar hv. þm. sér að framkvæma þetta og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna? Hvernig er meiningin að framkvæma þessi ósköp. Og hæstv. fjmrh. Hvernig er ætlunin að framkvæma þennan nýja skattstofn Sjálfstfl.? Virðingin fyrir einstaklingsfrelsinu kemur vel fram í þessu efni. Það er mikil virðing og djúp fyrir frelsi þess einstaklings sem liggur sjúkur á spítalanum og á að fara að borga skatt.

Það er athyglisverð nýlunda, hv, þm. Lárus Jónsson, að þú skulir leggja það hér til að með þessum hætti verði gengið að þeim sem síst skyldi í þessu þjóðfélagi. Og það leggst lítið fyrir ykkur, að þið skulið ganga svo langt í skattheimtugræðgi ykkar að ráðast að fólki sem getur enga björg sér veitt og hvergi borið hönd fyrir höfuð sér.

Ég tel að þessi hugmynd hæstv. ríkisstj. sé ekkert minna en hneyksli. Og það kemur auðvitað ekki til greina af hálfu Alþb. að taka undir sjónarmið af því tagi sem hér er um að ræða. Ég vil láta það koma hér skýrt fram við þessa umr. að Alþb. mun beita sér fyrir því strax og tækifæri gefst að afnema þennan sjúklingaskatt. Við munum ekki líða þá árás á almannatryggingakerfið, á íslenska velferðarþjóðfélagið, sem þeir leiftursóknarriddarar Íhaldsins eru hér að innleiða. Við munum ekki taka þátt í því, heldur leggja á það höfuðáherslu að þetta verði afnumið. Hér er svo gróflega vegið að grundvallarréttindum mannsins í þessu þjóðfélagi, hér er svo gróflega vegið að siðferðislegum grundvelli íslenska þjóðfélagsins að ég hélt að það gæti ekki gerst, jafnvel ekki í ríkisstjórn Íhaldsins og Framsóknar, að menn legðu upp með svona andstyggð eins og þessar hugmyndir eru. Ég hélt það gæti ekki gerst.

Nú hafa þau miklu tíðindi hér gerst að það hefur verið lagt til að rukka þá sem eru lagðir inn á sjúkrahús. Það er verið að ráðast hér að almannatryggingakerfinu. Með þessu væri ríkisstj. að stíga fyrsta skrefið í því að rústa niður það kerfi sem alþýðuhreyfingar þessa lands hafa barist fyrir og knúið fram á síðustu áratugum. Hér er verið að stíga stórhættulegt skref og það er auðvitað grundvallaratriði að það kemur ekki til greina af hálfu flokks sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju að standa að sjónarmiðum af þessum toga. Og það er athyglisvert að Framsfl., sem einu sinni var stofnaður til að gæta sjónarmiða félagshyggju og samvinnu, skuli taka þátt í því að framkvæma þessi ósköp.

Samkvæmt þeim orðum sem hv. talsmaður meiri hl. fjvn. lét falla hér í dag virðist það vera svo að ríkisstj. ætli að leggja fram það frv. sem hér um ræðir fyrir hátíðirnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. og hv. þm. að því hvort það er rétt. Ef þessi kerfisbreyting á að taka gildi um áramótin og ef forsendur fjárlaganna í þessu efni eru réttar yrði kerfisbreytingin að taka gildi um áramótin. Það er auðvitað alveg útilokað að framkvæma þessa skattheimtu án lagabreytingar. Ef ríkisstj. gerir tilraun til að innheimta þessa fjármuni án lagabreytinga af sjúklingum frá 1. jan. n.k., eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, væri það lögbrot. Það er brot á almannatryggingalögunum. Og ég vil fá það alveg á hreint hér hjá hæstv. ráðh. og hv. formanni fjvn.: Er ætlunin hjá þeim að fara að innheimta þennan spítalaskatt strax frá 1. jan. n.k. og með hvaða hætti er ætlunin að það verði gert? Ég óska eftir nákvæmri sundurliðun í þessu efni. Hér er um þvílíkt stórmál að ræða að það dugir ekki fyrir hæstv. ráðh. eða hv. formann fjvn. að aka sér undan með einhverjum hér um bil og kannske. Hér verða þeir að svara skýrt. Hvernig ætla þeir að fara að þessu?

En stefnan liggur alveg skýrt fyrir í ræðu hv. formanns fjvn. Og það er athyglisvert að hann skuli vera notaður til að flytja þingheimi og þjóðinni þessi ótíðindi í þessum mánuði skammdegisins. Það er athyglisvert að það skuli vera hann en ekki hæstv. fjmrh. eða heilbrrh. sem setja þetta fram. Hann tekur að sér að vinna þetta verk fyrir þá, að tilkynna þjóðinni þessar gleðifréttir. Það er eins gott að hann greini frá því líka hvernig ætlunin er að rífa þessa skatta af sjúklingunum, spítalaskattinn sem var verið að kynna hér í dag.

Ég tel í rauninni, herra forseti, að tilkynning hv. þm. Lárusar Jónssonar um spítalaskattinn sé stærstu pólitísk tíðindi dagsins í dag og þó það væri farið langt aftur í tímann. Hér er brotið í blað, hér er stigið skref mörg ár og áratugi aftur í tímann. Hér er efnt til aðfarar, tilræðis við velferðarkerfið í þessu þjóðfélagi. Ég tel þess vegna að þingheimur eigi rétt á því að fá nákvæmar upplýsingar um hvað ætlunin er að gera í þessu efni og hvernig. Er það kannske ætlun hæstv. ríkisstj. að ganga lengra á þessari braut? Hvar ætlar hún að stöðva sig eftir að einu sinni hefur verið lagt af stað inn á þessa braut sjúklingaskattsins? Hvaða stofnanir, hvaða einstaklingar í þjóðfélaginu fá að vera í friði fyrir ríkisstj. eftir að farið er að skattleggja sjúklinga í spítölunum? Hvaða einstaklingar eru það? Hverjir geta það i rauninni verið sem fá að vera í friði eftir að ríkisstj. hefur snúið sér að þessu fólki? Það er varla hægt að hugsa sér að það séu nokkur takmörk fyrir því sem þessi hæstv. ríkisstj. lætur sér til hugar koma þegar að því kemur að ráðast að velferðarkerfinu og fitja upp á nýjum skattstofnum. Hinn nýi skattstofn, hæstv. fjmrh., eru sjúklingarnir. Þingflokkur Alþb. stendur að áliti minni hl. fjvn., eins og komið hefur fram hér í dag. En auk þess flytjum við hér nokkrar brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1984. Þær till. byggjast á því, að annars vegar er gert ráð fyrir að tvöfalda skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þannig að hann hækki á næsta ári úr 65 millj. kr. upp í 130 millj. kr., og þeim tekjum sem þannig fást gerum við till. um að verði ráðstafað með alveg ákveðnum hætti.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Steingrímur J. Sigfússon munu gerá grein fyrir þremur af þessum brtt. okkar Alþb.-manna, sem liggja fyrir á þskj. 204. Fyrsta till. fjallar sem sagt um skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Önnur till. fjallar sérstaklega um Námsgagnastofnun, sem hefur verið hér mjög til meðferðar að undanförnu. Þar er um að ræða tvíþætta till., annars vegar um aukningu á framlögum til bókaútgáfu um 2 millj. kr. frá brtt. fjvn. og hins vegar 1 millj. kr. sem snertir sérkennslugögn.

Í þriðja lagi flytjum við hér till. sem gerir ráð fyrir því að gjaldfærður stofnkostnaður á Blindrabókasafninu verði hækkaður frá því sem er í fjárlagafrv. úr 600 þús. kr. og er í brtt. fjvn. 800 þús. kr. Við gerum ráð fyrir að hér verði enn bætt við 200 þús. kr. og upphæðin fari upp í 1 millj. kr. Hér er því ekki, herra forseti, um stóra fjárhæð að ræða, en skiptir miklu máli fyrir þessa litlu stofnun sem er að hefja göngu sína. Í bréfi sem fjvn. var sent 24. nóv. s.l. og undirritað er af Helgu Ólafsdóttur, forstöðumanni Blindrabókasafns Íslands, og Halldóri Rafnar, formanni stjórnar Blindrabókasafnsins, er farið fram á að talan í fjárlagafrv. verði hækkuð um 400 þús. kr. Ég tel að hér sé í rauninni um litla upphæð að ræða til mikilvægs málefnis. Ef menn vilja hafa fyrir því að kynna sér erindi Blindrabókasafnsins kemur greinilega fram að þessi litla hækkun sem hér er lögð til, um 200 þús. kr., gæti munað býsna miklu varðandi starfsemi þessarar stofnunar, m.a. í sambandi við tölvuvæðingu námsefnis sem nú er unnið að í tengslum við Námsgagnastofnun.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að hér er ekki um að ræða mikinn útgjaldalið fyrir íslenska ríkið, en ég held að þetta mundi skipta verulegu máli fyrir Blindrabókasafnið og óska eftir því að hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. menntmrh. taki þetta mál til sérstakrar athugunar.

Fjórða brtt. á þskj. 204, sem Alþb. flytur, snertir Þjóðarbókhlöðu. I stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens var gert ráð fyrir að lögð yrði sérstök áhersla á byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Munu ekki mörg dæmi þess að slík hús hafi verið tekin inn í stjórnarsáttmála hér á landi. Ástæðan til þess að þetta hús var tekið þar inn var auðvitað sú, að ríkisstj. vildi undirstrika með þeim hætti mikilvægi þess að unnt væri að búa varðveislu og rannsóknastarfsemi íslenskra fræða sem allra veglegastan sess í landinu og bestan aðbúnað. Þeir hv. þm. sem hafa ekki komið t.d. á Þjóðskjalasafn eða Landsbókasafn mættu gjarnan kynna sér þau söfn með því að fara þá þangað í heimsókn og sjá hvernig búið er að t.d. Þjóðskjalasafninu, þar sem verulega þýðingarmikil gögn geta jafnvel legið undir skemmdum vegna þess að ekki hefur verið unnt að varðveita þau og sinna þeim nógu vel, auk þess sem margvísleg þrengsli valda því líka að ekki er unnt að sinna rannsóknastarfsemi sem skyldi.

Oft er því haldið fram að ekki sé mögulegt fyrir þjóðina einmitt um þessar mundir að standa í jafndýrri framkvæmd og Þjóðarbókhlaðan óneitanlega er. Og menn segja sem svo, að slík framkvæmd hljóti að bíða og hún eigi að bíða betri tíma. Ég held að þessi rök hafi í raun og veru alltaf verið notuð á móti Þjóðarbókhlöðunni, nema kannske síðustu tvö, þrjú ár. Það er þó þannig, að ef þjóðin vill leggja áherslu á að sinna þessu — ja, ég vil segja grundvelli tilveru sinnar með skikkanlegum hætti, þá er hér um að ræða mjög brýna framkvæmd. Það er að mínu mati músarholusjónarmið að geta ekki horft framan í þá staðreynd af fullri reisn að það þarf að kosta nokkru til. Ég held að við ættum að leggja meiri áherslu á að efla rannsóknir og starfsemi alla í kringum íslensk fræði.

Fyrir nokkrum dögum fóru fram umr. á hv. Alþingi í sambandi við Íslandssögukennslu í skólum þessa lands og margt var mjög missagt í þeim fræðum sem flutt voru héðan úr þessum virðulega stól þann daginn, eins og stundum kemur nú fyrir. Ég þóttist hins vegar verða var við að menn, a.m.k. í orði, vildu gjarnan sinna þessum þætti í okkar skólastarfi betur en gert hefur verið. Sæmilegur aðbúnaður í Þjóðarbókhlöðunni er auðvitað grundvallarforsenda þess að þekking á Íslandssögu og íslenskum fræðum sé sem best í þessu landi. Þó að margt sé dýrt og gangi okkur öndvert um þessar mundir held ég að við höfum ekki efni á því að vanrækja þann arf sem felst í íslenskum bókmenntum og íslenskum fornritum. Ég minni á að á kreppuárunum, sem oft er vitnað til, einkum kannske um þessar mundir, var ráðist í mjög stórtækar framkvæmdir í menningar- og félagsmálum. Margvíslegir skólar voru byggðir víðs vegar í landinu og sömuleiðis ýmsar aðrar menningarstofnanir. Og mér finnst að sú kynslóð sem nú er burðarásinn í framleiðslu og tekjuöflun í þessu landi sé í rauninni ekkert of góð til að leggja nokkuð á sig varðandi þessa byggingu sem er Þjóðarbókhlaðan. Mér er mikið kappsmál að á þessum hlutum sé tekið og ég held hv. alþm. hljóti að skilja hvað þetta mál er þýðingarmikið ef þeir hugleiða það eitt augnablik. Ég hef að vísu orðið var við núna að undanförnu að menn eru að fjargviðrast yfir þessu húsi, Þjóðarbókhlöðunni, rétt eins og ýmsum byggingum sem rísa af öðrum toga, t.d. verslunum og þess háttar framkvæmdum, og eru að gagnrýna að fjármunum skuli vera eytt í þessa byggingu. Mér finnst þetta bera vott um afskaplega mikla og hættulega skammsýni og ríkisstj. megi ekki láta undan skammsýni af þessum toga, hún eigi að beita sér fyrir því að myndarlega sé þarna á hlutunum haldið.

till., herra forseti, sem við flytjum nokkrir þm. Alþb. um þetta efni gerir ráð fyrir að það verði veitt 15 millj. kr. framlag til Byggingarsjóðs Þjóðarbókhlöðu á árinu 1984 í staðinn fyrir 2 millj. eins og það er í fjárlagafrv. Ég skora á hæstv. ríkisstj. og fjvn. að líta á þessa till. með fullum velvilja. Ég tel það ekki sæmandi að láta staðar numið þarna við 2 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í till. ríkisstj. Ég tel það hreint ekki sæmandi og legg á það áherslu að reynt verði að auka þar eitthvað við. Hér bendum við nokkrir þm. Alþb. á 15 millj. kr. í þessu efni.

Ég minnist þess, herra forseti, að þegar umr. um Þjóðarbókhlöðu fór hér fram hvatti hæstv. menntmrh. til þess að þm. sýndu málinu áhuga hér þegar það kæmi til meðferðar við afgreiðslu fjárlaga. Með þessum till. flutningi eru nokkrir þm. Alþb. að verða við áskorun hæstv. menntmrh. og ég vona þá að stuðningur hennar liggi ekki eftir í málinu þegar á það reynir.

Fimmta brtt. Alþb. snertir Þróunarsamvinnustofnun Íslands og munu þeir félagar mínir, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Steingrímur J. Sigfússon, ræða það mál sérstaklega og sömuleiðis sjöttu till. sem snertir fyrirhleðslur á Skeiðarársandi.

Í sjöunda lagi flytjum við hér litla till. sem varðar málefni fatlaðra, en þannig er að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir þó nokkrum nýjum stofnunum fatlaðra á árinu 1984 í samræmi við lögin um málefni fatlaðra. Í þessari till. er fjallað um sambýli í Kópavogi. Mér er tjáð að erindi þetta, um sambýli í Kópavogi, hafi borist nokkuð seint til fjvn. og þess vegna verið erfitt fyrir hana að taka málið fyrir. Ég er hér með í höndunum bréf frá svæðisstjórn Reykjanessvæðis varðandi fyrirhuguð sambýli í Reykjaneskjördæmi. Það er dags. 7. okt., sýnist mér. Þar er farið fram á að það verði veittir fjármunir til rekstrar sambýlis fyrir níu einstaklinga í Kópavogi og sjö einstaklinga úr Hafnarfirði.

Þessi till. sem hér er um að ræða, 2 millj. kr. í rekstur, er ekki um stóra upphæð. Og ég geri ráð fyrir að rekstri þessarar stofnunar mætti koma af stað með nokkru lægri tölu. Í þeim efnum bendi ég á sambýlið við sólborg, sem mig minnir að sé með 1.3 millj. kr. í rekstri á næsta ári. En ég vildi leyfa mér að biðja hæstv. félmrh. um að líta sérstaklega á þetta mál og þá geng ég auðvitað út frá því að það verði unnt að ljúka við framkvæmdir við sambýlið í Kópavogi á næsta ári, en ég hef skilið það svo að það ætti að vera mögulegt.

Í áttunda og síðasta lagi flytjum við svo till. um heilbrigðismál. Við höfum sett undir almennan lið, sem heitir Ýmis heilbrigðismál, lið sem við orðum svo:

„Fræðslustarf gegn fíkniefnum skv. till. heilbrn. Alþingis 2 millj. kr.“

Hér er náttúrlega ekki um stóra upphæð að ræða miðað við það mikla verkefni sem hér er á ferðinni, en hugmyndin með þessari till. er að fylgja eftir ákveðnu rannsóknastarfi sem hefur verið unnið í heilbrrn. á síðustu árum í sambandi við útbreiðslu fíkniefna hér á landi. Og hugmyndin er líka sú að tengja Alþingi, þ.e. heilbr.- og trn. Alþingis, við það fræðslu- og forvarnarstarf sem þarna þarf að vinna, þannig að þarna sé ekki alveg slitið í sundur annars vegar framkvæmdaþátturinn og hins vegar ákvörðunin hér, heldur sé um að ræða ákveðin tengsl á milti heilbrigðisnefnda Alþingis annars vegar og heilbrrn. hins vegar um fræðslustarfið. Ég vil minna á að í heilbrrn. er sjóður sem heitir Gæsluvistarsjóður og hefur að nokkru kostað m.a. fræðslustarf vegna ávana- og fíkniefna, og í undirbúningi er ákveðin stefnumótun í þeim efnum á vegum nefndar sem starfar á vegum þess rn. En ég held að hérna gæti verið brotið upp á nokkuð þörfu nýmæli þar sem heilbrrn. og heilbrn. þingsins, þ.e. þm., legðu saman í þessu efni. Og mér þykir það miklu lakara, eins og ég hef nú áður nefnt hér, að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera hér. Ég held að þessi till. sé ekki slæm og það þyrfti að athuga hana alvarlega við afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Í tengslum við þessi mál, sem ég hef hér gert grein fyrir, ætla ég einnig að nefna fáein önnur málefni sem nauðsynlegt er að ræða nú við þessa umr. Og það er þá sérstaklega og í fyrra falli B-álma Borgarspítalans. Þannig er að á liðnum árum hefur B-álma Borgarspítalans fengið talsvert mikla fjármuni úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ég var gagnrýndur nokkuð fyrir það, þegar ég var heilbrrh., að B-álman fengi of mikið fé úr þessum sjóði. Á þeim árum voru gerðar um það kröfur að fjárhagsáætlun og framlagaáætlun Bálmunnar yrðu birtar samhliða 2. og 3. umr. fjárlaga. Nú vil ég fara fram á það við hæstv. fjmrh. og hv. formann fjvn. að þeir tryggi að áætlun Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir árið 1984 verði birt þingheimi áður en fjárlögin verða afgreidd. Mér þætti vænt um ef hv. þm. Lárus Jónsson tæki eftir þessari beiðni, sem gengur út á það að áætlun fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra árið 1984 yrði birt þingheimi áður en fjárlögin verða afgreidd. Það hefur ekki verið gert á undanförnum árum, en það var óskað eftir því á s.l. ári og ég sá fyrir mitt leyti þá enga ástæðu til að amast við slíkri beiðni. Ég tel að það sé að mörgu leyti betra fyrir heilbrrh. að áætlunin liggi fyrir um leið og fjárlög eru afgreidd. Ég fer fram á það við hv. þm. Lárus Jónsson að hann tryggi að áætlunin liggi hér fyrir fyrir 3. umr. fjárlaganna.

Ástæðan til þess að ég nefni hér Framkvæmdasjóð aldraðra er ekki síst sú, að B-álma Borgarspítalans hefur verið fjármögnuð úr þessum sjóði og þar þurfa til að koma verulegar upphæðir á árinu 1984 ef á að halda þeirri þörfu framkvæmd áfram. Ég geri ráð fyrir að hv. alþm. hafi fengið um þetta efni bréf Öldrunarfræðafélags Íslands, dags. 7. des. 1983, þar sem þörfin á Bálmunni er undirstrikuð alveg sérstaklega. Ég vil láta það koma fram hér að ég ræddi þetta mál við hæstv. heilbrrh. í dag og hann tjáði mér að það væri til athugunar enn þá. Af þeirri ástæðu ákvað ég að flytja hér enga brtt. varðandi B-álmu Borgarspítalans, en ég tel að það sé mjög mikið atriði að tryggt verði að einhverjir fjármunir fáist til hennar. Mér er að vísu ljóst að þetta er geysidýr framkvæmd og það er mikil upphæð sem borgarstjórn Reykjavíkur fer fram á, — ég veit ekki nákvæmlega hvaða tala það er, ég gæti trúað að hún væri 25–30 millj. kr., — þannig að það er vafalaust mjög erfitt að verða við allri þeirri beiðni sem þar er um að ræða. En ég heiti á menn að reyna að tryggja að þarna verði um myndarlega tölu að ræða. Bálman er svo langt komin að það verður unnt að taka hana í notkun, a.m.k. tvær hæðir í viðbót, á árinu 1984 ef þarna fengist sæmileg upphæð. Þá væru komnar í notkun fjórar hæðir í þessari stofnun sem á að hýsa langlegusjúklinga.

Ég vil í sambandi við þetta, herra forseti, undirstrika alveg sérstaklega B-álmuna, en spyrja síðan í framhaldi af því hv. þm. Lárus Jónsson og hæstv. fjmrh.: Hvað um ný verkefni í sjúkrahúsum á næsta ári, þ.e. hvað um kostnað við rekstur nýrra sjúkradeilda sem tilbúnar verða á næsta ári? (LJ: Lastu ekki ræðuna mína betur en þetta?) Ég las ræðuna alla, hv. þm., mjög ítarlega og ég sá ekki að þar væri gert ráð fyrir rekstrarkostnaði við B-álmu Borgarspítalans, og þar var ekki heldur gert ráð fyrir rekstrarkostnaði við ýmsar stofnanir aðrar sem munu vera tilbúnar eða að verða tilbúnar. Ég tók a.m.k. ekki eftir því að svo væri. Það er alltaf svo um hver áramót, að það eru margar deildir á spítölum sem eru kannske í þann veginn að verða tilbúnar. Það eru stofnanir og deildir sem ekki hafa verið teknar í notkun. Í þessu sambandi vil ég t.d. nefna gamla sjúkrahúsið á Selfossi, sem hefur verið ætlunin að taka undir hjúkrunarheimili. Ég vil í þessu sambandi nefna hluta af Fjórðungssjúkrahúsinu á Norðfirði og vafalaust er þarna um að ræða einhverjar fleiri slíkar sjúkrastofnanir. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm.: Hvar er gert ráð fyrir þessu fé í fjárlagatill. ársins 1984? (LJ: Ég sagði að umfjöllun um þetta biði 3. umr.) Umfjöllun um nýjar deildir á árinu 1984? Ég er að tala um rekstur. (LJ: Það er það.) Ég þakka hv. þm. fyrir þær upplýsingar.

Þá vil ég spyrja einnig varðandi viðhald sjúkrastofnana. Er einnig ætlunin að það bíði 3. umr.? Viðhald sjúkrastofnana er í tvennu lagi í fjárlagafrv. Annars vegar á þeim stofnunum sem eru undir beinum fjárlögum. Þar er það tilgreint sérstaklega hversu mikið á að fara í viðhald þessara húsa. Hins vegar er hér um að ræða tölu sem leynist í B-hluta fjárlagafrv. undir Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingar, þar sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði 85% af viðhaldskostnaði sjúkrahúsa á árinu 1984, þ.e. daggjaldasjúkrahúsa. Og ég vil spyrja hv. þm. Lárus Jónsson, og mér þykir leitt ef það hefur nú farið fram hjá mér líka í ræðu hans, það var meiningin að reyna að lesa sæmilega vel, — ég vil spyrja hv. þm. að því: Hve há er sú upphæð sem ætluð er til viðhalds daggjaldasjúkrahúsa á árinu 1984?

Þá vil ég inna hér eftir öðru atriði, herra forseti, og það snertir Atvinnuleysistryggingasjóð. Skv. lögum nr. 52 frá 1981 um breyt. á lögum nr. 97/1979, um eftirlaun aldraðra, er gert ráð fyrir að þeir sem fá eftirlaun skv. þeim lögum njóti ákveðinna þriggja stiga í eftirlaunarétti sem eru kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði. Nú lá það fyrirheit fyrir, þegar þessi lög voru sett um stigin þrjú, að ríkissjóður létti þessum greiðslum jafnt og þétt af Atvinnuleysistryggingasjóði. Í samræmi við þetta voru í fjárlögum fyrir árið 1983 veittar úr ríkissjóði 5.5 millj. kr. til greiðslu upp í þennan viðbótarlífeyri, sem áætlað er að verði árið 1983 28.3 millj. kr.

Nú er gert ráð fyrir að þessi viðbótarlífeyrir verði árið 1984 30.9 millj. kr. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1984 er hins vegar ekki að finna neina fjárveitingu til endurgreiðslu á fjárhæð þessari né hluta hennar. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og hv. formann fjvn.: Er það ekki ætlun núv. ríkisstj. að koma til móts við Atvinnuleysistryggingasjóð í þessu efni? Atvinnuleysistryggingasjóður á í talsverðum fjárhagslegum erfiðleikum. Fyrst og fremst er það vegna þess að framlög hans til framkvæmdar laganna um eftirlaun til aldraðra hafa orðið miklu hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi. Ég sé ekki betur en það sé alveg óhjákvæmilegt að gerðar verði ráðstafanir til að koma þarna nokkuð til móts við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég minni t.d. á í þessu sambandi að Atvinnuleysistryggingasjóði hefur verið ætlað að kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég hef grun um að sjóðurinn hafi ekki haft lausafjárstöðu til að gera það á þessu ári nema með nokkrum eftirrekstri. Ég hygg að hann hafi svo keypt sín bréf að lokum, en það var ekki fyrr en löngu seinna en gert hafði verið ráð fyrir í greiðsluáætlunum. En ég vil sem sagt spyrja hv. formann fjvn. og hæstv. fjmrh.: Er ekki ætlunin að koma þarna nokkuð til móts við Atvinnuleysistryggingasjóð? Og ég fullyrði að það skiptir miklu þó að þar yrði aðeins um lítið skref að ræða. Aðalatriðið er áreiðanlega frá sjónarmiði Atvinnuleysistryggingasjóðs að það liggi fyrir viðurkenning á því að ríkisstj. vilji stíga þarna skref til móts við sjóðinn.

Herra forseti. Í frv. til fjárlaga fyrir 1984 er gert ráð fyrir að verja liðlega 100 millj. kr. í lánsfé á þessum tímum mikillar lánsfjárkreppu til flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég hef ekki hugsað mér nú við þessa umr. að fara rækilega út í það mál, en við Alþb.-menn munum taka á því máli sérstaklega við 3. umr. fjárlaganna. Ég tel að hér sé um að ræða útgjöld sem við getum sparað okkur, eins og fram kemur í till. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon o.fl. hafa hér flutt, og við munum flytja sérstaka till. um meðferð þessa lánsfjár áður en afgreiðsla fjárlaganna fer fram.

Á þessum tímum mikilla þrenginga í ríkisbúskapnum, þegar flest er nú sparað, hefur hæstv. ríkisstj. fundið einn lið sem ástæða hefur þótt til að hækka sérstaklega myndarlega og það er liðurinn við 4. gr. 0108 Þingmannasamtök NATO. Sú tala er í fjárlagafrv. 117 þús. kr. Nú þykir mikið liggja við að efla tengsl Íslands við Þingmannasamtök Atlantshafsbandalagsins. Nú er ekki verið að knía með 9.1% eða 14.4 eða 21.2, eins og þessar nákvæmu tölur eru sem Þjóðhagsstofnun lætur ríkisstj. reikna eftir fjárlögin. Það er nú ekki naglaskapurinn uppi þegar kemur að þessum mikilvægu erlendu samskiptum, og væri kannske fróðlegt að fá hér lista yfir hverjir það eru sem aðallega þurfa að bregða sér af bæ til að sinna Þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsins. Ég hef nú ekki yfirlit yfir það. Hæstv. forseti, sem er innanbúðar þarna í Sjálfstfl., kann það sjálfsagt hverjir þar eru helst og hv. þm. Guðmundur Bjarnason gæti sennilega veitt um það upplýsingar hvaða framsóknarmenn það eru sem þurfa á alveg sérstakri andlegri styrkingu að halda frá NATO um þessar mundir.

Það er nú ekki verið að klípa það eða skera nærri nögl; eins og hv. þm. Ingvar Gíslason sagði áðan þegar var verið að lýsa hér Listskreytingasjóði, þar væri nú skorið nærri nögl eins og hann sagði. Hérna eru það ekki 100% og ekki 200%, heldur er hér gert ráð fyrir því að Þingmannasamtök NATO fari úr 117 þús. kr. upp í 900 þús. kr. Og nú fer ég fram á það við hv. þm. Lárus Jónsson og hæstv. fjmrh. að þeir rökstyðji hina brýnu nauðsyn þess að hækka þessa tölu svona mikið, að þeir rökstyðji þessa tölu þannig að þingheimi megi ljóst vera hví liggur svona mikið við í sambandi við Þingmannasamtök Atlantshafsbandalagsins. Eru kannske einhverjir vantrúaðir í hópi ríkisstj.? Eru einhverjir sem þurfa á alveg sérstakri meðhöndlun að halda? Mér skilst að þeir hjá Ameríkananum hafi boðið upp á ókeypis sérmeðferð um borð í flugvélamóðurskipum fyrir einu eða tveimur árum og menn hafi fengið að gista þar og ekki þurft að borga mikið fyrir það. (Gripið fram í: Er það ekki árlega bara?) Er það árlega? Ja, hv. þm. veit örugglega betur en ég.

Nú er sem sagt meiningin að fara að greiða þennan gistikostnað um borð í flugvélamóðurskipunum með því að hækka framlag á fjárlögum úr 117 þús. kr. upp í 900 þús kr. Það er engin smátala. Ég fer hér fram á 200 þús. kr. til Blindrabókasafns t.d. og bliknar sú till. sannarlega í samanburði við þau ósköp sem hér eru á ferðinni. Mér finnst að hv. þm. Lárusi Jónssyni, sem flutti hér annars athyglisverða ræðu um margt og sem er ástæða til að þakka honum fyrir, hún var skýr og skilmerkileg, hafi láðst að gera grein fyrir því hvernig á því stendur að það þarf að hækka þennan lið svona rosalega eins og gerð er till. um. Það er engin ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna að sætta sig við að þetta fari hér skýringalaust í gegn. Og ég óska eftir því að hv. þm. upplýsi mig um það í leiðinni hvaða þm. það eru sem þurfa á þessari sérmeðferð að halda þarna hjá Atlantshafsbandalaginu. Eru það einhver sérkennslugögn sem þeir eiga að fá í hendur, þessir hv. þm. sem þarna eru að fara að kynna sér málin hjá NATO? Eru einhverjir að ganga af trúnni kannske eða hvað er hér að gerast? Það væri fróðlegt ef hv. þm. Lárus Jónsson vildi dreifa lista með nöfnum þeirra manna sem þurfa á þessari sérmeðferð að halda.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.