13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

1. mál, fjárlög 1984

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er nú farið að líða á kvöldið og ég skal vera mjög stuttorður.

Ég tók eftir því að hæstv. fjmrh. benti á að hann hefði í sumar sagt að það væri ókleift að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á þessu ári, ríkissjóður væri það illa staddur. En ég þykist líka minnast þess að hann hafi talað um það í sömu andránni að nauðsynlegt væri að ná jafnvægi á árinu 1984. Eins og fjárlagafrv. liggur fyrir núna sér ekki örla á því jafnvægi. Það sést ekki að það heit frá því í sumar að ná jafnvægi á árinu 1984 verði haldið. (Fjmrh.: Á kjörtímabilinu.) Nei, nei, nei, nei. Á árinu I984. Á næsta ári, Albert Guðmundson hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Já, það er náttúrlega ágæt ábending, að það væri þá ef það yrði kosið fyrr sem það næðist á kjörtímabilinu og þannig rynni það saman.

Það er athyglisvert í þessu sambandi hvernig hæstv. fjmrh. tekur á skuldunum við Seðlabankann. Hann lætur eins og vextirnir af skuldum við Seðlabankann séu partur af samningum, þannig að þetta geti verið vaxtalaust á árinu 1984 og þess vegna eigi sú upphæð ekki að koma inn í fjárlagafrv. Þetta er blekking. Þegar talað er um að semja um þessar skuldir við Seðlabankann er það gert með þeim hætti að það er samið um á hvaða tíma þær eigi að greiðast. Það er væntanlega samið um það líka hverjir vextirnir eigi að vera. Og hvort sem þeir eru greiddir fyrr eða síðar reiknast þeir á árinu 1984. Jafnvel þetta vantar upp á að jafnvægi náist á því ári.

Ég saknaði þess líka í orðum hæstv. fjmrh. að hann skyldi ekki víkja einu orði að hækkun á bensíngjaldinu sem fyrirhuguð er á árinu 1984 upp á 40–50%, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar, á sama tíma og menn eru að tala um launahækkanir sem séu á milli áranna væntanlega einhvers staðar á bilinu 10–12–14%. Ekki orð um þetta. Ekki orð um að vísitöluskrúfan eigi að fá að halda áfram á gjaldapósti til ríkissjóðs. Það hefði þó enn frekar verið ástæða til þess fyrir hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir þessu úr því að hv. formaður fjvn. hefur ekki farið neinum orðum um hvernig þetta sé hugsað.

Það var líka heldur billegt svarið hjá hæstv. fjmrh. að því er varðaði það sem gengur nú almennt undir nafninu sjúkraskatturinn. Þá sagði hæstv. ráðh.: Ja, það eru bara þeir ríku sem eiga að borga. Hann svaraði ekki einu orði því hvernig ætti að innheimta þennan skatt, hvernig ætti að framkvæma þessa gjaldtöku, sem hv. þm. Svavar Gestsson leitaði þó ítrekað eftir svörum við. En ég vil þá spyrja líka í framhaldi af svörum hæstv. ráðh., þegar hann talar um að einungis þeir ríku eigi að borga: Hverjir eru þessir ríku? Og hvernig eiga menn að sanna fátæki sitt á spítölunum þegar þessi gjaldtaka á að framkvæmast samkvæmt þeim boðskap sem hv. formaður fjvn. boðaði hér í dag? Hvernig eiga menn að sanna fátæki sitt? Og hvaða tryggingu hefur hæstv. ráðh. fyrir því að tekjulágur einstaklingur, sem síst skyldi, vilji leggja það á sig að sanna fátæki sitt á spítalanum til að sleppa við að borga þetta gjald? Svona aðferðir eru nefnilega niðurlægjandi. Það er þetta sem við höfum verið að leitast við að komast hjá í okkar þjóðfétagi, að ætla mönnum að standa upp og biðja um undanþágurnar, ætla mönnum að standa upp og biðja um að fá að sleppa við að greiða af því að þeir séu fátækir, að niðurlægja menn með þessum hætti — eða eiga menn núna þegar þeir leggjast inn á spítala, að ganga með framtalið sitt í vasanum til að ganga megi úr skugga um hvort þeir eigi að verða gjaldteknir eða ekki, hvort þeir eigi að greiða þennan skatt eða ekki, eða er meiningin að fara eftir framtölum manna? Hafa framtöl manna verið svo góður mælikvarði á það á Íslandi hvort þeir séu aflögufærir eða ekki að það sé besti mælikvarðinn sem menn hafi um hvort rétt sé að þeir greiði þennan skatt eða ekki? Hvernig er þetta hugsað af hálfu hæstv. ríkisstj. sem er nú með lagafrv. í undirbúningi um að brjóta upp það kerfi sem hér hefur verið byggt upp stig af stigi á s.l. 50 árum, að hverfa frá þeirri braut sem menn hafa verið á? Þetta er ekkert smámál. Menn segja að 300 kr. eða 500 kr. séu svo sem ekki neitt, það geti allir greitt ef þeir hafi laun á annað borð. En hér er verið að brjóta í blað, hér er verið að víkja frá grundvallarstefnumörkun sem hefur verið í þjóðfélaginu — grundvallarstefnumörkun ekki bara um að hjúkrun skuli menn ekki þurfa að greiða fyrir á Íslandi, heldur líka um að menn skuli ekki þurfa að niðurlægja sig og biðja um undanþágu til að sleppa við gjaldtöku þegar þeir eru sjúkir. Þessum spurningum kemst ríkisstj. ekki hjá því að svara og ég tel rétt að hæstv. fjmrh. svari þessu núna. Og ég vil treysta því að þegar hann hefur hugað betur að þessu máli og menn hafa gætt að því í ríkisstj. hverfi þeir frá þessum hugmyndum því að þær eru vægast sagt hættulegar. Þær eru niðurlægjandi fyrir fólkið sem yrði fyrir þessu, þær eru niðurlægjandi fyrir Íslendinga sem þjóðfélag og þetta er ekki sú braut sem við viljum vera á.