14.12.1983
Efri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er ekki svo oft sem hægt er að þakka hæstv. fjmrh. fyrir frv. að ég get ekki látið þetta tækifæri ónotað. Ég ætla hins vegar ekkert að draga í efa að hæstv. ráðh. er ákveðinn í því að hlynna að verslun og fyrirtækjum með þeim hætti að losa þá aðila sem allra fyrst undan þessum sjálfsagða skatti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er honum efst í huga og ábyggilega miklu ofar en að sjá til þess að ekki verði um íþyngjandi greiðslubyrði að ræða hjá ýmsum öðrum. Ég er alveg sannfærður um að þau orð hans voru mælt af fullum heilindum áðan.

Það vill nú svoleiðis til að einmitt þarna er verulega hægt af að taka og það vakti vitanlega athygli í vor, þegar efnahagsaðgerðirnar voru gerðar, hversu verslunin slapp þá vei. Allir vissu um ástæðurnar fyrir því, að þar voru þeir tveir flokkar samankomnir sem bera hag þessarar atvinnugreinar alveg sérstaklega fyrir brjósti og því ekki ástæða til þess fyrir þá að vera að leggja sams konar byrðar á verslunina og launafólk í landinu t.d. Það er hins vegar mála sannast og hefur verið bent á það stundum hér í þessari hv. deild, að bæði verslunin og fyrirtækin eru lagin við að velta þessu af sér. Menn skyldu svo sem ekki láta sér detta í hug að þó að þessum skatti sé af þeim náð og mikið sé talað um skattpíningu þeirra í þessu sambandi og hafi verið gert hér í hv. deild æðioft nái þau þessu ekki af viðskiptavinum sínum mjög fljótlega. Því er skatturinn kannske ekki eins mikið fagnaðarefni og maður gjarnan vildi, ef það væri ljóst að þeir tækju þetta af sínum gróða — ég segi: vitanlega þeim gróða sem aðrir hafa fært í vasa þeirra. En það er þó bót í máli að þarna eru menn kannske að ná einhverjum hluta af því til baka til réttra aðila.

Hæstv. fjmrh. kom einmitt inn á að nú væru allar tölur varðandi skattamál til endurskoðunar. Ég veit ekki hvernig þeim málum miðar í fjh.- og viðskn., en það er auðvitað alveg ljóst að fjárlagatölurnar, eins og bent var á í umr. hér í gærkveldi, tölurnar í tekjuskattsfrv. og tölur í frv. sem við vorum að sjá hér áðan, eru allar kolruglaðar miðað við það sem við heyrum nú. Ég held að ég mundi meta það mikils við hæstv. fjmrh. ef hann vildi líka leiðrétta tölurnar í sambandi við þetta frv. og sjá einmitt til þess að þarna yrði um verulega íþyngjandi greiðslubyrði að ræða hjá þessum aðilum sem þola íþyngjandi greiðslubyrði. Þess vegna höfum við Alþb.-menn flutt um það till. við afgreiðslu fjárlaga að þessi skattur verði tvöfaldaður á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Við erum sannfærðir um að á þessum tímum er ekki til margra annarra að leita um fjármagn sem betur þola það en einmitt þessir aðilar.