14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins nokkrar mínútur síðan frv. um tekjustofna sveitarfélaga var dreift á borð okkar deildarmanna. Það verður að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj. og ráðh., að þm., a.m.k. þm. stjórnarandstöðunnar, sem ekki fá að sjá þessi mál áður en þau eru lögð hér á borðin, gefist a.m.k. tími til að lesa frv. yfir.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að við greiðum fyrir afgreiðslu mála þessa daga fyrir. jólin ef svona á að standa að málum, ef það á ekki einu sinni að gefa mönnum kost á að lesa frv. áður en þau eru tekin hér til umr., því að það er ætlast til að við greiðum um þau atkv. og höfum á þeim skoðanir. Til þess er forsendan að menn geti lesið málin yfir.