14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

Um þingsköp

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Þar sem hér er um að ræða eitt af þeim málum sem samkomulag varð um í gær milli stjórnar og stjórnarandstöðu að tekið yrði til afgreiðslu fyrir jól, þá taldi ég að það væri stætt á því að leita afbrigða um að mál þetta mætti koma hér á dagskrá, þar sem, eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði, hér væri um einfalt mál að ræða og hæstv. félmrh. óskaði eftir að fá að mæla fyrir því nú. Ég vænti þess að hv. þm., sem eiga sæti í þeirri nefnd sem fjallar um það, hefðu þá tækifæri til að kynna sér það betur í nefnd. En ég get fallist á það, að ef menn vilja taka sér svo sem eins og hálftíma hlé til að lesa þetta frv. yfir og ef hæstv. félmrh. fellst á það er það mér að meinalausu. — En nú biður hæstv. félmrh. um orðið og við skulum heyra hvað hann hefur að segja.