14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér var aðeins gerð athugasemd við það af minni hálfu að þm. gæfist ekki tækifæri til að lesa þetta yfir frá því að frv. er dreift hér og þangað til það skal takast til umr.

Það var beint spurningu til hæstv. félmrh., hvort þær tölur sem hér eru nefndar breytist með breytingum á skattalögum, sem eru til umr., og fjmrh. sagði að allar tölur væru þar nú breytingum undirorpnar. Hæstv. félmrh. svaraði ekki þessari spurningu. Það hefur auðvitað áhrif á afstöðu manna til þess hvort og hvenær málið verður tekið til umr., hvort þessar tölur breytast eða ekki. Ég vil taka undir þá spurningu og ítreka hana hér. Þó að þetta mál sé eitt af þeim málum sem ríkisstj. gerði að forgangsmáli í sínum málalista og stjórnarandstöðuþm. tóku vel í að afgreiða fyrir þinghlé, þá þýðir það ekki að málið þurfi endilega að koma til umr. á þessari stundu. Það er vel hægt að afgreiða þetta mál þó svo að mönnum gefist tími til að lesa það yfir. Ég held að það séu vinnubrögð sem séu okkur hér á Alþingi til vansa ef það á að afgreiða mál til nefndar án þess að þm. gefist tækifæri til að lesa þau yfir. Ég held að það séu vinnubrögð sem séu fullkomlega óboðleg og Alþingi ósæmandi.