24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum til staðfestingar á brbl., seta sett voru í lok maí s.l., en ráðstafanir þessar voru gerðar samhliða gengisbreytingu íslensku krónunnar.

Það er kunnara en frá þarf að segja að hagur sjávarútvegsins var á s.l. vori mjög slæmur og var því nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja afkomu hans. Þessi staða kom fram í því, að tekjuaukning hans var ekki í neinu samræmi við kostnaðaraukningu. Því var nauðsynlegt að breyta gengi íslensku krónunnar til að auka tekjur þessa undirstöðuatvinnuvegar og gera ráðstafanir til þess að kostnaðarhækkanir kæmu ekki í kjölfar tekjuaukningarinnar.

Í 1. gr. þessa frv. eru gerðar ráðstafanir til að tryggja að hluti af tekjuaukningunni renni til útgerðar og reksturs fiskiskipa, en aflaminnkun var veruleg og því mikilvægt að auka tekjur útgerðarinnar til þess að hún gæti gengið áfram. Það var gert með þeim hætti að tekin var upp sérstök 29% kostnaðarhlutdeild til skipa stærri en 240 brúttórúmlestir, en 25% til minni skipa. Jafnframt þessu var lagt niður svokallað olíugjald og dregst það frá þessari prósentu í reynd, því að olíugjald var tekið áður í gegnum útflutningsgjöld. Þessar ráðstafanir urðu til þess að skiptaverð hækkaði á togurum eða stærri fiskiskipum um 8%, en um 12.3% á skipum minni en 240 lestir. Hlutur útgerðar hækkaði meira eða rúmlega um 18%, þ.e. um tæplega 16% hjá togurum og rúmlega 21% hjá bátum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um stöðu útgerðarinnar eins og hún var álitin vera á s.l. vori. Það sem komið hefur fram síðan þessar ráðstafanir voru gerðar bendir til þess að staðan hafi verið í reynd verri en gert var ráð fyrir. Þá gerðu menn sér vonir um að afli gæti orðið svipaður seinni hluta þessa árs og hann var á sama tíma í fyrra. Þetta hefur reynst ofmat, aflinn er minni, og þess vegna er staða sjávarútvegsins í reynd lakari nú en menn gerðu sér vonir um á s.l. vori, þannig að ef eitthvað má segja í gagnrýnisátt varðandi þessar ráðstafanir, þá er það svo að mínu mati að þær hafi ekki verið nægilega róttækar.

Það verður mikill vandi á næstunni að tryggja afkomu sjávarútvegsins svo vel verði. Aflasamdrátturinn er mikill og tilkostnaðurinn hefur farið vaxandi. Það verður hins vegar að mínu mati ekki leiðrétt með því að breyta gengi íslensku krónunnar, eins og var gert á s.l. vori. Það eru takmörk fyrir hvað hægt er að fara út í miklar tilfærslur í landinu, jafnvel þótt það megi sýna fram á að sjávarútvegurinn stendur ekki undir þeim tilkostnaði sem á hann er lagður. Sjávarútvegurinn verður hins vegar að leggja alla áherslu á að draga úr kostnaði og því sem hann þarf að láta af hendi við öflun hráefnis. Á næstunni munu menn leita allra leiða til að gera það, jafnframt því sem nauðsynlegt er að auka tekjurnar og þá sérstaklega með því að bæta meðferð sjávarafla.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með því að lesa upp tölur um afkomu sjávarútvegsins. hvorki á s.l. vori né nú. Ég get komið þeim á framfæri við viðkomandi n. eða svarað spurningum manna, ef menn telja ástæðu til, en þessar tölur hafa komið fram í fjölmiðlum að undanförnu og ég sé ekki ástæðu til að fara um þær mörgum orðum.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um ráðstöfun á gengismun af birgðum í sjávarútvegi, en eins og menn muna var talið nauðsynlegt að ráðstafa hluta af gengismun af útflutningsbirgðum sérstaklega til útgerðarinnar. Í þessari grein er ríkisstj. falið að kveða nánar um hvernig því fjármagni skuli ráðstafað. Það hefur verið gert og var áætlað að hér væri um 550 millj. kr. að ræða. Var þeim ráðstafað þannig: 60 millj. voru veittar sem lán til loðnuskipa, sem hafa átt við mikla rekstrarerfiðleika að etja vegna þess að engin loðnuveiði hefur verið. 15 millj. var ráðstafað sem lánum til loðnuvinnslustöðva. Hefur lánveiting samkv. báðum þessum liðum átt sér stað, 10 millj. var varið til orkusparandi aðgerða í útgerð og 10 millj. til að efla gæði og vöruvöndun í sjávarútvegi. Fjármagn þetta hefur verið veitt til Fiskimálasjóðs, sem skal annast greiðslur, en hins vegar hefur þessu fjármagni enn ekki verið ráðstafað hjá Fiskimálasjóði. Það hafa verið í gangi aðgerðir til að auka gæði og vöruvöndun í sjávarútvegi og nokkurt fjármagn var fyrir samkvæmt ráðstöfun á s.l. vetri þegar gengismun var ráðstafað. Því fjármagni hefur ekki enn öllu verið ráðstafað þannig að það hefur ekki verið nauðsynlegt að nota viðbótarféð enn þá. En það er af mörgu að taka og hefur verið unnið að því að meta með hvaða hætti þessir peningar yrðu notaðir með sem skynsamlegustum hætti.

37 millj. fara til sjómanna og sjómannasamtaka, þar af 30 millj. til Lífeyrissjóðs sjómanna og 7 millj. til annarra velferðarmála í þágu sjómanna. Verður skipting þess fjár ákveðin að höfðu samráði við sjómannasamtökin, en frá því hefur ekki enn verið endanlega gengið hvernig þeim peningum verður ráðstafað. Eins og menn vita að sjálfsögðu kemur þetta fjármagn inn smátt og smátt og hefur alls ekki komið inn enn nema að nokkru leyti, þannig að þótt í lögunum séu ákvæði um ráðstöfun getur ráðstöfunin að sjálfsögðu ekki farið fram nema samhliða því að fjármagnið kemur inn.

Þá er varið 4 millj. kr. í Styrktar- og lánasjóð fiskiskipa, en það er sjóður sem lánar tiltölulega lágar fjárhæðir til minni báta sem lenda í erfiðleikum. Hefur þessi sjóður verið mjög lengi til. Það hefur verið ráðstafað í hann eitt sinn áður af gengismunarfé, en nú var ekkert fjármagn í þessum sjóði og þótti nauðsynlegt að tryggja honum nokkurn hlut af gengismunarfé.

Þá var varið 1200 þús. kr. til sérstaks átaks í loðnuleit haustið 1983, en eins og vitað er var það svo á s.l. ári að aðeins eitt skip, Bjarni Sæmundsson, vann að loðnuleit. Það kom hins vegar upp veruleg gagnrýni á að skipið hefði ekki getað kannað allt svæðið, og þar sem ekki þótti fært að taka slíka áhættu var ákveðið að Árni Friðriksson færi einnig til loðnuleitar. Skipin komu í höfn í gær og er nú unnið að niðurstöðum úr þeim leiðangri. Það kom fram í þessum leiðangri að mjög nauðsynlegt reyndist að hafa bæði skipin og má fullyrða að ekki væri enn komin nein niðurstaða varðandi loðnuleitina ef bæði skipin hefðu ekki verið á miðunum. Hér var því vel ráðið, að mínu mati, og sennilega væri Bjarni Sæmundsson að öðrum kosti enn úti fyrir Norðurlandi í hinu versta veðri og ekki væri komin niðurstaða að því er varðar loðnustofninn. Ég er ekki með þessu að segja að ég geti á þessari stundu greint frá niðurstöðum. Það er verið að vinna úr gögnum og við væntum þess að geta greint frá niðurstöðum á næstu dögum.

Þá voru notaðar u.þ.b. 55 millj. til greiðslu eftirstöðva af Olíusjóði fiskiskipa, en Olíusjóður fiskiskipa var stofnaður með lögum 11. febrúar 1983. Þessi sjóður skuldaði mun meira en tekjumöguleikar hans námu og því var nauðsynlegt að ráðstafa fjármagni til greiðslu á þeim skuldum. Annar olíusjóður hafði verið stofnaður árið áður með ábyrgð ríkissjóðs og var fjármagni ekki varið af gengismun nú til að endurgreiða þá skuld, hetdur gert ráð fyrir að hún falli í ríkissjóð, enda var við ráðstöfun gengismunar á s.l. vetri ekki tekin ákvörðun um að endurgreiða þá skuld, en þá lá fyrir að hér var um allverulega skuld að ræða og hvorki þáv. ríkisstj. né Alþingi sáu ástæðu til að verja fjármagni af gengismunarfé þá til að greiða þá skuld. Því var það skoðun rn., að þegar hefði verið tekin afstaða til þeirrar skuldar.

Í níunda lagi, og það sem mestu máli skiptir, er að 300 millj. er varið til greiðslu inn á Stofnfjársjóð fiskiskipa vegna skulda. Þeirri fjárhæð var varið með tvennum hætti:

Í fyrsta lagi er um að ræða 100 millj. í hlutfalli við aflaverðmæti skipanna frá 1. júlí 1982 til 30. júní 1983. Hér er um nýmæli að ræða. Áður hafði fjármagni samkv. þessum lið eingöngu verið ráðstafað í samræmi við skuldir skipanna, sem gerði það að verkum að mjög mörg skip urðu útundan, þá sérstaklega bátaflotinn. Hér er vikið frá þeirri reglu og ákveðið að 100 millj. skuli varið í hlutfalli við afla skipanna. Síðan er varið 200 millj. í hlutfalli við skuldir skipanna samkv. ákveðnum reglum sem rn. setti. Þar var í öllum meginatriðum farið eftir þeim reglum sem áður höfðu ríkt í þessu sambandi, en ég vil þó geta helstu breytinga. Þær eru eftirfarandi.

Viðmiðunartímabil var lengt frá því sem síðast var ákveðið frá 1. janúar 1978 aftur til 1. júlí 1975, en á árinu 1975 varð veruleg breyting á lánskjörum við Fiskveiðasjóð og því þótti eðlilegt að miða viðmiðunartímabilið við 1. júlí 1975, þegar Fiskveiðasjóður gerði breytingar á sínum reglum.

Í öðru lagi er nú í fyrsta sinn tekið tillit til erlendra lána vegna endurbóta á fiskiskipum, sem hafa verið tekin án milligöngu Fiskveiðasjóðs, svo og að lágmarksupphæð af ógjaldföllnum höfuðstól lánanna féll niður. Þessi ráðstöfun hefur í för með sér að mun fleiri skip utan Fiskveiðasjóðs fá hlutdeild í fjárhæðinni en áður.

Í þriðja lagi var sett þak á hlutdeild hvers skips þannig að ekkert skip fær yfir 2.5% af heildarfjárhæðinni eða meira en 5 millj. kr. Þessi ráðstöfun varð til þess að nokkuð takmarkaðist hlutdeild þeirra skipa sem mest skulduðu.

Í fjórða lagi hafði áður verið lágmarksupphæð á höfuðstól skuldar og hún var felld niður. Þessi ákvörðun leiddi til þess að mikill fjöldi skipa með lág lán, t.d. vegna tækjakaupa og endurbóta á undanförnum árum, kom inn í skiptinguna.

Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta frv. að frekara umræðuefni hér. Ég vænti þess að hv. nefnd fjalli ítarlega um það. Það væri vissulega ástæða til að ræða almennt um afkomuhorfur í sjávarútveginum. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, en vænti þess að nefndin taki málið til gaumgæfilegrar athugunar. Hæstv. forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn. og vænti þess að nefndin reyni eftir föngum að hraða afgreiðslu málsins. Það skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli hvort það verður afgreitt næstu daga, en það er að mínu mati mikilvægt að afgreiða þetta frv. t.d. fyrir áramót og skapaði það meiri vissu um þessi mál ef það væri ekki lengi til meðferðar hér í þinginu.