14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

Um þingsköp

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég gerði ekki mjög harða hríð að virðulegum forseta áðan varðandi það að taka þetta mál upp, benti einungis á að við hefðum verið að sjá þetta mál nú, en ég þakka þá tillitssemi sem okkur hefur verið sýnd af virðulegum forseta í þessu efni.

Ég vil aðeins taka það fram, að hefði ég verið búinn að sjá þetta frv. áður hjá mínum formanni eða formanni þingflokks hefði ég að sjálfsögðu ekki gert neinar athugasemdir við þetta. Ég hef hins vegar ekki séð það, en ég trúi orðum hæstv. félmrh. fúslega og það verður þá að skrifast á reikning míns formanns ef því hefur ekki verið komið til skila til okkar. Ég tek það skýrt fram.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, að það hefur ekki verið samið um að tekjuskatts- og eignarskattsmálið gangi fram fyrir jól. Það var tekið fram að það væri æskilegt og menn tóku undir að það væri æskilegt, en það voru önnur mál sem þar voru forgangsmál og um var samið. Um þetta mál gilti að það væri einungis æskilegt að það næði fram að ganga. — [Fundarhlé.]