14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Jú, ýmislegt hefur skýrst í þessu efni frá því að við fengum þetta frv. í hendurnar rétt í fundarbyrjuninni. Þó er það nú svo að það kom ekki fram í máli hæstv. ráðh. hvaða frádráttarliðir þetta væru, en ég reikna með að það séu grundvallarliðirnir, þ.e. persónuafslátturinn, sem þarna er um að ræða. En það er bagalegt í sambandi við aths. með lagafrv. að það er ekki einu sinni greint frá því hvaða liðir. Það er bara sagt: Fjárhæðin 35 þús. með hliðsjón af skattvísitölu, er hins vegar sett örlítið hærra eða 1 800 kr. í þessu frv.

Hvaða fjárhæð? Ég reikna með því — er það ekki rétt hæstv. ráðh.? — að þarna sé um að ræða persónuafsláttinn sem reiknast hjá hverjum, en það er auðvitað bagalegt að sjá það ekki, og vitna ég þá til þess að þegar við lásum yfir frv. um tekju- og eignarskattinn var það alveg skýrt við hvaða frádráttarlið hver grein átti þar og hver liður. Við vissum því að þarna var sjómannafrádrátturinn og þarna var sérstakur frádráttur af ýmsu tagi sem við vitum að gildir í skattalögunum. Hér er það ekki, en maður getur í eyðurnar.

Ég t.d. spyr hæstv. ráðh.: Hvað er þetta? „Í stað “7 þús. kr.“ í 1. og 2. málslið 2. mgr. komi: 360 kr.“ og hvað er þetta? „Í stað „10 þús. kr.“ í 7. mgr. komi: 520 kr.“ Hvaða liðir eru þetta? Ég er á gati. Og ég vil fá að vita um þessar tölur. Ég heyrði ekki hvort hv. þm. Davíð Aðalsteinsson var að segja að það væru fleiri á gati, en ég get alveg eins trúað því að svo væri.

Nú er gengið út frá ákveðinni grunntölu varðandi útsvarsálagningu í heild sinni. Hin almenna grunntala hefur verið 11% eins og menn þekkja. Nú hefur verið mikið um það deilt hver sú tala ætti að vera næsta árið að grunni eða hvort heimildir ætti að veita til hækkunar. Og þá spyr maður um leið að því, og vildi ég beina því til hæstv. ráðh., hvort hafi verið tekið tillit til þess nú við þessa grunntölu, sem kemur til við álagningu útsvars næsta ár og sem ég er nú ekki farinn að sjá að kunni ekki að breytast svolítið, ekki kannske mikið. En þessar frádráttartölur geta áreiðanlega breyst í meðferð n. og Alþingis á frv. um tekju- og eignarskatt. Ég sé ekki enn þá að þessar tölur geti ekki breyst lítið en eitthvað og spyr hæstv. ráðh. að því í leiðinni.

En aðalatriðið er, miðað við aðra prósentuálagningu, hvort tekið hafi verið tillit til þess við þessar grunnfrádráttartölur fyrir hvern einstakling í persónuafslættinum, því auðvitað skiptir það miklu máli að þar sé samræmi í, miðað við að grunnprósenta útsvarsins á næsta ári verði eitthvað lægri. Við sjáum það að vísu núna, að í Reykjavík hefur þessi prósenta þegar verið ákveðin, skilst mér, 11%, Kópavogur er búinn að ákveða sín 10.8% og áður hafa verið heimildir uppi um að færa þetta upp í 12.1%. Það situr nú einn hv. þm., Þórður Skúlason, á móti mér. Hann er sveitarstjóri og man örugglega hæstu heimild — er hún ekki 12.1%? — sem þarna hefur verið leyfð. Auðvitað hlýtur grunntalan að þurfa af frádrættinum að ráðast talsvert af því við hvað er miðað, við hvaða útsvarsprósentu af brúttótekjum er miðað. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því einnig.