14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Í sambandi við fsp. sem hér hafa komið fram má segja sem svo að það sé e.t.v. galli á frv. sem hér liggur fyrir til umr. að það vanti meiri skýringar.

Það er hér vitnað í lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73/1980 og 26. gr. þeirra laga. Þar stendur að með hliðsjón af því sem áður kemur fram í 25. gr. þeirra laga, þar sem útsvar skal vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum næstliðins almanaksárs, sem þó má ekki hærri vera en 11% af útsvarsstofni, þá er í 26. gr. í gildandi lögum ákveðið að hjá þeim mönnum sem um ræðir í 2. mgr. 22. gr. laganna, þ.e. sem eru búsettir í og gjaldskyldir í viðkomandi sveitarfélagi og heimilisfastir hafa verið hér á landi allt tekjuárið, skal við álagningu lækka útsvarið um 35 þús. kr. Þetta var ákveðið með lögum 1980 og þá í gömlum krónum. Það á við 1. mgr. í 1. gr. frv. sem hér liggur fyrir, að í stað 35 þús. gamalla króna í 1. mgr. komi 1 800 kr. Skv. skýringu með frv. hefur þessi upphæð síðan 1980 verið uppfærð skv. gildandi skattvísitölu á hverjum tíma og við álagningu útsvara 1983, þ.e. á þessu ári, var þessi upphæð uppfærð í 1 159 nýkr. Síðan er fundið út, miðað við spá um skattvísitölu 1984, að hækkunin milli ára er orðin 54%, sem þýðir að þessi upphæð breytist, þ.e. grunntalan, 35 þús. gamlar kr. eða 350 nýkr., í 1 785 og er hér upphækkað í 1 800.

Síðan kemur næsti liður. Í 26. gr. laganna stendur: „Fyrir hvert barn innan 16 ára á tekjuárinu, sem er heimilisfast hjá framfæranda hér á landi allt það ár, skal lækka útsvar um 7 þús. kr. (gamlar). Þegar um fleiri en þrjú börn er að ræða skal útsvar framfæranda lækkað að auki um 7 þús. kr. fyrir hvert barn umfram þrjú.“

Þessi fjárhæð er í 2. mgr. 7 þús. kr. og breytist í 360 kr., sem er með sömu skýringu hér og 1. mgr. í frv. Síðan heldur þetta áfram. Í 26. gr. er ákveðið að fella skuli niður útsvar sem nemur 10 þús. gamalla króna eða lægri fjárhæð. Þessi upphæð hefur allar götur síðan 1980 verið látin breytast með hliðsjón af breytingum á skattvísitölu. Hún var við álagningu 1983 512 kr. og er núna sett í 520 kr.

Ég vona að ég hafi útskýrt í hverju þetta liggur. Ég tek undir að það er náttúrlega nauðsynlegt, vegna þess að allir hv. þm. þekkja ekki slík lög og hafa þau ekki við höndina hverju sinni þegar verið er að breyta þeim, að gefa svona skýringar. Og ég bið afsökunar á því, að ég athugaði ekki í stuttri framsöguræðu að taka þetta fram.

Í sambandi við útsvarsálagninguna í heild eða þennan aðaltekjustofn sveitarfélaga vil ég segja að það eru eins og lögin gera ráð fyrir ákveðin 11% af útsvarsstofni. Í 25. gr., sem ég minntist á, er gert ráð fyrir að ef útsvör hrökkva ekki skv. 1. mgr. fyrir áætluðum útgjöldum sé sveitarstjórn heimilt að hækka þau um 10% að fengnu samþykki ráðh. Þetta er viðkvæmt mál, en á s.l. ári var þessi heimild gefin nokkuð frjáls. Öll þau sveitarfélög sem þess óskuðu nýttu þessa heimild á s.l. ári, þannig að yfirleitt var útsvarsálagningin miðuð við 12.1%. Ég hef hins vegar sem félmrh. og í samræmi við það sem hefur verið ákveðið í ríkisstj. gefið út þá yfirlýsingu um þetta ákvæði að sveitarfélögin þurfi ekki að reikna með því að þau geti nýtt sér þessa heimild á árinu 1984 nema því aðeins að það verði litið svo á að um algjört neyðarástand sé að ræða hjá viðkomandi sveitarfélagi, sem verði þá að fá sína þegna til að samþykkja það eða þola að fá á sig auknar álögur. Það verður eingöngu um undantekningaratriði að ræða og mun það verða skoðað vandlega í hverri umsókn sveitarfélaga ef um það verður að ræða.

Ég get sagt frá því hér, að jafnhliða hefur rn. skrifað stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ákveðið bréf um að beita vægilega sínum tekjuheimildum á næsta ári og reyna að haga sínum ákvörðunum um álagningu í samræmi við stefnu ríkisstj. og gæta hófs í meðferð tekjustofna. Ég get einnig sagt frá því hér að Samband ísl. sveitarfélaga hefur tekið þessu erindi mjög vel og ég veit ekki annað en að dreifibréf sé farið af stað til sveitarfélaganna hvað þetta varðar. Ég get einnig bætt því við að ég hef rætt við nokkuð marga forráðamenn sveitarfélaga og ég hef ekki orðið var við annað en allir séu sammála um að gæta hófs í þessu og fara eins gætilega í meðferð tekjustofna og mögulegt er. Mörg sveitarfélög hafa í hyggju að lækka útsvarsálagningu. Ég veit um þó nokkur sem fara niður fyrir 10%.

Það var ekki meining mín að fara að ræða þetta atriði hér og nú, en af því ég minntist á þetta vil ég aðeins segja að auðvitað hef ég þá skoðun sem gamall sveitarstjórnarmaður að sveitarfélögin eigi að hafa svigrúm til þess að fara með sína tekjustofna því hér er um að ræða annað svið en hjá ríkinu. Hér eru sveitarstjórnirnar nær vettvangi, nær sínu fólki, og eiga þá undir það að sækja ef þær beita ótæpilega því frelsi sem þær gjarnan ættu að hafa til að leggja álögur á sína þegna, þó að hins vegar sé nauðsynlegt að hafa ákveðið vald til að gripa inn í ef illa er að málum staðið.

Í framhaldi af þessu vil ég upplýsa að ríkisstj. hefur til meðferðar ákveðin form á samstarfssamningi milli ríkis og sveitarfélaga sem verður vonandi tekið til lokaafgreiðslu næstu daga og gengið til samninga við sveitarfélögin um ákveðið fastmótað samstarf um helstu stefnuatriði í sambandi við samskipti ríkis og sveitarfélaga og eins í sambandi við þau áhrif sem sveitarfélögin geta haft á efnahagslíf í landinu. Þessi samningur er gerður að finnskri fyrirmynd sem er í gildi milli finnska ríkisins og sveitarfélaganna í Finnlandi og hefur gefist þar mjög vel. Það hefur rutt úr vegi ýmsum misskilningi, sem oft vill koma upp milli aðila sem eiga að fara með stjórn þjóðmála í landinu, og ég hygg að þessi samningur, sem ég vona að verði samþykktur af báðum aðilum, ríkisstj. og Sambandi ísl. sveitarfélaga, eigi eftir að koma mörgu góðu til leiðar og stilla saman sveitarfélög og ríkisvaldið svo að stjórnað verði skynsamlegar ýmsum málum í þjóðfélagi okkar.