14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá hæstv. félmrh. að þetta frv. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga er fyrst og fremst lagt fram til að leiðrétta tölur og færa þær til þeirrar skattvísitölu sem er í gildi hverju sinni, leiðrétta ákveðna frádráttarliði eins og hér hefur komið fram. Í sjálfu sér er ekkert nema gott um það að segja og ég tel það vera í alla staði eðlilegt ef það er ætlunin að ríkisvaldið hafi áhrif á hvernig sveitarfélögin afla sinna tekna. Í sjálfu sér er kannske líka eðlilegt að ríkisvaldið hafi nokkurt eftirlit með því.

En fyrst farið er að ræða tekjustofna sveitarfélaga er það nú einhvern veginn þannig að ég gef ekki á mér setið að koma upp og minna örlítið á þann gífurlega fjárhagsvanda sem sveitarfélögin eiga í og hefur orðið til á undanförnum árum. Mig langar til að minna á það, sem raunar kom fram hjá félmrh. í umr. um tekju- og verkaskiptingu sveitarfélaga hér á dögunum, að fjárhagsvandi sveitarfélaganna hefur versnað gífurlega á s.l. árum. Á s.l. þremur árum hefur hann orðið þannig, að á árinu 1981 er talið að fjárhagsvandinn hafi versnað um einar 50 millj., á árinu 1982 er talið að fjárhagsstaðan hafi versnað um einar 150 millj. og á þessu ári er áætlað að fjárhagsstaða sveitarfélaganna hafi versnað um 400 millj. kr. Þetta þýðir að fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur á s.l. þremur árum versnað samtals um 600 millj. kr. Ég hygg að þetta séu tölur sem hafi verið staðfestar m.a. af Þjóðhagsstofnun. Við sjáum að þetta hlýtur að vera gífurlegur vandi — að vísu dálítið misjafn eftir sveitarfélögum, en eftir því meiri og eftir því verri og óviðráðanlegri sem sveitarfélögin eru minni.

Það kom fram hjá hæstv. félmrh. að hann bjóst ekki við því að sveitarfélögin þyrftu að reikna með heimild til að fá að leggja 10% á útsvar á næsta ári, eins og heimilað hefur verið undanfarin ár og sveitarfélög hafa nýtt sér. Þetta þýðir að enn þá verða þessi sveitarfélög að velta á undan sér vandanum og draga úr framkvæmdum og hætta er líka á að þau þurfi þá að draga úr þjónustu.

Við skulum aðeins hugleiða hvern er raunverulega helst verið að vernda með því að leyfa ekki 10% hækkun. Ég hygg að það séu einmitt þeir sem síst skyldi og þeir sem hafa hæstar tekjurnar. Þessir frádráttarliðir, sem hér er verið að ræða um að færa til núgildandi verðlags og við erum að tala um hérna í þessu frv. til laga, koma til frádráttar á útsvari hvort sem útsvarið er hátt eða lágt, þannig að þeir nýtast tiltölulega betur þeim sem hafa minni tekjur. Það er tiltölulega fljótlegt fyrir sveitarfélög að vinna sér upp þennan mismun í álagningu með því að hækka sínar gjaldskrár, með hækkun á þjónustugjöldum ýmiss konar, eins og þjónustu fyrir barnaheimili og þjónustu veitustofnana eins og hitaveitna, og auðvitað ekkert eftir því hvaða tekjur fólk hefur. Ég vil vekja athygli á þessu, að ég hygg að ef sveitarfélögin þurfa almennt að fara að grípa til þeirrar aðferðar til að tryggja sína tekjumöguleika komi það kannske verst niður þar sem síst skyldi.

Fyrst farið er að tala um skattheimtu á annað borð, skatta ríkis og sveitarfélaga, langar mig til að nefna það, að ég hygg að tekjustofnar sveitarfélaga byggist að meginstoðum til á lögum frá 1972 og hafi tiltölulega lítið breyst síðan að öðru leyti en því að þarna hefur orðið geysileg mismunun annars vegar í tekjuöflun ríkisins og hins vegar í tekjuöflun sveitarfélaganna. Mér er tjáð af fróðum mönnum að árið 1972 hafi Gjaldheimtan skilað til sveitarfélaganna 50% af sinni innheimtu og 50% til ríkisins. Á þessu ári er hins vegar reiknað með því að skil Gjaldheimtunnar verði 68% til ríkisins og 32% til sveitarfélaganna. Ég hygg að þetta sé besta dæmið um hvernig skattheimtan í landinu hefur þróast á undanförnum árum.

Hæstv. ráðh. gat hér um samráðssamning sem nú er verið að vinna að milli ríkis og sveitarfélaga. Um það mál hef ég ekkert nema gott að segja og fagna því að unnið skuli að gerð slíks samnings. Ég hygg að nauðsynlegt sé að hafa gott samráð milli annars vegar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstj. eða félmrn. hins vegar.