14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Í fjarveru formanns fjh.- og viðskn. óskaði hann eftir að ég hefði framsögu í þessu máli. Þetta frv. til l. um breytingu á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála er ekki mikið fyrirferðar hér á þessu frumvarpsblaði sem við höfum fyrir augum. Það fjallar fyrst og fremst um það að auka frjálsræði í gjaldeyrissölu og opnun gjaldeyrisreikninga, og að þetta nái til sparisjóðanna og póststjórnarinnar eftir því sem við getur átt.

Eins og við vitum öll eru sparisjóðirnir margir í landinu og margir vel stæðir og virtar bankastofnanir. Þeir leggja mikla áherslu á að fá þessi viðskipti til sín, sem er ekki óeðlilegt, því á mörgum stöðum í landinu er mikið óhagræði að því m.a. vegna vaxandi ferðamannastraums að fólk á í erfiðleikum með að skipta bæði ferðatékkum og öðru slíku. Einnig getur fólk sem ætlar að ferðast til útlanda þurft að gera sér ferð utan af landi hingað til Reykjavíkur til að ná í sinn gjaldeyri áður en það leggur af stað í ferðina. Með þessu frv., ef að lögum yrði, væri aukin þjónusta við þá aðila sem á þessum stöðum búa. Einnig færist það í vöxt að menn komi með eitthvað af sínum gjaldeyri til baka og vilja þá eiga það á vöxtum inni í bók í sínum sparisjóði. Fyrir þetta tvennt má segja að þarna sé opnaður möguleiki.

Fjh.- og viðskn. fjallaði um þetta mál og lauk sinni afgreiðslu í morgun. Eru allir nm. sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt.