14.12.1983
Neðri deild: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur verið sagt hér að það mál sem nú er til umr. væri líklega mikilvægara og gæti ráðið meira um næstu framtíð íslensku þjóðarinnar en nokkurt annað mál sem hér hefur verið til meðferðar um langt árabil. Því er eðlilegt að þm. almennt vilji tjá sig.

Ég lít ekki á þetta frv. sem frv. um stjórnun á fiskveiðum næsta ár. Þetta frv. er í raun og veru einvörðungu um að Alþingi samþykki óútfyllta ávísun ráðh. til handa til að stjórna eins og hann telur best fara. Ég hef verið og er enn andstæður því að Alþingi afsali sér því valdi sem það á að hafa, ekki síst í afgerandi málum eins og þessu.

Miðað við það ástand sem virðist vera að því er varðar fiskveiðar okkar Íslendinga er kannske eðlilegt að menn hlaupi upp til handa og fóta og samþykki hvað sem að garði ber hverju sinni. Engan efa hef ég uppi um að hér stöndum við frammi fyrir miklum vandamálum. Um það hygg ég að allir séu sammála að vandinn er mikill. Spurningin er hvernig skuli við honum bregðast á þann veg að sem réttlátast komi niður. Ég held að ekki verði fram hjá því gengið eða undan því vikist, að vilji hæstv. sjútvrh., sem ég tel nú raunar furðulegt, fá slíkt vald í hendur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, gefi hann þingheimi a.m.k. grófar hugmyndir um hvernig hann hyggst á næsta ári fara með þetta mikla vald í stjórnun fiskveiða.

Ég vil ekkert segja fyrir fram um þær hugmyndir sem uppi eru nú og hvað mest eru umtalaðar um kvótaskiptingu, þær hugmyndir sem t.d. Fiskiþing samþykkti nýlega. Ég vil á engan hátt fordæma þær eða segja að þær séu það versta sem hægt er að grípa til miðað við aðstæður. En ég held að nauðsynlegt sé að þm. fái að sjá í grófri útfærslu hvað t.d. það kvótakerfi sem Fiskiþing samþykkti mundi þýða yrði því beitt. Hér er auðvitað um að ræða spurningu um hvernig t.d. einstök landsvæði, einstök byggðarlög, mundu verða úti ef til slíkrar stjórnunar yrði gripið. Ég held að það verði ekki undan því vikist að fulltrúar þessara landsvæða hér á Alþingi krefjist svara um hvað slík stjórnun hefði í för með sér fyrir þau byggðarlög eða landsvæði sem þannig eru sett að t. 1. 84–90% af öllu vinnandi fólki í viðkomandi byggðarlagi byggir afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu. Þýðir væntanlegt kvótakerfi, ef á yrði sett, t.d. að byggðarlög sem þannig eru sett sjái fram á atvinnuleysi? Ég minni menn á að í sumum landshlutum er ekki um nein önnur atvinnutækifæri að ræða en sem snúa að fiskveiðum og fiskvinnslu, þannig að þar er ekki í önnur hús að venda að óbreyttu ástandi. Þá þurfa breytingar að koma til á öðrum sviðum og þær eru vandséðar í sumum byggðarlögum úti á landi. Þá á ég kannske fyrst og fremst við Vestfirði. Þeir eru svo til eini landshlutinn sem aldrei er minnst á t.d. í sambandi við ný atvinnutækifæri í iðnaði eða öðru slíku. Orkufrekur iðnaður verður ekki þar. (Gripið fram í.) Nú, hann er svona. Hvað sem mönnum finnst um svona sjónarmið, og líklega koma einhverjir hér upp á eftir og telja þetta hreppapólitík eða eitthvað slíkt, byggja menn á þessum atvinnurekstri og þessari atvinnugrein og þjóðarbúið byggir á henni ekki hvað síst. Menn skulu því ekki hafa það neitt í flimtingum, þó að hæfir séu margir hverjir og útnefndir verði til ráðherrastarfa, komi að því einhvern tíma að flokkurinn fái slíkt í hendur.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að víðast hvar um landið er líklega vöngum velt yfir því hvað slíkt ástand, eins og hér er um talað, kynni að hafa í för með sér að því er varðar atvinnu fólks. Ég hef t.d. í höndum nýlega samþykkt frá almennum borgarafundi vestur á patreksfirði, þar sem menn vara mjög við hugmyndum af þessu tagi og telja að ef eftir þriggja ára reglu yrði farið sem menn eru að tala um, þýddi það verulegan samdrátt í fiskveiðum þar, sem jafnframt mundi þýða atvinnuleysi ef ekkert annað kæmi í staðinn.

Það getur ekki verið að hæstv. sjútvrh. ætlist til þess af þm. almennt að þeir samþykki hér eitthvað sem þeir hafa ekki hugmynd um hvernig verður eða hvaða afleiðingar kann að hafa á næsta ári, ef menn miða við að það gildi ekki nema fyrir næsta ár.

Nú má vel vera að frekari upplýsingar hafi komið fram nú þegar í sjávarútvegsnefndum þingsins, en þó að svo sé tel ég það ekki nægjanlegt vegna þess að í þessu máli bresta flokkslínur. Hér verður ekki um að ræða afstöðu til þessa máls eftir pólitískum línum. Ég hygg að hér verði menn þvers og kruss og hér hljóti önnur sjónarmið að vega meira en þau pólitísku.

Ég tók eftir því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem hér talaði þegar þetta mál var síðast á dagskrá, hafði ærið mikið við svona stjórnun að athuga. Hann sagði hér held ég orðrétt, með leyfi forseta, að með slíkri stjórnun væri verið að setja allar fiskveiðar undir skömmtunarkerfi eins manns. Og raunar bætti hann við: Ekki bara fiskveiðar heldur hlyti í kjölfarið á því að koma samhliða skömmtunarkerfi í fiskvinnslu. Ég held að ljóst sé að slíkt hlýtur að haldast í hendur, ef farið er inn á þessar brautir með stjórnun og skömmtunarkerfi, sem er gerbylting að því er okkar fiskveiðar og fiskvinnslu varðar, því að hér er um að ræða, verði að þessu horfið, 100% skipulagningu veiða og vinnslu.

Allt þetta kemur upp út af því að menn tala nú um 200 þús. tonna þorskafla á árinu 1984. Ég er ekki í neinum vafa um að þorskaflinn á árinu 1984, veiddur eða leyfður, verður á bilinu frá 240–260 þús. tonn. Kannske er vandinn því ekki eins mikill og menn telja nú að hann kunni að verða, þegar menn ganga út frá 200 þús. tonna veiðimarkinu.

Ég vil undirstrika það sérstaklega og beina því til hæstv. ráðh., að ég er á engan hátt, og tek það sérstaklega fram, að vantreysta honum sem slíkum, en svo mikið vald, eins og hér er um beðið í hendur einum einstaklingi, er að mínu viti um of, hversu vel gerður sem sá hinn sami einstaklingur annars kynni að vera. Ég óska því eindregið eftir, að áður en til þess er ætlast að þm. taki afstöðu til þessa máls upplýsi hæstv. ráðh. þingheim um það í grófum dráttum með hvaða hætti hann hyggst beita því valdi sem hann er hér um að biðja. Öðruvísi treysti ég mér a.m.k. vart til að taka afstöðu til þessa máls, svo mikilvægt sem ég álít það. Og ég ítreka að menn skulu hafa það í huga og ígrunda það vel hvað þetta kann að þýða fyrir hin ýmsu landsvæði þar sem allt að 90% vinnandi fólks vinna við fiskveiðar og fiskvinnslu. Ekki verður þar um að ræða að menn lifi góðu lífi á atvinnuleysisbótum eða styrkjum í ljósi þess sem nú á að gerast hér á Alþingi að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég held því að það sé eins gott að menn líti til fleiri átta í þessu máli.

Ég ítreka að ég afskrifa á engan hátt þær hugmyndir sem menn hafa uppi nú, að þær séu verri en hverjar aðrar né þá betri, en ég held að það sé grundvallaratriði að menn viti hvað þeir eru að samþykkja, ef til þess kemur, sem kannske er líklegt að verði, að menn standi frammi fyrir því innan fárra daga að þurfa að taka afstöðu til svo gífurlega stórs máls eins og hér er á ferðinni.