15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil hér mæla fyrir till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna. Meðflm. mínir eru hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Þáltill. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sovétríkin og Bandaríkin lýsi yfir tafarlausri frystingu kjarnorkuvopna, annaðhvort með samtíma, einhliða yfirlýsingum eða með sameiginlegri yfirlýsingu. Slík yfirlýsing yrði fyrsta skref í átt að yfirgripsmikilli afvopnunaráætlun sem felur í sér:

1) Allsherjarbann við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna. Enn fremur algjöra stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna til vopnanotkunar.

2) Frystingu sem er háð öllum þeim aðferðum til sönnunar og eftirlits sem þegar hafa verið samþykktar af málsaðilum í SALT I- og SALT II samningunum auk þeirra aðferða sem þeir hafa samþykkt í grundvallaratriðum í þríliða undirbúningsviðræðum í Genf um algjört bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

3) Frystingu sem gildir í fimm ár til að byrja með en gæti orðið lengri ef önnur kjarnorkuveldi slást í hópinn eins og vonir standa til.“

Með þessari till. er eftirfarandi grg. sem ég vil lesa með leyfi forseta:

„Augu æ fleiri stjórnmálamanna eru að opnast fyrir þeirri staðreynd að kjarnorkuvopn eru ekki nothæf til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum né heldur er hægt að nota slík vopn til að öðlast hernaðarlega yfirburði vegna þess að ekki er hægt að nýta þau til hernaðarsigurs.

Eðli vopnanna og gjöreyðingarmáttur er slíkur að ekki er hægt að beita þeirri hernaðarlist og hugsunarhætti sem þróast hefur um hefðbundin vopn. Veröld okkar stendur því á barmi hyldýpis þar sem mannkynið býr nú yfir tækniþekkingu til að tortíma sjálfu sér. Kjarnorkustyrjöld mundi deyða hundruð milljóna manna á augabragði. Heimsmenningin yrði lögð í rúst og framtíð þeirra, sem kynnu að lifa af, væri ótrygg ef nokkur. Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða, sem Bandaríkin og Sovétríkin eiga nú, er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn af hvaða gerð sem er, gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði.

Í þessu efni eru hagsmunir og velferð Íslands og alls heimsins sameiginleg, þ.e. að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt. Jafnframt er það skylda Íslands eins og allra annarra þjóða að leggja sitt af mörkum til að tryggja lausn þessa ógnarlega vanda.

Stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, eru komin í sjálfheldu og halda jafnframt stórum hlutum heimsbyggðarinnar í gíslingu með viðkvæmu og ótryggu ógnarjafnvægi. Óstöðugleiki þessa jafnvægis vex eftir því sem tækni hinna nýju vopna verður þróaðri og má sem dæmi nefna að nú er svo komið að einungis sex mínútur gefast til umhugsunar og ráðrúms til að bregðast við kjarnorkueldflaugum af Pershing II-gerð en þeim er ætlaður staður í Evrópu. Þetta minnkandi svigrúm og stirðar samningaviðræður um afvopnunarmál valda því að spenna í samskiptum stórveldanna fer vaxandi og eykur sífellt hættuna á kjarnorkuátökum.

Þessi tillaga miðar að því að hindra frekari vopnasöfnun. Hún er jafnframt tilraun til að draga úr þessu hættuástandi og rjúfa þennan vítahring.“

Flm. þessarar till. vænta þess að henni verði vel tekið af Alþingi og af þeim sem í henni er skorað á. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en vil þó minna alla þm. á þær áskoranir sem þeim hafa borist frá ýmsum hópum í þjóðfélaginu sem bera þessi mál mjög fyrir brjósti. Að svo mættu vil ég vísa till. til hæstv. utanrmn.