15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt þá hafa verið lagðar fram á þessu þingi þrjár aðrar till. er fjalla um afvopnun og þeim hefur verið vísað til utanrmn. Með tilvísun til þess sem hæstv. forseti sagði um það að freistað yrði að koma þessari till. umræðulaust eða umræðulítið til n., og það get ég vel fallist á, tel ég ekki ástæðu til að fjalla um efni till. að þessu sinni.

Á fundi utanrmn. í morgun voru hafnar umræður um þær þrjár till. sem komnar eru til n. og raunar að nokkru leyti um efni þessarar till. Það var mál nm., að því er mér skildist, að þess skyldi freistað að samræma sjónarmið þm. eins og unnt væri í þessum málum. Ég vænti þess að það muni takast.