15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í þeim orðum sem ég hef talað hér við þessa umr. hef ég takmarkað mig við að ræða formhlið málsins vegna þeirra orða hæstv. forseta að leitast væri við að koma till. þeirri sem hér er til fyrri umr. til nefndar umræðulaust eða umræðulítið. Nú hafa formælendur Alþb., hv. þm. Svavar Gestsson og einkum Ólafur Ragnar Grímsson, brotið í móti þeirri ósk eða þeirri ábendingu sem kom fram úr forsetastóli að þessu leyti og þar með gert sitt til að spilla fyrir að unnt væri að koma þessari till. til nefndar svo að unnt væri í n. að fjalla sameiginlega um þær fjórar afvopnunartillögur sem á þingi hafa verið fluttar að þessu sinni. Það eitt út af fyrir sig sýnir áhuga þessara hv. þm. á því að leitast við að ná samstöðu þm. um afvopnunarmál og samræma afstöðu þeirra.

Ég held að það verði ekki dregin önnur ályktun af þessum málflutningi Alþb.-manna en að þeir vilji ekki missa glæpinn sinn. Þeim er meira umhugað um að efna til úlfúðar og deilna um þessi viðkvæmu og mikilvægu mál fyrir Íslendinga og allar þjóðir heimsins en að leggja sig jákvætt fram til þess að samstaða náist. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. En það er alveg óhjákvæmilegt með tilvísun til þessa málflutnings og þeirra árása sem þessir málsvarar Alþb. hafa talið sér sæma að hafa í frammi að svara nokkrum þáttum þess málflutnings efnislega eins og þeir höguðu sínum málflutningi.

Ég vil þá fyrst víkja að afstöðu þeirri er Íslendingar hafa haft á vettvangi Atlantshafsbandalagsins að því er snertir hina tvíþættu ákvörðun Atlantshafsbandalagsins í des. 1979 og meðferð Atlantshafsbandalagsins á framkvæmd þeirrar till. síðan. Ég vek athygli á að hin tvíþætta samþykkt Atlantshafsbandalagsins um að svara þeim aðgerðum Sovétmanna að setja niður SS-20 meðaldrægar eldflaugar í Evrópu með skotmörk í Vestur-Evrópu með því annars vegar að óhjákvæmilegt væri til mótsvörunar að setja niður bandarískar meðaldrægar eldflaugar og hins vegar að fá Sovétmenn að samningaborðinu til þess að leitast við að draga úr kjarnorkuvígbúnaði í Evrópu var gerð með vitund íslensku ríkisstjórnarinnar þáv., sem var minnihlutastjórn Alþfl. Vegna nýafstaðinna kosninga hér á landi gat þáv. utanrrh. Benedikt Gröndal ekki sótt þennan fund Atlantshafsbandalagsins, en fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu Henrik Sv. Björnsson gerði grein fyrir afstöðu Íslendinga þá. Síðan hafa verið haldnir margir ráðherrafundir Atlantshafsbandalagsins og þá hafa sótt fyrrv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson og ég. Ég hygg að við höfum allir þrír borið ábyrgð á því að Íslendingar eru sem þátttökuríki í Atlantshafsbandalaginu aðili að þessari tvíþættu ákvörðun bandalagsins í des. 1979, en við höfum tekið það skýrt fram eða á vegum okkar þriggja hefur verið tekið skýrt fram, að Íslendingar hefðu sérstöðu sem hafandi ekki sjálfir her og takandi fram þann skýra fyrirvara að við mundum ekki leyfa eldflaugar á okkar landi eða kjarnorkuvopn. Með þessum fyrirvara höfum við verið aðilar að þessari tvíþættu ákvörðun Atlantshafsbandalagsins. Og það er algerlega rangt að henni samfara fylgi aukning kjarnorkuvígbúnaðar í Evrópu. Það er algerlega rangt, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði, að þessari tvíþættu ákvörðun Atlantshafsbandalagsins fylgdi aukinn kjarnorkuvígbúnaður í Evrópu vegna þess að samhliða þeirri ákvörðun ákváðu Atlantshafsbandalagsríkin einhliða að leggja niður þúsund kjarnavopn 1980 og nú nýverið því til viðbótar 1400 kjarnavopn. Þessu samfara er það og ákveðið að fyrir hverja eldflaug sem sett er upp af hálfu Atlantshafsbandalagsins muni verða lagt niður kjarnorkuvopn í staðinn. Heildaráhrif þessa eru að kjarnorkuvígbúnaður Atlantshafsbandalagsins dregst saman um 1/3. En tilgangur bandalagsins með því að setja niður meðaldrægar kjarnaeldflaugar er sá að hafa einhverja svörun við niðursetningu meðaldrægra eldflauga Sovétríkjanna, sem hafa nú verið settar niður 369 talsins með þrem kjarnaoddum hver. Þetta er sannleikur málsins og meðan sovétríkin settu niður vikulega eina eldflaug eða yfir 50 eldflaugar á ári hreyfðu málsvarar Alþb. ekki legg né lið. Þeir tóku það í raun og veru sem sjálfsagðan hlut. Ég verð að segja það, að við Íslendingar, sem viljum ekki kjarnorkuvopn á okkar landi, hljótum þó að taka tillit til þess ef önnur ríki í Vestur-Evrópu telja öryggi sínu nauðsynlegt að hafa á sínu landi vopn til svörunar eða mótvægis þeim sem Sovétríkin hafa verið svo iðin við að setja niður og það sé að þessu leyti ekki síst á valdi þeirra ríkja hvaða ráðstafanir þau gera til verndar öryggi sínu. Ég vek athygli á því, að Atlantshafsbandalagsríkin hafa boðið það fram hvað eftir annað að allar meðaldrægar eldflaugar í Evrópu væru fjarlægðar, en því tilboði hefur verið hafnað. Þetta er nauðsynlegt að fram komi þegar því er haldið fram að Íslendingar standi að auknum vígbúnaði og séu vígbúnaðarmegin í stað þess að vera í hópi friðelskandi þjóða.

Við vitum það vel, Íslendingar, að við höfum aldrei haft áhuga á því og ég hef ekki heyrt neinn nefna það á nafn að við hvettum til aukins vígbúnaðar. Og þeir sem halda því fram — hvað þá heldur aukins kjarnorkuvígbúnaðar — vinna ekki málstað Íslands gagn. Þeir sem vilja koma þeim stimpli á afstöðu Íslendinga að þeir séu vígbúnaðarmegin en ekki friðarmegin eru ekki friðelskandi sjálfir. Þetta er ekki heiðarlegur málflutningur.

Það er frá því að segja að auðvitað er innan Vestur-Evrópuþjóða mismunandi afstaða til ýmissa mála. Okkur er kunnugt um að Grikkir telja sig bundna miðað við kosningaloforð Papandreos að hafa nokkurn fyrirvara varðandi hernaðarsamvinnu innan Atlantshafsbandalagsins og á þeim grundvelli byggist fyrirvari Grikkja. En það er engin þjóð í Evrópu, sem telst til Atlantshafsbandalagsins, sem ver hlutfallslega jafnhárri upphæð til vígbúnaðar miðað við þjóðarframleiðslu en Grikkir, þannig að ég held að við Íslendingar stöndumst fyllilega samanburð við þá ef mælikvarðinn á friðarást er í öfugu hlutfalli við framlag til vígbúnaðar.

Þá vita menn og að það eru fyrst og fremst innanlandsaðstæður í Danmörku sem valda því að Danir hafa breytt um stefnu frá því sem áður var að því er snertir hina tvíþættu ákvörðun Atlantshafsbandalagsins frá des. 1979. Og ég vek athygli á í því sambandi, að þar er ekki um það að ræða að Danir séu að hverfa frá þeirri ákvörðun, heldur að þeir vilja fresta frekari niðursetningu bandarískra eldflauga um takmarkaðan tíma. Það er allt og sumt enn sem komið er.

Þá er rétt að geta þess að fyrirvari Spánar byggist á því að spænska ríkisstjórnin sem nú situr hafði lofað því fyrir kosningar að fram færi þjóðaratkvgr. um áframhaldandi þátttöku Spánverja í Atlantshafsbandalaginu. Meðan sú þjóðaratkvgr. hefur ekki farið fram og aðild Spánverja er þannig til endurskoðunar þar í landi, þá telja Spánverjar sig ekki þess umkomna að taka afstöðu í slíkum málum. Þeir segja hvorki til né frá að öðru leyti. Þeir sitja með þessum hætti hjá varðandi þessar ákvarðanir. Þess vegna hygg ég að það sé ekki heldur samanburðargrundvöllur á afstöðu þeirra og okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Ég get skotið því hér inn í að sósíalistaflokkar, bæði í Portúgal, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, sem annaðhvort Alþb. eða aðrir sem hafa sósíalisma á stefnuskrá sinni hér á landi hafa talið til sinna skoðanabræðra, hafa tekið mjög ákveðna afstöðu að nauðsynlegt væri að bandarískar eldflaugar væru settar niður í Vestur-Evrópu þótt breskir verkalýðsflokksmenn og þýskir sósíaldemókratar hafi breytt afstöðu sinni, eða einkum hinir síðar nefndu, því að meðal breska verkamannaflokksins voru ávallt hópar sem voru mótfallnir því, en aftur á móti varla til í Vestur-Þýskalandi. Ég skal engum getum að því leiða og það á tæpast erindi hér í umr. á þingi hvað valdi þessari breyttu afstöðu verkamannaflokksins í Bretlandi og sósíaldemókrata í Vestur-Þýskalandi, en það gæti þó verið umhugsunarefni.

Ég rek þetta hér til að sýna fram á að við Íslendingar getum vel borið höfuðið hátt varðandi afstöðu okkar innan Atlantshafsbandalagsins og ég undirstrika að framkoma mín og afstaða á þeim tveim ráðherrafundum sem ég hef sótt sem utanrrh. Íslands er í beinu framhaldi af afstöðu forvera minna; Benedikts Gröndals og Ólafs Jóhannessonar, og um það hefur verið samstaða meðal þeirra flokka sem hafa borið ábyrgð á ráðherrastörfum okkar þremenninganna.

Vegna þess að það hefur einnig komið hér til umr. í tengslum við afstöðu Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að ég hafi tafið málsmeðferð hér á Alþingi Íslendinga hlýt ég að ítreka mótmæli mín við slíkri ásökun. Ég hef ekki hreyft litla fingur til að tefja meðferð mála hér á Alþingi að þessu leyti. Ég hlýt og að taka það fram að miðað við þær upplýsingar sem ég hef um afstöðu landa til till. Mexíkó og Svíþjóðar á þingi Sameinuðu þjóðanna, þá er það svo að í afgreiðslu nefndar greiða Íslendingar og Danir alveg nákvæmlega eins atkv. um þessa till. Mexíkó og Svíþjóðar, þ.e. bæði löndin, Danmörk og Ísland, sátu hjá í afgreiðslu nefndarinnar. Ég hef ekki farið leynt með það, hvorki aðspurður hér á fundi Sþ. né heldur í utanrmn., að ég bæri ábyrgð á því að Ísland greiddi atkv. með sama hætti og var fyrir ári og forveri minn þá bar ábyrgð á. Ég hef ekki heldur farið leynt með að ég mundi halda fast við þá afstöðu þegar till. kæmi til atkvgr. á allsherjarþinginu sjálfu og ég teldi ekki tilefni til að breyta afstöðunni innan þriggja vikna eða svo sem líða á milli afgreiðslu í nefnd og afgreiðslu allsherjarþings. Þetta vissu þm. og utanrmn.-menn.

Þannig er það alrangt, hvort tveggja, að ég hafi tafið málsmeðferð hér á þingi eða farið á bak við þm. hvernig atkv. Íslands mundi falla. Efnislega tel ég till. Mexíkó og Svíþjóðar þannig úr garði gerða að við þyrftum að fá á henni breytingar til að greiða atkv. með henni. Og ég tek fram að mér finnst sjálfsagt að utanrmn. fari yfir þær tillögur sem liggja fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna og fluttar hafa verið lið fyrir lið. Þær eru þrjár talsins, frá Mexíkó og Svíþjóð, frá Sovétríkjunum og frá Indlandi. Í það minnsta eru það þessar þrjár sem ég hef undir höndum. Og á grundvelli þeirra og umr. sem af þeim munu spinnast í utanrmn., sem og á grundvelli þeirra tillagna sem fluttar hafa verið hér á Alþingi Íslendinga og með tilvísun til forsögu málsins og núverandi aðstæðna í heiminum, þá hljótum við að freista þess í lengstu lög í utanrmn. og hér á þingi að ná saman og marka stefnu Íslands með þeim hætti að Íslandi sé sómi að, með þeim hætti að nokkurt gagn geti orðið að framlagi Íslands á alþjóðavettvangi. Það er að vísu takmarkað hvað Íslendingar gefa áorkað á alþjóðavettvangi, en við eigum ekki að vera afskiptalaus í þeim efnum. Öryggishagsmunir okkar og verndun sjálfstæðis krefst þess að við séum vakandi í alþjóðamálum og einmitt þess vegna höfum við gerst aðilar að Atlantshafsbandalaginu og tekið afstöðu gegn kúgunaröflum hvar sem þau birtast og í hvaða mynd sem þau koma fram.

Ég hef talið nauðsynlegt, herra forseti, að gera grein fyrir þessum málum eins og þau standa nú. Ég vil aðeins að lokum segja það sem ég sagði þegar fyrir mörgum dögum, strax og þessar umr. hófust, að ég teldi þetta mál svo margbrotið að við gætum sjálfsagt ekki komist að niðurstöðu, ef fyrir okkur vekti að ná saman og samræma sjónarmið okkar, á þeim skamma tíma sem er til þinghlés nú um jólin. Ég tel það ekki raunsætt mat að ætlast til þess. En hins vegar er málið þannig vaxið, að við eigum að gefa okkur góðan tíma til þess að leitast við að ná þeirri samstöðu. Ef hún — mót von vinni — næst ekki er það líka réttmæt krafa til Alþingis af hálfu þjóðarinnar að skoðanamunur sé svo skýr að þjóðin geti gert sér grein fyrir í hverju skoðanamunurinn sé fólginn og á grundvelli þess gert upp við sig hvaða sjónarmiðum hún vill leggja lið.