15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ræða mín skal verða stutt.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði orð sem ég sagði í sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld hér að umtalsefni, þar sem ég lýsti því yfir að fundur yrði í utanrmn. morguninn eftir, þ.e. í gærmorgun, og hv. þm. notaði þessi orð mín sem árásarefni á hæstv. utanrrh. og utanrmn., sagði að enn væri verið að tefja afgreiðslu þessa máls. Ég skal viðurkenna að ég sagði meira en ég mátti í þessu viðtali. Viðtalið var tekið þegar eftir að ég kom af fundi með forsetum og formönnum þingflokka, þar sem ákveðið var að menn beittu sér fyrir fundi í utanrmn. Það reyndist hins vegar ekki hægt, eins og hv. formaður n. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur lýst, og það var fullkomið samkomulag um að fundurinn skyldi verða kl. 9 að morgni fimmtudags. Þetta hefur verið útskýrt.

En það er tvennt sem vekur mér furðu við þessa umr. hér í dag. Annað er það, að menn skuti ekki geta haldið sig við það samkomulag sem gert var á fundi forseta og formanna þingflokka í fyrradag um að þessi till., sem hér er til umr., gæti gengið til nefndar umræðulaust. Og hitt er það, hversu mikill munur er á umræðunni hér í dag á hv. Alþingi og á umr. sem varð í morgun á fundi hv. utanrmn.

Þáttur Alþb. í umr. í dag er með alveg sérstökum hætti. Mér sýnist hv. þm. Alþb. leggja sig fram um að eyðileggja þann möguleika á samstöðu um eina ályktun á Alþingi í þessum mikilvæga málaflokki sem mátti ætla eftir umr. í utanrmn. í morgun að gæti náðst. Mér þykir þessi málflutningur Alþb.-manna vera sönnun þess, að í raun og veru kæri þeir sig ekkert um samkomulag og mér sýnist líka að þeir hv. þm. hafi lítinn áhuga á að leggja því lið að þessi till. komist til hv. utanrmn. Ég lýsi furðu minni á þessum vinnubrögðum og vonbrigðum með þann farveg sem umr. hefur farið í og ég lýsi jafnframt ábyrgð á hendur Alþb.-mönnum í þessu máli öllu. (SvG: Þú ert að greiða fyrir þingstörfum greinilega.) sjálfstæðismenn munu þrátt fyrir þetta leggja sitt af mörkum til að ná sem víðtækastri samstöðu um ályktun hér á hv. Alþingi um þetta mikilvæga mál. En það hefur sjálfsagt verið óraunhæf bjartsýni að halda að Alþb. mundi nokkru sinni vilja taka þátt í slíkri tilraun.