15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti setti fram þá ósk að reynt yrði að hafa þessar umr. stuttar. Þm. hafa yfirleitt orðið við því. Þó hefur hæstv. utanrrh. talað hér tæplega fjórum sinnum lengra mál en nokkur þm. (Utanrrh.: Ekki nema að gefnu tilefni frá hv. ræðumanni.) Það er út af fyrir sig rétt að ég fór nokkrum orðum um þær staðreyndir hvernig Ísland hefði greitt atkv. og beindi síðan fsp. til hæstv. forsrh. Ég beindi engri fsp. til hæstv. utanrrh. Það var hans eigið frumkvæði að koma hér í ræðustól og fara að þylja þá vígbúnaðarþulu sem hann þuldi hér, sem var náttúrlega samfelldur rökstuðningur fyrir því hvers vegna hæstv. utanrrh. telur bráðnauðsynlegt að setja upp stýriflaugar og pershing-II eldflaugar í Evrópu.

Síðan kemur hér hv. þm. Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks Sjálfstfl. (Forseti: Það er aðeins leyfilegt að ræða um þingsköp) Nú, ég er að koma að því, herra forseti. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að koma umsvifalaust að því.) Herra forseti. Hv. þm. gefa sér þann tíma sem þeir telja sig þurfa til að rökstyðja kröfur sínar um þingsköp, einkum og sér í lagi þegar hæstv. forseti kaus, eftir hörðustu ásakanir sem hafa verið fluttar af formanni þingflokks í garð annars þingflokks hér í þinginu, að fresta umr. án þess að sá þingflokkur hefði möguleika til að bera hönd fyrir höfuð sér eða verja sig gagnvart þeim ásökunum sem formaður þingflokks Sjálfstfl. flutti. Hæstv. forseti ætlaði að ljúka umr. og ég hafði ekki kvatt mér hljóðs þrátt fyrir mjög ítarleg tilefni af hálfu utanrrh. og forsrh. og hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. (EKJ: Sjáðu sóma þinn í að leyfa málinu að komast til nefndar.) Það fer allt eftir því hvernig þessir svokölluðu sjálfskipuðu fulltrúar lýðræðis og almennra mannasiða hérna í þinginu haga sér í ræðustól. Þegar formaður þingflokks Sjálfstfl. gerir sér sérstakt erindi upp í ræðustólinn... (Forseti: Nú er ætlast til þess að það ljúki senn umr. um þingsköp.) Herra forseti. Ef hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefði ekki verið með þetta frammíkall hefði ég þegar verið kominn að því sem ég ætlaði að segja. Það er æskilegt að forseti beini þeim tilmælum til þm. að ég fái að hafa orðið hérna í friði.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson kemur upp í ræðustólinn og hefur uppi alvarlegustu ásakanir gagnvart þingflokki sem ég hef heyrt formann þingflokks flytja í langan tíma. Það er alveg ljóst, herra forseti, að eftir þá ræðu geta hvorki forsetar þingsins né forsvarsmenn ríkisstj. vænst eðlilegs samstarfs hér í þinginu. Hér hafa menn ekki kvatt sér hljóðs, t.d. ýmsir þm. Alþb., til að hjálpa forseta við að koma þessu máli til nefndar. Síðan misnotaði hv. þm. Ólafur G. Einarsson málfrelsið hér úr ræðustól til að ausa svívirðingum yfir þingflokk Alþb. Þess vegna, herra forseti, mælist ég til þess með þessum rökstuðningi að herra forseti reyni að stuðla að því að þetta mál komist til nefndar. Við fáum annaðhvort síðar í dag og helst síðar í dag eða þá mjög fljótlega innan þessarar klukkustundar, tækifæri til að ræða þá hluti sem hér hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh. og hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, formanni þingflokks Sjálfstfl. Það er óhjákvæmilegt, ef það á að vera hægt að verða við óskum forseta um að koma þessu máli til nefndar, að þannig verði haldið á málum að síðar í dag gefist á fundi tækifæri til að ræða þessi mál.