15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

125. mál, aðgerðir gegn innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þm. úr öllum flokkum að flytja till. til þál. sem fram kemur á þskj. 160 um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa mörg orð um þessa till. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta mál hefur nú á undanförnum dögum fengið nokkuð ítarlega umfjöllun hér á hv. Alþingi og í þeim umr. hefur greinilega komið fram mikill vilji til að gera átak í þessum málum. Vísa ég þá til tveggja fsp. í s.l. viku um þessi mál, er lutu báðar að fræðslu um skaðsemi ávana- og fíkniefna, svo og fsp. um hugmyndir dómsmrh. um aðgerðir til að efla toll- og löggæslu og allar rannsóknaraðferðir og eftirlit til að fyrirbyggja dreifingu og ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins. Því ættu ekki að þurfa að verða nú langar umr. um þetta mál.

Í öðru lagi vil ég ekki tefja tíma Sþ. með langri ræðu um þetta mál þar sem ég legg mikla áherslu á að mál þetta komist sem allra fyrst til nefndar og afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Vil ég því þakka hæstv. forseta það tækifæri, sem ég hef fengið til að mæla fyrir þessari þáltill. þó um sé að ræða 22. mál á dagskrá þessa þings í dag.

Formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Eiður Guðnason, hefur á fundi með forsetum og formönnum þingflokka fyrir hönd þingflokks Alþfl. lagt áherslu á að mál þetta fái fullnaðarafgreiðslu á þingi fyrir jólahlé þm. Ég tel raunhæft að ætla að svo geti orðið, einkum með tilliti til þess að flm. þessarar þáltill. eru 12 þm. úr öllum flokkum þannig að ætla má að víðtæk samstaða sé hér á hv. Alþingi um efni þáltill.

Ég tel, herra forseti, að okkur hv. þm. sé ekki stætt á því að leggja ekki okkar af mörkum til að tafarlaust verði tekið á þessu máli með fyrirbyggjandi aðgerðum til að hefta útbreiðslu og ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins og að hver vika skipti máli í því sambandi að tekið sé á þessu máli til að forða einstaklingum og þjóðinni í heild frá því að þessi þjóðfélagsmeinsemd fái búið um sig hér á landi meira en orðið er. Ég tel að af máli hæstv. dómsmrh. í s.l. viku megi ráða að hans hugmyndir í þessu máli falli nokkuð vel að þeim hugmyndum sem lagðar eru til í þessari till. og að það hljóti því að vera mikill stuðningur fyrir öll áform dómsmrh. í þessu máli að fá samþykkta viljayfirlýsingu Alþingis um leiðir til úrbóta.

Á Alþingi og í fjölmiðlum hafa komið fram ógnvekjandi tölur sem gefa sterka vísbendingu um gífurlega neyslu ávana- og fíkniefna, svo og hvað mikið magn sé í umferð af þessum efnum og aðeins brot af því náist og sé gert upptækt af toll- og löggæslu. Ég tel ekki ástæðu til að rifja þær tölur upp nú enda koma þær glögglega fram í grg. þessarar þáltill., svo og fskj. með henni.

Afleiðingar fíkniefnaneyslu ættu líka öllum að vera ljósar, en neysla þessara efna getur eyðilagt líf fjölda ungmenna ef ekki verður brugðist við með skjótum hætti. Fylgifiskur þess eru líka aukin afbrot í margs konar mynd. Reynsla nágrannaþjóða okkar í Vestur-Evrópu talar þar skýrustu máli eins og komið hefur fram í margföldun afbrota og í formi rána og manndrápa og ekki síður þeirra þúsunda sem vistaðir eru á sjúkrahúsum vegna fíkniefnaneyslu.

Auðvitað fylgir því nokkur kostnaður að efla toll- og löggæslu og efla allar rannsóknaraðferðir, þjálfun og að auka við tækjabúnað. En ég spyr: Hvað getur það ekki kostað þjóðfélagið ef ekkert verður gert og afleiðing þess verður stóraukinn kostnaður við alla heilbrigðisþjónustu, að ekki sé talað um það sem ekki er hægt að mæla í peningum og ekkert getur bætt, þ.e. eyðilegging á lífi kannske tuga ef ekki hundraða ungmenna í þessu landi?

Herra forseti. Ég sagði í upphafi míns máls að ég ætlaði að vera stuttorð og við það skal ég standa. Í hnotskurn er innihald þessarar till. að samhæfa alla þá starfskrafta sem málum þessum eiga að sinna og að endurskipuleggja allar aðgerðir og allar rannsóknaraðferðir í fíkniefnamálum. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa upp tillgr., innihaldi hennar lýsti ég hér í hnotskurn.

Herra forseti. Það er von mín að þessi þáltill. fái skjóta meðferð á hv. Alþingi og verði afgreidd fyrir jólahlé þm. Þessi till. felur ekki í sér mikinn kostnað og er einföld í framkvæmd en gæti haft veruleg áhrif til að fyrirbyggja þann skaðvald sem er dreifing og innflutningur fíkniefna til landsins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess að till. þessari verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. og ítreka þakklæti mitt til forseta fyrir að taka þetta mál á dagskrá nú.