15.12.1983
Neðri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þeirra orða hv. þm. Karvels Pálmasonar að þetta hefðu stjórnarandstöðuþm. mátt þola í tíð síðustu ríkisstj. vil ég bera það til baka, það er ósatt. Ég vil bara minna á að ég afgreiddi sem formaður heilbr.- og trn. mál frá Jóhönnu Sigurðardóttur, ef ég man rétt, og studdi mál hennar í hvívetna og barðist nokkuð fyrir því. Ég átti meira að segja í nokkurri orðasennu við núv. formann flokks míns og þáv. hæstv. heilbrrh. Ég minnist þess einnig að ég spurði hér og innti eftir afgreiðslu máls hv. þáv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur. Ég vil eindregið bera til baka að a.m.k. ég sem formaður í minni nefnd hafi unnið á annan hátt, enda á ekki svo að vera. Það sem skiptir máli er hvers eðlis málið er, hvort menn eru því sammála, en ekki hver flytur það. Og ég vil minna á að fyrir jólin í fyrra voru afgreidd tvö þingmannafrv. áður en þm. fóru í jólaleyfi. Annað var frv. sem ég flutti sjálf og hitt var frv. hv. þm. Salome Þorkelsdóttur. Þetta er því með öllu ósatt, hv. þm.