15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í Ed. og hefur verið samþykkt þar ágreiningslaust. Það fjallar um að breyta lögum nr. 63 1979, 5. gr. þeirra laga þannig að heimilt verði að veita sparisjóðum leyfi til gjaldeyrisverslunar á hliðstæðan hátt og nú gildir um viðskiptabanka skv. lögum um Seðlabanka Íslands. Þremur bönkum hefur þegar verið veitt leyfi til gjaldeyrisviðskipta til viðbótar við það sem áður var, þ.e. Iðnaðarbanka, Verslunarbanka og Samvinnubanka. Hér er um að ræða takmarkaða gjaldeyrisverslun fyrst um sinn, tvenns konar gjaldeyrisþjónustu, opnun innlendra gjaldeyrisreikninga og viðskipti við ferðamenn.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., ef að lögum verður, að bankastjórn Seðlabankans að fengnu samþykki viðskrh. verði heimilað að leyfa sparisjóðum að hafa sams konar fyrirgreiðslu í gjaldeyrismálum og bankarnir kunna að hafa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. fjh.- og viðskn.