15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir stuðning hvaðan sem hann kemur við það að vinna að þeim málum sem mér hefur verið falið að annast. En ég held að varla hafi farið fram hjá neinum þau orð hv. 7. þm. Reykv. að það væri mikil linka, grunsamleg linka, í vinnubrögðum af minni hendi í þessu máli. Það var þeim orðum sem ég var að mótmæla.

Hv. síðasti ræðumaður sagði að það ætti enginn að vera sekur fyrr en það sannaðist. Hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan að það væri sérstaklega einn staður hér í Reykjavík sem væri þörf að fara á, það væri Hótel Saga. Ég vil biðja hann að segja frá því hvers vegna svo sé. Hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því, úr því hann heldur slíku fram, og ég væri ákaflega þakklátur fyrir ef hann og aðrir létu vita af þeim upplýsingum sem þeir hafa um lögbrot.

Ég er ekki með mikið af bréfaskriftum í höndunum til svara í þessu máli, sem kom fyrirvaralítið. Ég sagði að landbrn. hefði haft samband við rannsóknarlögreglustjóra um þetta. Vitanlega verður það gert áfram og gengið eftir því að að þessu máli verði staðið þannig að niðurstaða fáist sem fyrst. Eins og ég sagði vænti ég þess að allir hjálpist að því að sú niðurstaða fáist.

Ég undraðist þau orð að þetta væri eina úthlaup tollgæslustjóra. g hef ekki í höndunum fleiri greinargerðir um þetta, en það hefur a.m.k. komið fram í blöðum fyrr að slíkt hafi verið gert og þá hefur stundum eitthvað fundist, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. skýrði frá. Vitanlega finnst ekki neitt nema að því sé leitað.

En ég veit ekki hvort það hefur neina þýðingu til þess að sannfæra hv. 7. þm. Reykv. nokkuð um vilja minn í þessu máli að lýsa því ítrekað yfir að ég muni gera það sem ég get til þess að það sem rétt er komi í ljós.