16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. til l. um innlenda lánsfjáröflun fyrir ríkissjóð hefur þegar verið afgreitt frá þessari hv. deild til Nd., en þar var samþ. brtt. við 1. mgr. 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir að fjmrh. fái heimild til að afla innlends lánsfjár á árinu 1983 og nemur sú fjárhæð um 200 millj. kr. Hér er um viðbót að ræða við aðrar heimildir er veittar hafa verið til innlendrar fjáröflunar á þessu ári.

Nú er ljóst að heimild sú sem hér er leitað eftir mun koma að takmörkuðum notum, þar sem lánsfé er mjög takmarkað á almennum markaði. Í frv. eru hins vegar ákvæði er segja til um lánsform þau sem notast má við þegar leitað er eftir lánsfé á inniendum markaði. Þar eru tilgreindar umtalsverðar nýjungar sem ég hef áður getið. Ég tel nauðsynlegt að fá efnisákvæði 2.–3. gr. frv. sett í lög vegna skuldabréfasölu í upphafi næsta árs, en geri till. um að 1. gr. frv., sem þegar hefur verið afgreidd í Nd., verði samþ. hér, en hún er svohljóðandi, að 1. gr. orðist svo:

„Til þess að afla innlends lánsfjár í samræmi við heimildir fjárlaga eða lánsfjárlaga hverju sinni er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að gefa út til sölu skuldarviðurkenningar ríkissjóðs í formi ríkisskuldabréfa, spariskírteina og ríkisvíxla.“

3. mgr. 3. gr. frv. falli þá niður.

Ég legg til að aths. og afgreiðslu Nd. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar og hljóti afgreiðslu hennar sem fyrst.