16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 236 ásamt tveimur öðrum hv. þm., þeim Ragnari Arnalds og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, að flytja brtt. við 6. gr. þessa frv.

Hér er verið að endurnýja skatt sem verið hefur í gildi um nokkurt skeið. Skatthlutfallið hefur verið 1.4%. Till. okkar felur aðeins í sér, að þetta skatthlutfall verði óbreytt. Meðan sífellt er verið að auka byrðar launafólks í landinu er ætlunin að létta á skattheimtu þeirra aðila sem eiga skrifstofu- og verslunarhúsnæði og borga af því skatt. Það er ætlunin að létta á þeim á sama tíma og byrðar launafólks í landinu eru þyngdar. Ég sé ekki betur en á borð okkar sé komið annað frv. þar sem enn er gert ráð fyrir skattalækkun á eignafólkinu og þeim sem betur mega sín, en stöðugt er vegið í þann knérunn að leggja meira á almenning, hinn almenna skattborgara sem hvorki er stóreignamaður né auðmaður.

Við teljum það aldeilis fráleitt að lækka þessa skatta nú við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu. Þegar um þetta mál var fjallað í fjh.- og viðskn. fengum við á fund n. fulltrúa frá fjmrn. sem reiknaði það lauslega fyrir okkur að ef skattprósentunni hér væri haldið óbreyttri — það er ekki verið að tala um að auka hér skatta þannig að hæstv. fjmrh. getur vel leyft sér að styðja þetta, hér er ekki verið að auka skattheimtu, hér er verið að halda því sama sem var — mundu tekjur ríkisins af þessum skattstofni, miðað við það sem er í fjárlagafrv. nú, aukast um í kringum 13.5 millj. kr. Án þess að hér sé talað um sérstakar eyrnamerkingar fjár bendi ég á að þessar 13.5 millj. kr. eru sú upphæð sem verið er að tala um að vanti nú í svokallaða K-byggingu við Landspítala Íslands, þannig að hægt sé að sinna krabbameinssjúklingum hér á landi með sómasamlegum og viðhlítandi hætti, eins og ég ætla að flestir hv. þm. þessarar deildar hafi lesið um í ítarlegri frásögn og umfjöllun Morgunblaðsins í gær, sem að ýmsu leyti var til fyrirmyndar um hvernig greina skuli frá og fjalla um mál af þessu tagi. Það var mjög ítarlega og vandlega gert. Ég hygg að engum blandist hugur um það, eftir lestur þess efnis sem þar var, hversu brýn þörfin er á því að hefjast handa um svokallaða K-byggingu.

Ég held að þm. geti með góðri samvisku samþykkt þessa litlu brtt. Hér er ekki um hækkanir að ræða. Hér er um að ræða að halda óbreyttu skatthlutfalli skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem verið hefur í gildi um nokkurt árabil. Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu er engin ástæða til að létta þessum skatti af. Það er ástæða til að halda honum eins og hann hefur verið. Ég er ekki að tala um að þyngja hann eða auka. Það væri þó kannske til umhugsunar bara vegna þess hvernig aðstæður eru nú í þjóðfélaginu. Það er einungis verið að tala um að halda þessu óbreyttu.

Það var annað athyglisvert sem kom fram er embættismaður fjmrn. mætti á fundi n. í gær. Það var að innheimtuhlutfall þessa skatts er ekki nema í kringum 68–70%. Það er lægra innheimtuhlutfall en flestra annarra skatta. Það sýnir sjálfsagt að þessi skattur er ekki mjög vinsæll frekar en aðrir skattar, en mér sýnist það líka sýna að ekki er gengið mjög hart eftir því að innheimta þennan skatt. Ég hef grun um að innheimtuhlutfall ýmissa launamannaskatta sé verulega miklum mun hærra en þetta. Og þá er ástæða til að spyrja: Er sýnd sérstök hlífisemi í innheimtu skattsins á skrifstofu- og verslunarhúsnæði eða hvað er hér á seyði?

Ég beini því sérstaklega til hæstv. fjmrh. hvort hann nú ekki getur fallist á að þessi litla brtt. frá okkur þremur stjórnarandstöðuþm. nái fram að ganga. Ég held að það mundi hafa mjög góð áhrif á þingstörfin þá daga sem lifa þings til jóla ef svona mál gæti náð fram að ganga. Auðvitað munum við eftir sem áður greiða fyrir því að mál geti gengið hér eðlilega fram. En ég held að þetta mundi vera spor í rétta átt. Ég legg á það þunga áherslu enn einu sinni að hér er ekki verið að auka skattheimtu. Hér er verið að innheimta með sama hætti og var gert. En hverjar brýnar ástæður liggja til þess að ríkisstj. telur nauðsynlegt að lækka skatt á eigendum skrifstofu- og verslunarhúsnæðis á sama tíma og hert er að atmenningi, ekki á einu sviði heldur öllum sviðum? Þetta er grundvallarspurning sem við verðum að fá svar við. En ég mælist eindregið til þess að fjmrh. skoði hug sinn mjög vel um hvort hann ekki geti fallist á að greiða fyrir þessari till. og bendi á enn og aftur að það fjármagn sem hér fæst gæti liðkað fyrir því að skriður kæmist á framkvæmdir við svokallaða K-byggingu Landspítalans, þannig að við þurfum ekki að bera kinnroða gagnvart þeim krabbameinssjúklingum sem hér hljóta nú meðferð í tækjum sem því miður eru ekki eins góð og vera skyldi. Það ber öllum saman um. Ég bendi hér á leið til að bjarga því máli úr ógöngum og ég treysti því að hæstv. fjmrh. skoði þetta mál ítarlega og með þeirri velvild sem ég veit að honum er eiginleg.