16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég því sem sjálfsagðri skoðun okkar Alþb.manna að þessi skattstofn yrði óbreyttur og prósentan yrði sú sama og verið hefði, 1.4%. Ég gerði það alveg sérstaklega með tilliti til þess að við efnahagsaðgerðirnar í vor sleppti hæstv. ríkisstj. versluninni ótrúlega vel. Mér fannst því kominn tími til að hún bætti nokkuð ráð sitt gagnvart almenningi í landinu með því nú að láta verslunina a.m.k. bera byrðar eitthvað í áttina við þær byrðar sem hún leggur á launafólk. Ég sé hins vegar að hv. fjh.- og viðskn. hefur ekki orðið við þessu, sennilega fundið til með hæstv. fjmrh. sem lýsti því yfir hér sérstaklega við framsögu sína í þessu máli að það væru þung spor fyrir sig að ganga hér upp og mæla fyrir þessum skatti. Það lá í orðum hans að svo fljótt sem mögulegt yrði mundi hann leggja þennan skatt af og að manni skildist fyrr en ýmsa aðra skatta, þessi skattur hefði í raun og veru í hans huga forgang af þeim sköttum sem hann mundi leggja af. Ég býst við að hv. nm. í fjh.- og viðskn. og stjórnarliðar hafi af mikilli meðaumkun með hæstv. ráðh. ekki treyst sér til þess að verða við þeirri eðlilegu ósk að skattstiginn yrði a.m.k. sá sami og var í fyrra.

Skattamál eru talsvert á dagskrá þessa dagana hér í þingi og í raun og veru kemur þar fram hugur þessarar hæstv. ríkisstj. í heild til almennings annars vegar og fyrirtækjanna hins vegar - til þeirra sem minna mega sín annars vegar og til þeirra sem fjármagnið hafa og yfir fjármagninu ráða hins vegar. Hv. þm. Eiður Guðnason vék að því að nýr jólaglaðningur hefði bæst í skjalabunka okkar þm., nýr jólaglaðningur til þeirra sem yfir fjármagninu ráða og fjármagn hafa til að draga enn frekar frá sköttum sínum, þar sem er frv. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Það er öllum ljóst að miðað við þær aðstæður sem í dag eru ná ákvæðin sem þarna eru ekki til lágtekjufólks. Það er alveg ljóst. Þeim er ætlað að ná til allt annarra — þeirra sem þegar hafa því miður allt of ærna frádráttarliði á sínum skattskýrslum og geta nýtt þá til hins ýtrasta, fyrir svo utan það hvernig þeir nota ýmsar leiðir til undanskots frá því sem lög segja til um og hafa auðvitað miklu betri tök á því en hinn almenni launamaður sem á þess engan kost að skjóta þannig undan sínum tekjum.

Já, það er talað mikið um skattamál þessa dagana og ég sé að einn af þeim sköttum, sem mun nú vera einna frægastur og illræmdastur um leið, sjúklingaskatturinn svokallaði, það fagnaðarerindi sem hv. formaður fjvn. var látinn flytja við 2. umr. fjárlaga, en hæstv. ráðherrar höfðu ekki kjark í sér til að segja frá áður, heldur urðu að láta hann flytja skilaboðin inn til þingsins, sá skattur er í dag af hv. þm. — og ég endurtek: af hv. þm. — Ellert B. Schram, því að hv. þm. er hann enn þá sem komið er a.m.k., kallaður í leiðara Dagblaðsins í dag siðlaus. Það er lýsing hv. þm. Ellerts B. Schram á þeim skatti sem ríkisstj. telur nú alveg sérstaka nauðsyn bera til að leggja á fólk. Siðleysi er orðið sem þar er notað. En á sama tíma og verið er að lækka launaforsendurnar í fjárlögum næsta árs og reikna með því að laun muni hækka mun minna og leiðrétting til manna verði miklu minni á næsta ári en menn höfðu þó gert ráð fyrir og enn betur og meir er þrengt að og jafnvel farið út í að leggja á skatt þann sem hv. þm. Ellert B. Schram segir að sé siðlaus með öllu, þá kemur hæstv. ríkisstj. með þetta fagnaðarerindi hér upp jafnhliða umfjöllun okkar um skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þar sem þeir sem betur mega sín, þeir sem yfir fjármagninu ráða eiga að fá sérstakan frádrátt frá skatti sínum á næsta ári og væntanlega framvegis. Þetta er dæmalaus óskammfeilni, að á sama tíma og þrengt er þannig að launafólki enn frekar varðandi skattamálin skuli um leið vera teknir upp í styrjöldinni við launafólkið skattar af því tagi sem hér um ræðir.

Þetta frv., sem er nú ekki til umr. hér og ég veit ekki hvort það kemur hér til umr. fyrir jól, ég reikna ekki með því frekar vegna þess að menn munu verða að hafa sig alla við til þess að ljúka þeim málum sem reiknað er með að þurfi fram að ganga, er auðvitað kóróna á óskammfeilni hæstv. ríkisstj. á sama tíma og hún boðar sjúklingaskattinn.

Aths. sem mér hefur rétt tekist að lesa yfir með þessu lagafrv. sýna líka glöggt að hér á heldur betur að rýmka til fyrir þeim sem fjármagn eiga. Hér er sem sagt frjálshyggjan komin í æðsta öndvegi, það er alveg glöggt. Og ég hlýt því að undrast og spyrja: Hvar stendur Framsfl. í þessu máli? Hefur Framsfl. virkilega samþykkt að á sama tíma og byrðar almennings eru auknar, jafnvel slík ósvinna sem sjúklingaskatturinn tekin upp, skuli farið eftir frjálshyggjupostulunum í fjmrn. og enn rýmkaðar heimildir þeirra sem yfir fjármagninu ráða til að draga undan skatti enn frekar löglega fyrir utan það sem þeir stinga undan ólöglega? Mig undrar að Framsfl. skuli vera svo langt leiddur nú þegar á fyrstu mánuðum, má segja, þessa stjórnarsamstarfs að hann skuli hafa tekið frjálshyggjuboðorðin svo gersamlega til greina sem raun ber vitni.

Ég vil svo að lokum ítreka fullan stuðning minn við þá brtt. sem hér hefur komið fram, sem er reyndar samhljóða því sem ég lýsti sem sjálfsagðri skoðun minni við 1. umr. málsins, en hlýt að ítreka þá spurningu mína varðandi það frv. sem hér hefur verið lagt á borð þm. til forsvarsmanns Framsfl. hér inni, hæstv. dómsmrh.: Er það virkilega svo, að á sama tíma og Framsfl. hefur samþykkt sjúklingaskattinn, því að tilkynning frá formanni fjvn. hlýtur að þýða að stjórnarflokkarnir hafi báðir samþykkt þennan sjúklingaskatt, skuli gengið enn til viðbótar til móts við þá sem yfir fjármagninu ráða, þá sem fjármagnið eiga, með slíku skattundanskoti sem hér er gert ráð fyrir?