24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Gengismunur í sjávarútvegi er vissulega skattur, eins og hér hefur komið fram, en gengismunur í sjávarútvegi er gjald sem sjávarútvegurinn sjálfur hefur lagt til, sem hann hefur aflað á sinn hátt eins og fiskjar er aflað. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar rætt er um að þarna sé um að ræða eitthvert óskilgetið afkvæmi í peningamálum þjóðarinnar.

Það er ánægjulegt að heyra hér raddir um að menn vilji gera upp við sjávarútveginn, vegna þess að sjávarútvegurinn hefur verið afskiptur um langa hríð, svo afskiptur að hann er með sanni hornreka í íslensku þjóðfélagi. Þeir sem stunda sjávarútveg, ef tekinn er jöfnuður þar á, geyma ekkert feitmeti í skyrtuerminni. Það eru aðrir sem gera það í þessu þjóðfélagi. Og það á að hætta þeirri þjóðnýtingu, sem hefur verið á sjávarútvegi um allt of langt skeið, — þjóðnýtingu sem byggist á því að sjávarútvegurinn er látinn byggja upp í óeðlilegu hlutfalli miðað við getu.

Það er sagt að verðbólgan sé mikið vandamál, og hún er það vandamál sem hefur verið mest í sviðsljósinu hjá okkur um nokkurt árabil. Það er annað vandamál sem í raun er miklu djúpstæðara og alvarlegra og það er rekstrarvandi sjávarútvegsins. Það er þess vegna kominn tími til að menn hiki ekki við að taka til höndum í þessum efnum. Málið snýst einfaldlega um það, að við fáum ekki nægan afla á hvert skip í dag. Við fáum ekki nægan afla miðað við það verð sem við fáum fyrir hvert kíló. Þess vegna er eðlilegt að upp komi spurningar og hugmyndir um að taka þurfi tak markaðsöflun landsmanna á öllum sviðum, jafnt í sjávarútvegi sem landbúnaði. Það er eðlileg gagnrýni og ætti að vera opin öllum og aðgengileg.

Hv. 8. þm. Reykv. nefndi sjávarútveginn og starf að sjávarútvegi auðspil. Það má kalla það ýmsum nöfnum að sinna höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, en auðspil er fremur lítillækkandi orð en hitt. Það er ekki ástæða til að deila á hluti eins og þegar rætt er um að menntamannahjal og menntamannatal ráði ferðinni í umræðum í þjóðmálum landsins, en slíkt orð og slík orðnotkun hún minnir á það hjal.

Hv. 8. þm. Reykv. fjallaði um að stór hluti skulda í landinu væri fyrir aðgerðir í sjávarútvegi. Þetta er mergurinn málsins, en þarna var komið að máli úr rangri átt vegna þess að skuldirnar í sjávarútvegi landsins eru fyrir þá sök að sjávarútvegurinn hefur ekki haldið sinni stöðu, haldið því sem hann átti skilið.

Sami þm. kvað landsmenn hafa lánað í heild til sjávarútvegsins. Það er sjávarútvegurinn sjálfur sem hefur byggt upp þá lánastarfsemi sem hann grípur til. Það er orðin lenska í þjóðfélaginu í dag allvíða, og sérstaklega í plássum og byggðum þar sem sjávarútvegurinn er ekki stór og snar þáttur í hversdagslegu lífi, það hefur orðið snar þáttur í þessum byggðarlögum, að ræða ekki um sjávarútveginn — og menn vilja ekki ræða um hann, þeim finnst hann ekki koma þeim við. Þetta er hættulegt. Þetta er hættulegt fyrir framtíð Íslands vegna þess að við hljótum að þurfa að leggja ofurkapp á að ná áttum í íslenskum sjávarútvegi. Að ná áttum í því að nýta skipakost, byggja hann skynsamlega upp, nýta fiskimið í stað þess að ofnýta. Það er þarna sem við þurfum íyrst og fremst að setja hrygg í mátin. Að setja hrygg í uppbyggingu íslensks sjávarútvegs er það stóra vandamál sem blasir við að leysa í náinni framtíð.

Hv. 5. þm. Vesturl. sneri á sinn hátt út úr fyrir fjmrh., en lagði áherslu á að við ættum að horfa á verðmætasköpunina. Auðvitað erum við sammála um það, en þá kemur líka að einum þætti, sem skiptir miklu máli í þessu efni, þ.e. grunnmenntun landsins og yfirbyggingin. Grunnmenntun landsins byggir á því að ljúka ákveðnu skyldunámi, en í stað þess að beina síðan námsbrautum landsins inn í atvinnulífið, inn í sjávarútveg, landbúnað, iðnað og þjónustugreinar, sem eru í beinum tengslum við þessar atvinnugreinar, þá beinum við menntuninni um þröngan stíg beint í Háskóla Íslands þar sem sú furðulega staða kemur upp að jafnvel háskólarektor lýsir því yfir að stór hluti af háskólaborgurum nýtist ekki í þessu landi. Háskóli Íslands sé nauðsynleg stofnun og á að búa við fulla reisn, en við höfum ekki sinnt því sem skyldi að rækta þarna upp millibrautir - rækta upp möguleika fyrir ungt fólk úti á landsbyggðinni sem í þéttbýlinu til þess að sinna arðvænlegum þáttum í íslensku þjóðfélagi.

Svo einföld eru málin ekki, sagði 5. þm. Vesturl. um lausnir í sjávarútvegi. Auðvitað er ekki um að ræða einföld mál, en það er um að ræða að taka einfalda ákvörðun, og hún er sú að vinna að þessu máli og taka því tak. Það hefur hins vegar fátt verið einfalt hjá blessuðum Alþfl. og talsmenn hafa átt erfitt með að ná áttum í hversdagslegustu málum. Hér er um að ræða mál sem við hljótum að taka alvarlega og sýna fulla virðingu. Menn í útvegi í landinu í dag eru þeir menn sem taka mesta áhættu. Margir sem eiga best reknu útgerðir landsins í dag eru bundnir á klafa. Þótt þeir vildu ganga út úr fyrirtækjum sínum geta þeir það ekki vegna þess að þeir eru þjóðnýttir, þeir eru bundnir bönkunum, þeir eru bundnir kerfinu. Það á þess vegna að skapa grundvöll fyrir sjávarútveginn, þannig að hann fái að notið sín, þannig að þetta fjöregg þjóðarinnar verði ekki að leiksoppi afla sem gera sér ekki grein fyrir því hvað mikið er í húfi. Það er því ástæða til að fagna yfirlýsingum eins og komið hafa fram hjá hæstv. fjmrh. um að það sé komið að tímamótum.

Fjmrh. sagði á umræddum fundi í Vestmannaeyjum að það hlyti að koma að því, hvort sem það yrði á næstu 10 eða 20 árum, að tekin yrði djarfleg og stórtæk ákvörðun í mátefnum sjávarútvegsins. Ég vona að hv. þm. bæti um betur og taki til hendinni talsvert fyrr.

Kerfisflokkarnir, sagði hv. þm. Skúli Alexandersson, 4. þm. Vesturl. Það kom vel á vondan að hv. þm. kallaði Sjálfstfl. kerfisflokk því það er einmitt hans flokkur, Alþb., sem mesta ábyrgð ber á miðstýringunni sem við búum við, hvort sem um er að ræða í atvinnulífi landsins eða menntakerfinu. Og þar er kannske hættulegast að einmitt inni í sjálfu menntakerfinu hefur þessi litli angi því miður haft allt of mikil áhrif. — Nei, Sjálfstfl. er ekki lítill angi og getur aldrei orðið lítill angi.

Ég minni á að ráðstöfun gengismunar í sjávarútvegi er meðferð á eigin fjármagni sjávarútvegsins þótt aðrir aðilar í þjóðfélaginu telji það réttmæta eign sína.