16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Meginatriði þessa máls komu berlega fram í máli hv. þm. Helga Seljans rétt áðan og er þar kannske ekki miklu við að bæta. En vegna þess að hér er bæði um mikið stefnumarkandi mál að ræða og óvenjulegt mál er full ástæða til að fleiri leggi þar orð í belg og bendi á hversu sérstakt þetta mál er í eðli sínu. Hér á að gefa stórar gjafir. Ríkisstj. hefur ákveðið að veita ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu býsna miklar gjafir á silfurbakka. Því hlýtur maður að velta því fyrir sér í hverju þetta örlæti er fólgið og hvernig það lítur út í samanburði við afstöðu og framkomu ríkisstj. gagnvart ýmsum öðrum þjóðfélagshópum.

Það sem einkennir núv. ríkisstj. er eins og kunnugt er býsna heiftarleg atlaga að kjörum láglaunafólks og fólks með meðattekjur, þannig að ljóst er að lágtekjufólk hefur ekki upplifað aðrar eins þrengingar í heimilishaldi sínu og nú er að koma á daginn og m.a. lýsa sér í margfalt fleiri hjálparbeiðnum lágtekjufólks til mæðrastyrksnefndar og annarra slíkra hjálparstofnana en verið hefur um mjög langt skeið. Allt er þetta afleiðing af gerðum núv. ríkisstj.

Í öðru lagi einkennir þessa ríkisstj. að hún beitir mikilli hörku gagnvart ýmsum sérstökum hópum: Námsmenn víða um heim, þar sem þeir eru við nám, sjá t.d. hreinlega ekki fram á hvernig þeir eigi að ljúka sínu námi og skilja ekki hver ósköp eru yfir þá að dynja með tilkomu þessarar nýju ríkisstj. ef hún ætlar að stöðva þá í námi með þeim breytingum á framlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna sem nú virðast vera í aðsigi og hafa að nokkru þegar átt sér stað. Ég kynntist þessu nýlega á ferð minni til Bandaríkjanna, en íslenskir námsmenn í New York kölluðu okkur þm., sem vorum staddir á þingi sameinuðu þjóðanna þar, til sérstaks fundar og gerðu okkur grein fyrir því hvílík neyð væri fram undan hjá þeim ef svo færi fram sem horfði. Það var mál þeirra að verulegur hluti þeirra sem væru við nám t.d. í New York mundi hreinlega hrökklast frá námi ef atvara yrði gerð úr þeim hótunum sem fram hafa komið um skerðingu á námslánum frá Lánasjóði ísl. námsmanna.

Þá þarf ekki að minna á þá meðferð sem aldraðir og gamalt fólk hafa sætt. Það fólk hefur orðið að taka á sig þá miklu kjaraskerðingu, sem átt hefur sér stað, með sama hætti og allir aðrir meðan lífsnauðsynjar hafa hækkað gríðarlega í verði. Nú seinast er ljóst að sjúklingarnir á sjúkrahúsum landsins eiga að verða næstu fórnarlömbin. Það er við þessar aðstæður sem örlæti hæstv. fjmrh. og núv. ríkisstj. hlýtur að líta nokkuð sérkennilega út þó að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þessir aðilar sýna mikið og óvenjulegt örlæti gagnvart þjóðfélagshópum sem alls ekki verða fyrir þeim þrengingum og þeim skerðingum sem ríkisstj. stendur fyrir. Það þarf auðvitað ekki að fræða neinn mann um það hér, að hátekjumaðurinn í þjóðfélaginu lætur sig ekki mikið muna um það þó að nokkur skerðing á kjörum hafi orðið. Ég á t.d. ekki von á því, svo að ég nefni dæmi, að þm. finni átakanlega fyrir þeim breytingum sem átt hafa sér stað á kjörum þeirra. Þó að þar sé vissulega um verulega kjaraskerðingu að ræða eins og hjá öllum öðrum eru launin það há að menn geta hagað útgjöldum sínum með öðrum hætti og ekki látið það verða að neinu neyðarbrauði á sínu heimili. En það eru hins vegar lágtekjumennirnir sem eiga fyrst og fremst um sárt að binda og fólkið með meðaltekjurnar.

En örlætið hjá núv. ríkisstj. er með þeim einstaka sérkennilega hætti að það beinist fyrst og fremst að þeim sem mest hafa og best mega sín. Við minnumst þess að eitt fyrsta verk núv. ríkisstj. var að skenkja beint úr ríkissjóði, þrátt fyrir mikið tal um þrengingar hjá ríkissjóði á þessu ári, um 50–60 millj. til þeirra sem hafa efni á að fara í skemmtiferðir til útlanda á þessu ári. Þeir fengu á silfurfati sérstakan styrk frá ríkisstj. til að gera þeim auðveldara að fara í slíkar ferðir. Jafnframt var eini aðilinn sem alls ekki þurfti um sárt að binda vegna aðgerða ríkisstj. á s.l. vori verslunin, sem fékk í fyrsta sinn um langt skeið algerlega óskerta álagningu þrátt fyrir þá miklu gengisfellingu sem átti sér stað í júní, en venja hefur verið að skerða álagningu jafnhliða því sem gengi hefur verið fellt. Vissulega sá þessi ríkisstj. um að verslunin í landinu þyrfti ekki að bera skarðan hlut frá borði á einn eða neinn hátt við gengisfellinguna og má segja að þar hafi verið um verulega kjarabót að ræða. En svo er nú komið að þriðju stóru gjöfinni sem þessi ríkisstj. ætlar að færa þeim sem best mega sín, þ.e. lækkun á skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Ég vil hins vegar taka fram að þessi afstaða ríkisstj. kemur engum á óvart. Hún kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut á óvart. Ég tel að pólitískt eðli þessarar ríkisstj. sé á þann veg að við þessu mátti að sjálfsögðu búast. Við erum ekki að horfa hér framan í neitt annað en rökréttar afleiðingar af kosningaúrslitum á s.l. sumri og rökréttar afleiðingar af því hvers konar stjórn var mynduð. Ég veit að frsm. n., minn ágæti samþm. Eyjólfur Konráð Jónsson, minnist þess að á hverjum einasta framboðsfundi á Norðurl. v. fyrir seinustu kosningar sagði ég fólki að ef sjálfstfl. kæmi til valda og fengi að framfylgja stefnu sinni mundi hann einmitt hegða sér á þennan veg. Hann mundi t.d. leggja verulega áherslu á að lækka skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, það væri hans áhugamál, það væri hans hagsmunamál og hann mundi alveg vafalaust gera það ef hann fengi völd til þess. Ég sagði hins vegar líka, að það væru erfiðir tímar í þjóðarbúinu og hvorki ríkissjóður né þjóðarbúið hefðu efni á slíkum gjöfum til þeirra sem vel eru stæðir í þjóðfélaginu. Ég væri andvígur því að ausa fé út úr ríkissjóði með þessum hætti og mundi standa algerlega gegn því og vonaðist til að kjósendur væru mér sem flestir sammála um það.

En þetta fór allt á annan veg. Þó að ég þurfi út af fyrir sig ekki að kvarta yfir stuðningi kjósenda í mínu kjördæmi fór það nú þannig að Sjálfstfl. kom allvel út úr þessum kosningum og það var mynduð sú stjórn sem við stöndum hér frammi fyrir. Þá er ekki að því að spyrja, að það verður hennar fyrsta verk að ausa út fé ríkissjóðs og fé þjóðarinnar til þeirra aðila sem síst þurfa á því að halda meðan ólin er hert af miklu miskunnarleysi hjá þeim sem verst eru staddir.

Ég þarf ekki að minna á að ég er meðflm. að brtt. sem hér liggur fyrir og skora eindregið á þm. að veita henni brautargengi, en að henni felldri mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. með framkomnu frv. því að ég vil þó að eins hár skattur sé lagður á í þessu tilviki og kostur er.